13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 4. þm. Vesturl. og raunar fleiri, sem töluðu hér, þegar þetta frv. var til umr. á dögunum.

Ég skal taka undir þau orð hv. 4. þm. Vesturl., að ein af ástæðum þess, að hreppsnefnd Hólshrepps óskaði eftir því, að þm. kjördæmisins flyttu þetta frv. um kaupstaðarréttindi, er, að þeir verða að sækja þjónustu í annan kaupstað í sambandi við almannatryggingarnar. Þetta er auðvitað ein af mörgum ástæðum. Hitt atriðið, sem hann vék að og raunar fleiri í sambandi við sýsluvegina, það er laust mál við þetta í sjálfu sér og á ekki að verða til þess að hefta á nokkurn hátt framgang þessa frv. eða annarra skyldra frumvarpa. En það hlýtur að vera skylda Alþ. að breyta vegal. hvað snertir fjáröflun til sýsluveganna. Ég fyrir mitt leyti tel eðlilegt, að þessi tegund vega, sýsluvegir, fái sitt fjármagn á sama hátt og aðrar tegundir vega, eins og þjóðbrautir og landsbrautir. Það er í raun og veru engin ástæða til þess, að fámennir sveitahreppar og hin allra minnstu kauptún eigi að standa undir jafnstórum hluta af kostnaði við sýsluvegina og nú er, en kaupstaðir og allar hinar fjölmennari byggðir eigi að sleppa. Sýsluvegirnir eru auðvitað fyrir alla jafnt, eins og aðrir vegir. Þetta eru vegir, sem eru opnir fyrir allri umferð og fyrir alla landsmenn, og því er eðlilegt að breyta vegal. í þetta horf. Á sínum tíma var þetta form tekið upp. Því var breytt að nokkru með setningu núgildandi vegal. í þá átt að auka hlutdeild ríkissjóðs eða réttara sagt vegasjóðs í þessu efni. Nú hefur reynslan sýnt okkur, að það er orðin full og brýn nauðsyn á því að bæta hér enn úr og breyta l. á þennan hátt. Ég tek því alveg undir orð hv. þm. um það, og ég væri því mjög hlynntur, að slík breyting yrði gerð á vegalögum.