05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

92. mál, vátrygging fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég var að sumu leyti dálítið undrandi, í fyrsta lagi á þessari fsp. og í öðru lagi á svari ráðh., því að ég veit ekki betur en samkv. l. um stjórnarráð Íslands heyri vátryggingamál fiskiskipa sem öll önnur vátryggingamál alls ekki undir sjútvrh., heldur undir heilbr.- og trmrh., svo að í þessu tilfelli má segja, að það sé vitlaus maður að svara þessari fsp. En menn mega ekki taka þetta á annan veg en það er sagt og meint, það er sem sagt skakkur ráðh., sem er að svara fsp. Hins vegar hafði hann mikinn áhuga á að gerbreyta tryggingakerfinu, eins og hann sagði áðan. En ég vil nú gjarnan spyrja hinn rétta ráðh., hver sé hans afstaða til þessara mála.

Hins vegar er skylt mál þessu, sem heyrir undir hæstv. sjútvrh., sem væri mjög kærkomið og ánægjulegt að fá svar við, en það er vátryggingasjóður fiskiskipa. Fjárhagur hans stendur heldur höllum fæti, og ég hygg, að það mundu koma kvartanir víða, ef fyrirtæki í landinu stæðu jafnilla að vigi og sá sjóður, sem á að greiða meginhluta iðgjalda fiskiskipa og er rekinn með tugmilljónahalla. Á s.l. tveimur árum er halli á rekstri þess sjóðs nokkuð á 2. hundrað millj. Og mig langar til að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti nú í leiðinni gefið einhverjar upplýsingar um það, á hvern hátt eigi að bæta úr fjárreiðum þess sjóðs, þannig að hann geti staðið við sínar skuldbindingar.