11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fyrstu fsp. vil ég segja það, að ríkisstj. hefur setið samningafundi með allsherjarsamtökum vinnumarkaðarins launþegamegin, þ. e. bæði Alþýðusambandinu, fulltr. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fulltr. háskólamanna. Á þessum fundum hefur verið rætt það, sem sérstaklega sneri að ríkisstj. í kröfum Alþýðusambandsins, eins og skattamál og hliðstæð mál þar að lútandi. Þessir fundir fóru fram með vinsemd, og það voru gerðar á vegum Hagrannsóknastofnunarinnar sérstakir útreikningar út frá þessum viðræðum. Niðurstöður um það hafa hins vegar ekki komið í ljós enn þá, og er dálítið síðan fundur hefur verið haldinn um þann þáttinn, enda hafa umræður þá meira snúist að atvinnurekendum af hálfu þeirra Alþýðusambandsmanna.

Viðvíkjandi því, sem snýr að ríkinu sjálfu, þá skal ég upplýsa það, að á fundi með kjaranefnd ríkisins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja var gert sérstakt tilboð 23. okt. s. l. Var ákveðið í því tilboði að skera neðan af þrjá neðstu flokkana og að hækka laun um 5% þar frá og upp að og með 14. launaflokki, eftir það væri aðeins um krónutöluhækkun að ræða, þ. e. sömu og væri í 14. launaflokki.

Samkv. ósk Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og einnig með samþykki Bandalags háskólamanna var lengdur fresturinn til þess að vera með málið hjá sáttasemjara ríkisins. Á fundi 6. þ. m. gerði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja nýtt gagntilboð við þessum till. ríkisstj. Það gagntilboð var lagt fyrir ríkisstj. í morgun, og tók hún ákvörðun um svar við því, en að sjálfsögðu mun ég ekki fara að skýra frá því hér. Þetta gagntilboð, sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gerði ríkinu, var verulega hærra en tilboð það, sem ríkisstj. hafði gert Bandalaginu, eða um 12% hækkun frá 10. upp í 14. flokk og svo sama krónutala úr því. Þannig standa málin nú, að þessu gagntilboði verður svarað. Um stöðu í þessum samningaviðræðum get ég ekki frekar upplýst, og ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að grípa inn í það mál með ótímabærum hætti, það hefur ekki komist á það stig, að talin hafi verið ástæða til þess. Aðeins hefur hún fjallað sérstaklega um þá þætti, sem til hennar var beint, og mun halda áfram að vinna að því, og svo þann þáttinn, sem að henni snýr sérstaklega, þar sem eru hennar eigin starfsmenn.