10.12.1973
Efri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Reykn., Axel Jónsson, sagði hér um frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Það, sem ég vildi gjarnan að fram kæmi einnig, er í fyrsta lagi varðandi fyrri þátt frv., er fjallar um fyrirframgreiðslu. Ég vil gjarnan vekja athygli hv. þd. á því, að þessi efnisþáttur er shlj. brtt., sem var flutt af hálfu okkar sjálfstæðismanna við tekjustofnalög sveitarfélaga, er ríkisstj. gekkst fyrir, að sett yrðu snemma árs 1972. Þá var talið ómögulegt að fallast á þessa brtt. okkar sjálfstæðismanna, hún mundi hafa í för með sér íþyngjandi áhrif fyrir gjaldbyrði skattgreiðenda, þótt við teldum einmitt slíkri brtt. til gildis, að hún dreifði gjaldbyrðinni á skattgreiðendur jafnar yfir árið. Ég tel vel farið, að hæstv. ríkisstj. hefur þannig fallist á okkar sjónarmið.

Varðandi síðari þátt þessa frv. er þar um að ræða heimild til ráðh. um að hækka fasteignamatið sem gjaldstofn í samræmi við verðlagsbreytingar. Ég sé ekki annað í fljótu bragði heldur en hér sé um óhjákvæmilega breytingu að ræða, en vil í því sambandi leggja áherslu á, að endanlega verði gengið frá lögum um fasteignamat. Þau hafa verið í endurskoðun, hygg ég, um margra ára skeið. Sannleikurinn er sá, að það var varið mjög hárri upphæð til þess að gera nýtt fasteignamat. Slíkt fasteignamat er til margra hluta gagnlegt, ekki eingöngu til þess að miða ýmis gjöld við það, heldur og ýmsa stefnumörkun í byggingar- og skipulagsmálum og félagsmálum sveitarfélaga og landsins alls. Þeim fjármunum, sem fóru í endurskoðun fasteignamatsins, er á glæ kastað, ef því er ekki haldið vel við. Ég vil því leggja áherslu á, að um leið og slík breyting sem þessi er eðlileg, a. m. k. að vissu marki, þá sé gerð gangskör að því að halda fasteignamati ríkisins við, þannig að það sé nothæfur grundvöllur til ákvarðanatöku á margvíslegum sviðum. Hér hefur átt sér stað mjög mikil vanræksla hingað til af hálfu ríkisstj., og vænti ég þess og vona, að úr þeirri vanrækslu verði bætt.