30.01.1974
Efri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Út af því sem hv. þm. Jón Ármann Héðinsson sagði í sambandi við 1. gr., þar sem hann virtist telja, að iðnrn. hefði dottið í hug, að Orkustofnun ætti að starfrækja þessa virkjun, þá hefur það aldrei staðið til. Það er talað um að fela þetta verkefni væntanlegri Norðurlandsvirkjun, og eins og ég gat um í framsögu um þetta mál, geri ég mér vonir um, að Norðlendingar sameinist um slíkt orkuöflunarfyrirtæki í landsfjórðungi sínum. Ég held, að það sé ákaflega mikilvægt að tryggja samheldni og samstöðu manna um allt Norðurland og koma í veg fyrir, að þar séu uppi sífelldar deilur um, hvar eigi að ráðast í næstu minni háttar virkjun. Ég held, að félagslega séð sé ákaflega mikilvægt, að þessi skipulagsbreyting verði, og ég geri mér vonir um, að hún muni ná fram að ganga. Í þessu sambandi má svo benda á, að Laxárvirkjun hefur bent á sig sem virkjunaraðila. Rafmagnsveitur ríkisins eru líka virkjunaraðili úti um landið, þannig að þarna er ekki um að ræða Orkustofnun sem slíka.

Ég held, að það þýði ekki mikið, að við hv. þm. Geir Hallgrímsson stöndum í ákaflega löngum deilum um liðna atburði. En ég vil mótmæla því alveg sérstaklega, hvernig hann reyndi að skýla fyrrv. ríkisstj. á bak við Jóhannes Nordal seðlabankastjóra. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri stóð í mikilvægri samningagerð fyrir fyrrv. ríkisstj., vegna þess að það er á allra vitorði, að hann er mjög hæfur maður og vinnur verk sín af mikilli samviskusemi og þekkingu. En auðvitað mótar hann ekki stefnuna. Það er ríkisstj., sem greinir honum frá því, hvernig hún hugsi sér, að samningar eigi að vera. Það er ríkisstj., sem mótar stefnuna að sjálfsögðu. Ég hef ekki átt vitundarögn erfitt með að starfa með Jóhannesi Nordal. Hann er mjög hæfur maður, eins og ég sagði áðan. En ég geri auðvitað grein fyrir mínum stefnumálum í þessu sambandi, og hann hefur að sjálfsögðu tekið tillit til þeirrar stefnu í störfum sínum. Þannig störfum við að sjálfsögðu, ríkisstj. með embættismönnum. Embættismennirnir viðurkenna að sjálfsögðu, að það sé hlutverk ríkisstj. að marka stefnuna, og þeir líta á það sem skyldu sína að reyna að vinna sem best í haginn fyrir slíka stefnumörkun. Það eru því ósannindi með öllu, ef hv. þm. ætlar að fara að gera Jóbannes Nordal ábyrgan fyrir ákvörðunum fyrrv. ríkisstj, í raforkumálum.

Hv. þm. sagði, að í áformum Landsvirkjunar væri gert ráð fyrir 25 MW sölu til Álverksmiðjunnar. Það er alveg rétt, að álbræðslan hefur mikinn hug á því að lengja skála sinn og bæta við hann. Það er tiltölulega lítill tilkostnaður fyrir bræðsluna að ráðast í þessa aukningu, og sameiginleg aðstaða er þarna nægileg fyrir alla slíka framleiðslu. Hins vegar er ekki um það að ræða, að neinn slíkur samningur verði gerður af hálfu ríkisstj. við ÍSAL, nema það komi til. að hægt verði að taka allan samninginn frá 1966 til endurskoðunar. (Geir H.: Það var einmitt það, sem ég var að benda á) Hv. þm. var að benda á, að það væri hægt að fá hærra verð fyrir þessi 20 MW, sem er um að ræða. En það mundi í sjálfu sér ekki leysa neinn vanda. Vandinn er sá, að það verður að taka allan samninginn frá 1966 til endurskoðunar, og í því sambandi er aðstaðan ákaflega erfið, vegna þess að í samningnum er ekki neitt tangarhald til að taka slíkt upp. Við eigum það þá undir sanngirni okkar viðsemjenda, hvort þeir samþykkja það eða ekki. Ef þeir vilja halda fast á sínu máli, geta þeir að sjálfsögðu neitað því, að um nokkra endurskoðun gæti verið að ræða. Ég veit ekki um neinn samning af slíku tagi, sem er þannig, að í honum séu ekki einhver ákvæði um það, að einhverjir óvæntir atburðir gerist, einhverjir ófyrirsjáanlegir atburðir, þegar menn eru að semja til jafnlangs tíma og til aldarfjórðungs, sé það forsenda þess, að hægt sé að taka samninginn til endurskoðunar. Ég sagði raunar við forráðamenn Alusuisse, að ástæðan fyrir því, að slíkt ákvæði væri ekki að finna í samningnum, hlyti að vera það, að báðir aðilar hefðu talið það svo sjálfsagt, að óþarfi væri að taka það fram. Þetta er góðviljaðasta túlkun, sem hægt er að finna á þessari makalausu staðreynd.

Hv. þm. sagði, að ákvörðunin um að miða Sigölduvirkjun við innlendan markað hefði frestað framkvæmdum við virkjunina um eitt ár. Ég hef nýlega gert grein fyrir því, að það hefur ekki verið um neina frestun að ræða af hálfu rn. Öll erindi Landsvirkjunar til rn. hafa verið afgreidd umsvifalaust. Formleg umsókn um virkjunarheimild til Sigölduvirkjunar var afgr. í rn. á einum degi. Ég bar það upp við ríkisstj. daginn eftir að beiðnin var send, og hún var afgreidd daginn eftir. Hins vegar er Landsvirkjun sjálfstætt fyrirtæki, eins og vitað er. Hún er sameignarfyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurborgar, og svo er í stjórn hennar oddamaður, sem báðir aðilar koma sér saman um. Þessi sjálfstæða stofnun leysir sín vandamál án þess að leita til eignaraðila nema í einstökum tilvikum. Hafi þarna verið um einhverjar annarlegar tafir að ræða, hefur það verið hjá sjálfri Landsvirkjunarstjórn, en ekki eignaraðilunum. Ég veit ekki til þess, að Reykjavíkurborg hafi tafið nokkurn skapaðan hlut í þessu sambandi. Hins vegar er afar fróðlegt að heyra, að Alþjóðabankinn hafi verið að reyna eftir þessum leiðum að hafa áhrif á stefnu og ákvarðanir íslenskra stjórnarvalda. Alþjóðabankinn hefur reynt þetta áður og gert þetta áður, og er það að sjálfsögðu mjög hart undir því að búa, að erlend peningastofnun skuli hlutast til um stefnumörkun okkar Íslendinga í mjög mikilvægum málum. Þetta gerðist á sínum tíma í sambandi við Áburðarverksmiðjuna, eins og menn muna, þegar þar var troðið inn á síðustu stundu hinum annarlegu ákvæðum um, að Áburðarverksmíðjan skyldi vera hlutafélag að forminu til, þó að það væri aldrei annað en form, bara til að uppfylla viss skilyrði hjá Alþjóðabankanum. Á sama hátt var Alþjóðabankinn í raun og veru hinn ráðandi aðili, þegar gengið var frá framkvæmdum við Búrfellsvirkjun.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. segir, að það var auðveldara að fjármagna Búrfellsvirkjun með því að semja um orkufrekan iðnað þegar í upphafi. Hins vegar man ég vel eftir því, að þegar bornar voru saman þessir valkostir og borið var saman 20 ára bil. að í lok 20 ára kom þetta út á svipaðan hátt, hvort sem þessi orka var seld þegar í upphafi til orkufreks iðnaðar eða þetta látið þróast smám saman á innlendum markaði. Að 20 árum liðnum verður þessi munur eyddur. Vandinn var sá, að það hefði orðið að taka á sig í upphafi æðimikla fjárupphæð, meðan ekki var tiltækur markaður til annars. Hins vegar er það atriði, sem vert er að velta fyrir sér núna, hvort við værum ekki æðimiklu betur staddir, þegar orkuskortur blasir við okkur, m.a. vegna ástandsins í olíumálum, ef við hefðum tiltæka orku frá Búrfellsvirkjun. Eins og ég hef tekið fram, er u.þ.b. helmingurinn af þeirri raforku, sem framleidd er á Íslandi, á vegum Búrfellsvirkjunar. Alþingi hafði heimilað fyrrv. ríkisstj. að leggja háspennulínu til Norðurlands í sambandi við Búrfellsvirkjun, tengja saman Laxárvirkjun og Landsvirkjun, þannig að Laxárvirkjun yrði hluti af Landsvirkjun. Ef þetta hefði verið gert, væri ástandið á Norðurlandi allt öðruvísi núna en það er.

Það er auðvitað ákaflega auðvelt að vera vitur eftir á um alla hluti, og mér getur hætt við því að vera vitur eftir á, ekki síður en öðrum mönnum. Engu að síður er það, held ég, grundvallarstaðreynd, að við verðum að miða stefnuna í raforkumálum eins og öðrum málum við hagsmuni okkar sjálfra. Við verðum að taka mið af því, að við erum að reyna að efla okkar eigið efnahagskerfi, alla þætti þess, þ. á m. orkukerfið, og það verður að vera leiðarljósið, en ekki einhver annarleg arðsemissjónarmið, sem erlendar bankastofnanir kunna að vera með og miðaðar eru hverju sinni við líðandi stund.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að fyrirhugað var að ráðast þarna í frekari virkjunarframkvæmdir, en þau miðlunarmannvirki, sem hafa bjargað Búrfellsvirkjun nú í vetur, voru ekki reiknuð inn í stofnkostnað Búrfellsvirkjunar. Þess vegna koma þau dæmi, sem hann er að nefna um undanhaldssemi og þess háttar, engan veginn rétt út. Það er miðað við grundvöll, sem er allt annar en sá, sem varð í raun og veru. Það er miðað við kostnað, sem er aðeins hluti af þeim kostnaði, sem við höfum orðið að leggja í til þess að geta framleitt þessa raforku. En sem sagt, ég geri mér vonir um, að þetta frv. komist til n. á þessum fundi.