06.12.1972
Efri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa mikilli ánægju minni með það, að þetta frv. skuli vera fram komið. Hér er um að ræða mikið og merkilegt mál. Það er merkilegt mál frá almennu sjónarmiði, og það er mikið mál frá sjónarmiði þeirra byggðarlaga, sem koma til með að njóta þeirra framkvæmda, sem hér er gert ráð fyrir. Ég get tekið að öllu leyti undir ástæður þær, sem hæstv. iðnrh. taldi fram máli þessu til stuðnings. Þetta er frá mínu sjónarmiði svo augljóst mál, og ég skal ekki fara að tefja hér umr. með því að fara að endurtaka einstök atriði, sem hæstv. ráðh. taldi fram í þessu sambandi.

Ég vil samt ekki láta hjá líða að geta þess, að mér finnst, að hér sé um nokkurt framhald að ræða af þeim fyrirætlunum, sem uppi voru og ákveðnar voru á sínum tíma um Vestfjarðaáætlun. Þegar ákveðið var að fara út í samgönguþátt Vestfjarðaráætlunar árið 1964 og framkvæmdir hófust 1965, var gert ráð fyrir, að þar yrði aðeins um fyrsta þátt að ræða í alhliða uppbyggingu Vestfjarða. Síðan kæmu til framkvæmda aðrar hliðar hinnar alhlíða uppbyggingar, svo sem atvinnumál, félagsmál, menningarmál o.s.frv. Því miður hefur orðið óeðlileg töf á framkvæmd við framhald Vestfjarðaáætlunarinnar og ég skal ekki fara að rekja það mál hér. En mér sýnist, að hér sé einmitt um slíka framkvæmd að ræða, að hún hefði veríð verðugt viðfangsefni fyrir Vestfjarðaáætlun. Auðvitað kemur hún að sama gagni, þó að hér hafi ekki verið nefnd Vestfjarðaáætlun í sambandi við framkvæmd þessa máls. En með þessum orðum vil ég undirstrika það, sem hæstv. ráðh. sagði raunar, hve mikla þýðingu málið hefur frá byggðasjónarmiði.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það eru margháttuð ytri skilyrði á Reykhólum til þess, að þar myndist byggðakjarni. Það er augljóst mál, hvaða þýðingu þessi framkvæmd, sem hér um ræðir, hefur fyrir slíka þróun á Reykhólum. En hæstv. ráðh. benti líka réttilega á, að þetta mál hefði áhrif á þróunina í Breiðafjarðareyjum, og nefndi sérstaklega Flatey. Ég vil vekja athygli á í því sambandi og með tilliti til þess, að hæstv. ráðh. vék að hugsanlegum möguleikum á að útvíkka þessa starfsemi, sem nú er talað um, ef það fæst aukinn erlendur markaður fyrir þessa framleiðslu, að þá geti eins komið til greina í framtíðinni að athuga möguleika á slíkri verksmiðju t.d. í Flatey. Það segja mér kunnugir menn, að það séu allar líkur á því, að ef borað er, fáist þar heitt vatn. En þar eru líka hafnarmannvirki fyrir hendi, og þar eru þang- og þaranámurnar jafnvel nærtækari en á öðrum stöðum. Ég vek aðeins athygli á þessu að gefnu tilefni til þess að sýna fram á, hve miklir möguleikar kunna að vera í þessu efni og framhaldi þessara framkvæmda, ef vel tekst til á Reykhólum, sem ég að sjálfsögðu vonast til.

Það hefur komið fram hér hjá hæstv. ráðh. og síðasta ræðumanni og grg. frv. ber það með sér, að það er lengi búið að vinna að þessu máli eða allt frá því um 1950. Ég skal ekki fara að rekja þá sögu. En mér þykir eðlilegt að undirstrika, hvað einn maður, Sigurður V. Hallsson verkfræðingur, hefur unnið mikið og merkilegt starf í þessu efni. Þessi maður er búinn að vinna að þessum málum, margháttuðum rannsóknum, athugunum og tilraunum, í 15 ár. Það er langur tími og oft og tíðum og langtímum saman hefur það svo verið, að hann hefur virzt vinna að þessu að eigin frumkvæði. En þegar farið er að vinna að þessum málum í upphafi, er það Rannsóknaráð ríkisins, sem kemur þar við sögu strax 1960 og aftur á síðari árum, en á árunum 1968–1970 vann Sigurður V. Hallsson að þessum málum í samvinnu við rannsóknaráð og Orkustofnun.

Ég vil líka láta þess getið, að þó að Sigurður V. Hallsson verkfræðingur hafi unnið svo mjög með eigin framtaki að þessu máli, hafa að sjálfsögðu fyrir utan rannsóknaráð og Orkustofnun, — ég segi að sjálfsögðu, — aðrir aðilar komið þarna við sögu. Vísindasjóður mun t.d. hafa veitt styrk til Sigurðar í sambandi við þetta mál, enn fremur fiskimálasjóður og loks Atlantshafsbandalagið í sambandi við grundvallarrannsóknir á þara og þangi. Sigurður V. Hallsson hefur svo haft samband við Alginate Industries í Skotlandi í 11 ár. Á þessum tíma hefur hann unnið að ýmiss konar athugunum og sent þessu fyrirtæki sýnishorn af þangi og þara.

Ég bendi aðeins á þetta vegna þess, að þetta er gleðilegur vottur þess, hvernig framtak og brautryðjandastarf einstakra áhuga- og kunnáttumanna getur miklu áorkað og komið miklu til leiðar. Mér finnst, að þetta sé dæmi um slíkt.

Af þessum ástæðum og ég vil segja mjög fyrir áhrif frá Siðurði V. Hallssyni hefur eðlilega myndazt mikill áhugi á þessum málum í héraði. Vegna þess áhuga var stofnað hlutafélagið Sjávaryrkjan á s.l. vori, eins og hæstv. ráðh. gat um. Þetta sýnir bæði skilning og áhuga heimamanna. Og svo mikið sem allur almenningur og þjóðin í heild á undir þessu máli, þá eiga heimamenn að sjálfsögðu ekki minnst undir því, að framgangur þess verði góður og heillavænlegur. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir því, eins og raunar er sjáifsagt, að þessi félagsskapur heimamanna geti átt hlutdeild í því hlutafélagi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að verði stofnað. Ég vil skjóta því fram, að mér finnst eðlilegt, að þetta félag hafi forgangsrétt að hlutafé. Ég geri raunar ráð fyrir, að það verði auðvelt að verða við því í framkvæmd.

Um einstök atriði frv. skal ég ekki fara að ræða. Frv. kemur til n., sem ég á sæti í. Það er kannske spurning, hvort það sé rétt að hafa það ákvæði bindandi í lögum, að ríkið skuli hafa meiri hluta í þessu félagi. Mér finnst, að það sé eðlilegt, að ef ríkið leggur fram meiri hl., þá sé það svo. En ef svo kynni að vilja til, að fjármagn gæti borizt eftir öðrum leiðum, finnst mér eðlilegt, að þeir, sem leggja fram meginhluta fjármagnsins, hafi meiri hl. í félaginu. Ég segi nú aðeins, að þetta kemur til greina. Ég er ekki að gera þetta að till. minni nú.

Af sömu ástæðum kann það að orka tvímælis, hvort rétt er að taka fram í frv., að ríkið eigi að eiga 51%. Mér finnst, að það kunni að vera eins eðlilegt að láta það ósagt, láta það ráðast. Hins vegar tel ég, eins og gert er ráð fyrir, að það sé ekki eðlilegt, að erlendir fjármagnseigendur eigi meiri hl., hvorki í félaginu né í stjórninni. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta frv. væri sniðið, ef ég hef skilið rétt, eftir löggjöf, sem hefur verið sett til undirbúnings olíuhreinsunarstöðvar, og það kann að vera, og auðvitað er það svo, að það er nokkur trygging fyrir því, að það sé farið rétt að í uppbyggingu þessa frv., ef það er gert á sama hátt og fyrrv. ríkisstj. gekk frá frv. og lögunum um olíuhreinsunarstöðina. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðh. um það. (Gripið fram í.) Ráðh. segir, að hann hafi flutt brtt., sem hafi verið samþ., og þetta sýnir einungis, að lengi má gott bæta. En ég byrjaði þessi orð mín með því að lýsa mikilli ánægju yfir framkomu þessa frv., eins og það er lagt fram. Og ég vil leggja áherzlu á það, eins og hæstv. ráðh. gerði, að máli þessu verði flýtt, af þeim ástæðum, sem hann taldi fram. Ég vil einungis segja það í því efni, að ég mun gera allt, sem í mínu valdi stendur, til þess að málið fái fljótan og greiðan framgang gegnum þingið. Málið er þess eðlis, að það á ekki að þurfa að eyða löngum tíma í afgreiðslu þess, málið er þjóðnytjamál, og það þolir ekki bið. Ég tek undir óskir um, að það fái greiðan framgang.