13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

160. mál, almannatryggingar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka undir framsöguræðu hv. flm. og þau rök, sem hann færði fyrir frv. sínu. Það væri mjög eðlilegt, miðað við atvinnuaðstæður og lífsbaráttu Íslendinga, ef gömlum sjómönnum væru veitt slík réttindi, við skulum ekki kalla það hlunnindi, því að miðað við þá kröfu, sem gerð er í frv., að þeir hafi stundað sjó í 35 ár, þá sýnist mér, að þeir muni hafa unnið ærið vel fyrir slíkum réttindum. Það er hárrétt hjá flm., að fyrir mann, sem hefur verið á sjó í 35 ár, er ekki auðvelt að koma í land og eiga að finna sér annað starf til eins eða tveggja áratuga, og mun þurfa minna til að baka einstaklingum erfiðleika við að flytja síg á milli starfa.

Hv. flm. svaraði þeirri hugsanlegu mótbáru, að nú væri minni ástæða en endranær til að hugsa um slíkt mál sem þetta vegna ástandsins á vinnumarkaðinum. Ég tel, að slík mótbára væri hrein fásinna, því að slík réttindi sjómanna mundu einmitt í árferði eins og núna er koma að mjög góðu gagni, af því að félagsleg réttindi auka festu í hverri atvinnustétt, og ættu sjómenn von á slíkum réttindum, ef þeir hefðu stundað sjómennsku það tímabil, sem greint er, mundu þeir hika við að hlaupa úr skipsrúmi til að grípa uppgripavinnu í landi, þegar hún gefst, kannske í hálft eða eitt ár. Þannig mundu slík félagsleg réttindi og önnur af sama toga verða til að skapa aukna festu í sjómannastéttinni og veita allri útgerð meira öryggi og betri líkur á því að hafa tryggan og góðan vinnukraft. Þannig mundi þetta mál ekki aðeins vera réttindamál til handa sjómönnum, heldur töluvert mikið umbótamál fyrir þeirra stétt og fyrir þau atvinnutæki, sem þeir vinna við.