10.12.1973
Efri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mig rekur minni til þess, er fyrrv. stjórnarflokkar stóðu að frv. um breytingu á innheimtukerfi, þá hafði hæstv. núv. félmrh. mörg orð uppi um, hvað við værum að gera í því efni, íþyngja skattborgurunum, og hafði um það mörg orð. Nú stendur hann hér í stólnum og tekur fram, að hann ætli ekki að verða langorður um sama efni, þó að lengra sé haldið á þeirri braut, sem þá var mörkuð.

Ég skil vel sjónarmið sveitarstjórnarmanna, að þeir æski eftir þessari breytingu og rökstyðji hana með því, að það sé auðvitað bæjarfélaginu til þæginda að hafa sem jafnastar tekjur og því sé eðlilegt að fara upp í 60% úr 50% í möguleika á að innheimta fyrirfram ákveðinn hluta af útsvari miðað við s. l. ár. Þetta er mjög eðlilegt og sennilega nauðsynlegt, sérstaklega í því tilfelli, þegar það er raunar undirstrikað í þessu frv., að gengið er út frá því, að verðbólgan geisi hér áfram. Mér finnst það algerlega undirstrika það sjónarmið, að það verði ekki annars að vænta en verðbólga geisi hér áfram. Og ef menn vilja fletta við og líta á 2. síðu frv., þá er þar mjög vel sett fram í stuttu máli, hvernig verðbólgan hefur geisað hér s. l. ár, frá því í mars 1970. Þá var byggingarvísitalan 439 stig, en hefur nú hækkað upp í 913 stig. Og þetta er ríkisstjfrv. og mjög skýrt og stutt sagt frá. Það er gert ráð fyrir, að þetta haldi áfram, ella væri ekki þessi brýna nauðsyn á að gera þessar ráðstafanir, að mínu mati a. m. k.

Síðari er sagt, að grundvöllur fasteignaskatts verði óbreyttur á þessu ári frá árinu 1972, og það á að fara fram á, að fjmrh. fái heimild, eins og segir í 2. gr., að ákveða breytingu á hinu nýja fasteignamati til samræmis við verðlag 1. nóv. 1973. Nú liggur ekkert fyrir, við hvað á að miða þetta verðlag. Eigum við að fara eftir ákveðnum verslunum, sem selja timbur eða byggingarvörur og þar fram eftir götunum, eða á Hagstofan að annast það? Við skulum treysta því, að hún taki viðtækt úrtak, þannig að við fáum skynsamlegt meðaltal í verðlaginu, en ég vildi gjarnan vita um þetta. Kannski er hægt að fá að vita um þetta í n. og ekki þurfi að vera að spyrjast fyrir um það núna. En þetta skiptir máli vegna þess, að verðlag á byggingarvörum hefur verið mjög mismunandi í verslunum vegna verðbreytinga erlendis frá, svo að nemur 10–15% eða jafnvel meira. Það eru auðvitað hvergi nærri tekjur í hendi, þó að fasteignamat eða fasteignir hækki. Það eru ekki tekjur lausar í hendi, öðru nær en það sé hjá fólki, sem er nú gamalt og hefur lítið við að vera og á sína íbúð og varla meira, þannig að það þarf líka að gæta hófs í því og er í gildandi l., að það fólk fái möguleika á afslætti eða jafnvel algerlega undanþágu frá að greiða skattinn. Ég vil aðeins undirstrika það, að í þessu ákvæði felst nokkur hætta á verulegri greiðslubyrði fyrir margt fólk í landinu. Eðlileg rök eru fyrir því, að bæði sveitarfélög og fjmrh. fái þessa heimild, en það verður að beita því af skynsemi og fara að öllu með gát, þrátt fyrir það að verðbólgan haldi áfram og fólk geti greitt með verðminni krónum. Fari svo, að hið nýja fasteignamat hækki gífurlega, segir mér svo hugur um, að margt fólk verði í vandræðum með að greiða sín fasteignagjöld. Það hefði ekki verið ófróðlegt fyrir okkur í hv. d. að fá að vita um það, hvernig innheimtan stæði á fasteignagjöldum, a. m. k. í nokkrum bæjarfélögum, og hversu margir hafa sótt um undanþágu um að þurfa ekki að greiða fasteignagjöld. Allt þetta þyrftum við að vita, þegar við fjöllum um frv. sem þetta.

Ég skil mætavel það sjónarmið, sem var rakið hér af hv. þm. Axel Jónssyni, 4. þm. Reykn., því að sveitarfélögin eru í mikilli fjárþörf, og því héldum við fram, þegar við vorum að fjalla um tekjustofna sveitarfélaga á sínum tíma hér í hv. Alþ. En núv. ríkisstj. breytti þeim l. mjög.

Nú í andránni hefur verið lagt á borð hjá þm. frv. til l. um skráningu og mat fasteigna, og er það allmikill lagabálkur og mun verða fjallað um það á sínum tíma allmiklu nánar og málið tekið föstum tökum. En ég vil undirstrika orð síðasta ræðumanns, að þetta þarf að halda áfram að vera í föstu formi, eins og það var sett á sínum tíma, og má ekki koðna niður, svo að eignir landsmanna séu réttilega og skipulega metnar. Ég vildi aðeins undirstrika það, að þetta frv. hefur í för með sér beina íþyngingu fyrir allstóran hóp greiðanda, og ég ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj., ef hún fær þessa heimild, meti á raunsæjan hátt, hvernig þetta fólk getur staðið undir slíkri greiðslubyrði í vaxandi verðbólgu, eins og gert er ráð fyrir sýnilega að verði hér áfram um óákveðinn tíma.