31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

157. mál, húsnæðislán á landsbyggðinni

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 216 að flytja till. til þál. um réttlátari reglur um veitingu húsnæðislána á landsbyggðinni ásamt hv. þm. Magnúsi Jónssyni, Pálma Jónssyni og Matthíasi Bjarnasyni. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða reglugerð um úthlutun lána húsnæðismálastjórnar í því skyni, að fullt tillit sé tekið til sérstöðu húsbyggjenda á landsbyggðinni, þannig að fólk, sem hefur húsbyggingar á eðlilegum árstíma miðað við aðstæður, þar sem það býr, hafi jafna möguleika til húsnæðisláns á því ári og húsbyggjendur á næsta þéttbýlissvæði landsins.“

Ég vek athygli á því, að þessi till. fjallar aðeins um hluta þess vanda, sem fólk stendur frammi fyrir á landsbyggðinni, þegar það er að koma yfir sig húsnæði. En eins og flestum hv. þm. mun kunnugt, eru húsnæðismál eins og sakir standa í þjóðfélaginu einn versti hemill á eðlilega byggðaþróun í landinu. Hér er einungis vikið að þætti þess vanda, sem varðar sjálfar reglur húsnæðismálastjórnar, og er ekki hér fjallað um hluti, sem þó hafa komið fram till. um, að koma þurfi til sérstök örvunarlán til húsbyggjenda á landsbyggðinni. Það er mál, sem hefur borið á góma m.a í þn. og var von manna, að kæmi m.a. á dagskrá við fjárlagaafgreiðslu í des. s.l., en sú var nú ekki raunin á, vegna þess að hæstv. ríkisstj. tókst ekki að afla fjár til þess við afgreiðslu fjárl., þannig að það verður að bíða betri tíma. Hér er sem sé ekki um það stóra mál að ræða, heldur einvörðungu að laga reglur húsnæðismálastjórnar að aðstæðum fólks, þannig að sem mestur jöfnuður skapist, hvar sem menn búa á landinu.

Það er svo, í reglugerð um veitingu húsnæðislána á vegum húsnæðismálastjórnar er miðað við komutíma lánsumsókna og hvenær viðkomandi húsnæði verður fokhelt. Miðað er við, að umsóknir, sem hljóða á nafn, þurfi að vera komnar fyrir 1. febr. ár hvert, til þess að lán fáist á því ári. Þessi regla er mjög óeðlileg gagnvart húsbyggjendum á landsbyggðinni, vegna þess að aðstaða þar til lóðaúthlutunar er víða erfið og því oft á tíðum óhægt um vik að afla lóðasamninga og teikninga fyrir 1. febr. Þá er og á það að líta, eð sé úthlutun miðuð við eindaga fokheldisvottorðs, sem er snemma á haustin, er það mjög óhagstætt fyrir þau byggðarlög, sem búa við frumstæðari byggingartækni, óhæga aðstöðu til öflunar sérhæfðs vinnuafls, svo og óblíðari náttúruskilyrði en eru hér á Suðvestuslandi. Reglan um komutíma umsókna, sem hljóða á nafn einstaklings, er sérstaklega óhagstæð fyrir verktaka í byggingariðnaði, einkum byggingarverktaka á landsbyggðinni. Ljóst er, að vel má standa eð sölu þeirra íbúða, sem hafin er bygging á í byrjun árs og eru orðnar fokheldar á hausti, þannig að hinn 1. febr. sé unnt að leggja inn hjá húsnæðismálastjórn umsókn um slíkar íbúðir frá kaupendunum sjálfum. Þótt þetta sé vissulega örðugt hér á þéttbýlissvæðinu, tekur steininn úr á landsbyggðinni, því að þar tíðkast alls ekki að selja íbúðir á teikniborðinu, eins og mun gerast hér syðra.

Þetta mál kom mjög á dagskrá á s.l. ári, þegar svo stóð á, að húsnæðismálastjórn var knöpp með fjármagn til þess að veita öllum, sem um sóttu og skilyrði höfðu til að fá lán, veita þeim fyrirgreiðslu. Þá brá svo við, að mjög kreppti að ýmsum, sem á landsbyggðinni eru að koma yfir sig húsnæði, og hef ég m.a. dæmi um það, að einum aðila var synjað, sem sendi umsókn sína 26. jan., en hún var ekki komin í vörslu húsnæðismálastjórnar fyrr en eftir 1. febr., honum var synjað um lán á þeirri forsendu fyrir áramótin, að umsókn hans hefði ekki verið komin 1. febr.

Ég hef annað dæmi, sem ég get bent hv. þm. á, að verktaka, sem byggir húsnæði í miðlungsstóru kauptúni á landsbyggðinni, var synjað um lán á s.l. ári, vegna þess að hann hafði einungis skrifað bréf til húsnæðismálastjórnar og látið vita af sínum byggingarframkvæmdum fyrir 1. febr. s.l. árs, en þá hafði hann ekki af eðlilegum ástæðum getað sent inn umsóknir fyrir einstaka kaupendur að íbúðum fyrr en nokkru seinna, fyrr en um sumarið, en þá var það talið ef húsnæðismálastjórn of seint, og hann fékk synjun á þessum forsendum.

Þessi mál voru bæði tekin upp og rædd í húsnæðismálastjórn, og á þeim fékkst leiðrétting að þessu sinni. En þar var um að ræða, að húsnæðismálastjórn veitti undanþágu frá reglum, sem annars eiga að gilda. Það hljóta allir að sjá, að þessar reglur eru mjög óvægar, svo að ekki sé meira sagt, gagnvart þeim, sem hafa í raun og veru erfiðari aðstöðu en fólk hér á þéttbýlissvæðinu til þess að koma yfir sig húsnæði, og eru óeðlilegar, ef þeim er framfylgt af hörku, sem stundum kann að þurfa að gera, þegar takmarkað er fjármagn. Með þessari till. vildum við flm. því freista þess, að farið yrði ofan í þetta mál og það athugað í þeirri veru að ráða bót á þessu. Ég vek athygli á því, að till. er afskaplega hógvær að því leyti, að hún leggur til, að ríkisstj. láti endurskoða þessa reglugerð, en það er ekki bent á neitt ákveðið í því efni, einfaldlega vegna þess, að flm. er ljóst, að húsnæðismálastjórn og ríkisvaldið þurfa að hafa eftirlit með því, hvað hverju sinni er hafin bygging á miklu húsnæði og hvað fjáröflunarvandinn er stór hverju sinni, þannig að það þarf að hafa um þetta reglur. En hér er bent á þessa annmarka og lagt í vald þeirra, sem fera með þessi mál og gerst þekkja þau, bæði að fullnægja þeim þörfum, sem ríkisvaldið setur til áætlunargerðar, og eins að koma til móts við fólkið úti á landsbyggðinni. Þetta er sett í sjálfsvald þeirra, sem fara með þessi mál og gerst þekkja, með þessari tillögugerð. Ég vænti þess því, að hv. alþm. geti fallist á, eð hér sé hreyft réttlætismáli og það sé gert á eins kurteisan og hógværan hátt og unnt er, og að mál þetta fái athugun í n., en verði síðan samþykkt af hv. Alþ.