29.10.1973
Neðri deild: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

15. mál, orkulög

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Þegar frv. sama meginefnis og hér liggur fyrir var til umr. á síðasta Alþ., lét ég í ljós þá skoðun mína, að sú grundvallarhugsun, sem ég reiknaði með, að lægi að baki því, ætti fullan rétt á sér. Svo sem hér hefur verið gerð grein fyrir, er þetta frv. um breyt. á l. nr. 53 29. apríl 1967, orkul., í öllum aðalatriðum eins og sams konar frv. á síðasta þingi, sem ekki var útrætt, en þó frábrugðið að því leyti, að tekið er nú inn sérstakt ákvæði varðandi sveitarfélög, sem er til bóta, en þó ekki fullnægjandi að mínum dómi. Svo er einnig smávægileg orðalagsbreyting á einum stað í þessu frv. Að öðru leyti er þetta frv. eins og sams konar frv., sem hér var til umr. á síðasta þingi.

Ég vil hér endurtaka þá skoðun mína, sem ég lýsti við umr. um þetta mál fyrr á þessu ári, að hér er á ferðinni mikilvægt mál og gott mál. Ég tek undir þá heildarstefnu, sem þar kemur fram. Það er eðlilegt og til þjóðarheilla, að hin geysimikla orka, sem falin er í háhitasvæðum og líklegt talið, að verði fyrst og fremst nýtt til stóriðju, raforkuvinnslu og jafnvel einnig til hitaveitu í þéttbýli, sé til umráða og hagnýtingar af hinu opinbera. Hvort tveggja er, að það er ekki á færi neinna einstaklinga að tryggja nýtingu þessarar orku fyrir þjóðarheildina eða einstök sveitarfélög, svo að vel sé, og svo einnig hitt, að skynsamleg hagnýting hennar verður aldrei skipulögð að gagni í þágu alþjóðar til orkuvinnslu eða annarra stóriðjuframkvæmda nema af opinberum aðilum, þ. e. ríkinu og sveitarfélögunum í samvinnu og samstarfi.

En það er eitt veigamikið atriði í þessu frv. eins og í hinu fyrra, sem fram kom á síðasta þingi, sem ég get ekki fellt mig við. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki telja nægjanlegt, að háhitasvæðin komist í almannaeign eða undir umráð ríkis og sveitarfélaga. Hún vill samkv. frv., að sveitarfélög í landinu verði svipt umráða- og hagnýtingarrétti yfir eigin háhitasvæðum og ríkisvaldinu fenginn sá réttur í hendur. Á þetta atriði get ég ekki fallist. Ég lagði því fram brtt. varðandi þetta atriði við frv., um sama efni, fyrr á þessu ári, þar sem tekin væru af öll tvímæli um það, að háhitasvæði sveitarfélaga yrðu áfram í eign og umráðarétti þeirra. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur að nokkru komið til móts við þetta sjónarmið, með því að í því frv., sem nú liggur fyrir. 2. mgr. 2. gr., er þó gert ráð fyrir því, að þau sveitarfélög, sem land eiga á háhitasvæði við gildistöku l. þessara, skuli hafa forgangsrétt til vinnsluleyfis á því landi og vera undanþegin leyfisgjöldum fyrir vinnslu á því landi, enda hafi þau sótt um vinnsluleyfi innan 5 ára frá gildistöku l. Í þessu felst viðleitni af hans hálfu til að koma til móts við þetta sjónarmið, sem ég túlkaði hér fyrr, þegar þetta mál bar á góma. En þetta er að mínum dómi ekki fullnægjandi. Það þarf að koma þessu atriði þannig fyrir, að sveitarfélögin séu ekki svipt þeim rétti, sem þau eiga í háhitasvæðum nú.

Ef til vill kann brtt. mín ekki að vera einhlít lausn á þessu máli; og ef hægt er að komast að samkomulagi í n., sem fær þetta mál til meðferðar, um annað fyrirkomulag, sem tryggi það, sem fyrir mér vakir, þá er það nægjanlegt fyrir mig. Og ég vona, að n. takist að finna þá lausn á þessu, sem viðunandi geti talist fyrir þau sveitarfélög, sem hér eiga hlut að máli.

En kjarni þessa máls er að mínum dómi sá, og ég vil undirstrika það að lokum, að háhitasvæðin komist í almannaeign. Þetta hefur verið áhugamál okkar Alþfl.- manna, eins og allir vita. Við höfum hér á hinu háa Alþ. komið fram með þáltill. í Sþ., sem felur í sér að hluta sömu hugsun og felst í frv., þ. e. að háhitasvæðin komist í almannaeign. Að því ber vissulega að stefna, að svo geti orðið. Ég vona, að meginmarkmið frv. nái fram að ganga, en með þeirri breytingu, sem ég tel, að nauðsynlegt sé að gerð verði, og kemur fram í brtt., sem ég hef hér endurflutt.

Það þarf að koma þessu fyrir á þann veg, að skipulagning á hagnýtingu háhitasvæðanna og rannsóknarframkvæmdum í því sambandi sé undir forustu ríkisvaldsins, án þess að umráð og eignarréttur sveitarfélaganna sé í nokkru skertur á umræddum svæðum umfram það, sem segir í 2. gr. frv. um, að leyfi Alþ. til vinnslu jarðhitans með borunum á háhitasvæðum þurfi að koma til.

Ég undirstrika stuðning minn við þetta frv., en legg á það ríka áherslu, að því verði breytt á þann veg, að sveitarfélögin haldi umráða- og eignarrétti yfir sínum háhitasvæðum.