31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

163. mál, jöfnun símgjalda

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. 18. apríl s.l. var samþ. hér á þingi þál. um mþn. í byggðamálum. Í ályktuninni er n. gert eð vinna í fyrsta lagi að mótun almennrar stefnu í byggðamálum og í öðru lagi að taka fyrir einstaka þætti, þar sem ójafnaðar gætir á milli þeirra, sem í dreifbýlinu búa, og hinna, sem í þéttbýlinu eru, og leggja fram á þessu þingi till. til úrbóta á slíkum sviðum.

N. hefur unnið að þessu hvoru tveggja, og m.a í bréfi til forsrh. 8. nóv. s.l. var bent á ýmis atriði, sem n. telur, að lagfæra þurfi í þessu sambandi. Eitt af þessum atriðum er jöfnun símgjalda, sem eins og hv. þm. vita leggst mjög misjafnt á landsmenn eftir því, hvar þeir búa. Till. um jöfnun símgjalda hafa að vísu verið fluttar æði oft hér á hinu háa Alþ., m.a. stóð ég ásamt fleiri þm. að flutningi slíkrar till, hæði á síðasta þingi og þinginu þar áður, en í hvorugt skiptið fengust þær útræddar. Byggðanefnd var sammála um að flytja enn slíka þáltill., og er hún á þskj. 234.

N. vann að þessum tillöguflutningi Tn. a. með því að fá póst- og símamálastjóra á sinn fund. Einnig áttu meðlimir úr n. fund með hæstv. samgrh. og póst- og símamálastjóra. Málið var þannig allvel skoðað, vil ég leyfa mér að segja, og niðurstaðan varð þessi þáltill. í því formi, sem hún liggur hér til umr.

Áður en ég kem nánar að till., þykir mér nauðsynlegt að gera í örfáum orðum grein fyrir því, hvers vegna sá ójöfnuður er, sem oft er talað um. Símakerfi landsmanna, má segja, að sé byggt upp af fjórum meginþáttum. Í fyrsta lagi má nefna notendalínur, þ.e.a.s. línur frá notendum inn til miðstöðvar. Þær línur ern ein fyrir hvern notanda í þéttbýliskjörnum, en eins og menn vita, eru margir notendur á sömu línu víða í sveitahéruðum. Þá er það í öðru lagi símstöðin. Og í þriðja lagi er það skiptistöð fyrir millistöðvaafgreiðslu. Loks eru millistöðvalínur, sem tengja saman skiptistöðvar. Skiptistöðvar og millistöðvalínur, þ.e.a.s. langlínur, eru kostnaðarsamar.

Í framkvæmd hefur þetta því orðið þannig, að leitast hefur verið við að spara við byggingu skiptistöðva og millistöðvalína eða langlína og jafnframt reynt að takmarka notkun þessara lína með því að hafa mismunandi gjaldskrá eftir fjarlægðum, byggt á þeirri kenningu, að þannig verði álagið á þennan dýra hluta símakerfisins minni.

Gjaldskráin byggist upp af 9 flokkum, sem eru merktir frá O, A, B, C og síðan 1, 2, 3, 4 og 5. Flokkurinn O gildir innan sama símstöðvarsvæðis, og er skref í þeim flokki ómælt, þ.e.a.s. skrefið er ótakmarkað. Skrefið kostar kr. 2.10 samkv. gjaldskrá frá 1. apríl 1972. Síðan styttast skrefin, eftir því sem komið er neðar í gjaldskrárflokkana.

Lítum á dæmi. Íbúi Ísafjarðar, sem talar til Reykjavíkur, greiðir samkv. 5. gjaldskrárflokki. Þá er tíminn mældur og verður skrefið aðeins 6 sekúndur. Mínútan verður því 10 skref og kostar 10 sinnum kr. 2.10 eða 21 kr. Ef íbúi Ísafjarðar vill ná til opinberrar stofnunar hér í Reykjavík, sjá allir, að þetta er fljótt að hlaupa í miklar upphæðir. Iðulega þarf að bíða í langan tíma eftir að ná til viðkomandi aðila, og 6 sekúndur líða æði fljótt. Hins vegar sá, sem er á Reykjavíkureða höfuðborgarsvæðinu og þarf að ná til þessa sama opinbera aðila, þjónustustofnunar, getur talað ótalinn tíma, þ.e.a.s. eins lengi og honum sýnist, og greiðir þó ekki nema kr. 2.10.

Þetta gjald stígur mjög hratt eftir gjaldflokkum. Lengd skrefa, en hvert skref, eins og ég hef sagt, kostar kr. 2.10, breytist þannig: Í 0-flokki er skrefið ótakmarkað. Í A-flokki eru skrefin 60 sek., í B-flokki 45 sek., C-flokki 30 og síðan áfram niður í 6 sek. í 5. flokki.

Reynt hefur verið að bæta nokkuð úr þessu með því að taka upp næturtaxta, og er hann þannig fundinn, að sérstakur taxti er frá kl. 8 á kvöldi til kl. 7 á morgnana frá mánudegi til föstudags, en um helgar frá kl. 16 á laugardögum til 7 næsta mánudagsmorgun. Þennan tíma er gjaldið töluvert lægra, því að skrefið verður þá tvöfalt lengra en það er á dagtaxta. Þetta hefur gefið góða raun. Upplýsti póst og símamálastjóri, að álagið hefur jafnt og þétt aukist á þessum tíma, og því hefur það jafnframt létt af notkun símans á dagtaxtanum.

Ýmsar tölur má nefna til sönnunar þeim mismun, sem ríkir að þessu leyti á milli landsmanna. Einna fróðlegastar þóttu n. þær tölur, sem póst- og símamálastjóri lagði fram og gefa samanburð á ársfjórðungsgjaldi eða fastagjaldi og umframgjaldi á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og í dreifbýli hins vegar. Þá kemur í ljós, að árið 1969 voru umframgjöld á höfuðborgarsvæðinu innan við 70% af fastagjaldinu. Í dreifbýlinu hins vegar var umframgjaldið 1.4 sinnum hærra samtals en fastagjaldið. Síðan fer þetta hlutfall stöðugt hækkandi. Árið 1973, byggt á upplýsingum fyrir hálft ár, eru umframgjöld á höfuðborgarsvæðinu nokkurn veginn þau sömu og fastagjöldin, en í dreifhýlinu hins vegar eru umframgjöldin orðin tvisvar og hálfum sinnum hærri en fastagjaldið. Árið 1972 eru umframgjöldin á höfuðborgarsvæðinu 1420 kr. á hvern íbúa, en 2343 kr. á hvern íbúa í dreifbýlinu, en hækka síðan, byggt á hálfs árs upplýsingum 1973, upp í 2700 kr. á hvern íbúa í dreifbýlinu. Víða mun þetta vera hærra. T.d. hef ég þær upplýsingar frá Ísafirði, að þar munu umframgjöld vera um 3300 kr. á hvern íbúa.

Ég hygg, að þetta nægi til þess að sýna, að ójöfnuður er mikill og stafar að sjálfsögðu fyrst og fremst af því, að á höfuðborgarsvæðinu er safnað saman flest öllum opinberum stofnunum. Þangað þurfa allir landsmenn að leita í ríkum mæli, og ætti það að vera skylda þjóðfélagsins að sjá þeim öllum fyrir svipaðri aðstöðu til að ná til þessara opinberu stofnana. Á höfuðborgarsvæðinu eru einnig fjölmargar aðrar þjónustumiðstöðvar, sem allir landsmenn þurfa að leita til.

Um það var rætt við póst- og símamálastjóra, á hvern máta unnt væri að jafna þennan ójöfnuð, sem ég hef nefnt svo. Í ljós kemur, að erfitt er að ná án mjög mikillar fjárfestingar í langlinum og skiptistöðvum fullum jöfnuði með landsmönnum, sem ég fyrir mitt leyti tel þó vera það markmið, sem að beri að stefna. Talið er, að langlínur yrðu svo of hlaðnar með slíkum fullkomnum jöfnuði, að þær þyrfti að margfalda frá því, sem nú er. Ég vil geta þess, að sums staðar erlendis virðist að þessu stefnt. T.d. hef ég þær upplýsingar frá Svíþjóð að þar samþykkti þing þeirrar þjóðar, að símgjöld í dreifbýli skyldu lækkuð um það bil um 50% að jafnaði, og var þá talið, að þau yrðu svipuð símgjöldum á þéttbýlissvæðinu, þ.e.a.s. í kringum Stokkhólm. En vera má, að langlínukerfi Svífa sé allmiklu öflugra en okkar og því sé þetta þeim fremur kleift en okkur. Að vandlega athuguðu máli taldi n. því ekki fært að marka þá stefnu, að fullur jöfnuður næðist, og kemur það fram í þessari þáltill., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að haga endurskoðun gjaldskrár Landsímans þannig, að sem fyrst verði náð sem mestum jöfnuði með landsmönnum í kostnaði við notkun simans og dreifbýli og höfuðborgarsvæðið beri hlutfallslega sömu byrði hinna sameiginlegu heildarsímaútgjalda. Sérstaklega ber að stefna að því, að:

1) símgjald innan eins svæðisnúmers eða landshluta verði hin sömu um land allt.

2) gjöld fyrir símtöl úr dreifbýli til höfuðborgarsvæðisins lækki verulega.“

Eins og þarna kemur fram, er fyrst og fremst um .stefnumörkun að ræða. Við töldum rétt að binda þá stefnumörkun að verulegu leyti við endurskoðun á gjaldskrá Landsímans, sem að sjálfsögðu þarf annað slagið að fara fram. Virðist okkur, að við slíka endurskoðun eigi ávallt að stefna að því að ná vaxandi jöfnuði með landsmönnum. Ýmsar tæknilegar breytingar má jafnframt framkvæma, til þess að þessi jöfnuður verði meiri en nú er. T.d. má taka upp talningu á símtölum innan höfuðborgarsvæðisins, þ.e.a.s. að skrefið verði bundið við ákveðinn tíma og sá tími mældur og skrefin talin. Þetta mun vera í athugun, en krefst töluverðrar fjárfestingar og verður varla gert á skemmri tíma en t.d. tveimur árum. Þegar það er fengið, er að sjálfsögðu sköpuð önnur aðstaða til þess að jafna símgjöld.

Í till. er sérstaklega tekið fram, að símgjöld innan eins svæðisnúmers eða landshluta verði hin sömu um land allt. Þetta teljum við réttlætismál, ekki síst með tilliti til þess, að lögð er áhersla á að byggja upp innan landshlutanna bæði samstöðu þeirra í landhlutasamtökum og þjónustumiðstöðvar og því eðlileg lágmarkskrafa, að íbúar landshlutans, þótt þeir byggi fjarlægari hluts hans, njóti sömu aðstöðu til þess að ná til slíkra þjónustumiðstöðva og stofnana. Í sumum tilfellum fellur þetta ekki saman við svæðisnúmer. Svo er t.d. í Vestfjarðakjördæmi, þar sem Strandasýslan er í svæðisnúmeri með Norðurl. v. Siglufjörður er á svæðisnúmeri 96, þ.e.a.s. svæðisnúmeri með Akureyri, en ekki á svæðisnúmeri 95 með Norðurl. v.

Í öðru lagi leggjum við til, að gjöld fyrir símtöl úr dreifbýli til höfuðborgarsvæðisins lækki verulega. Við treystum okkur ekki til að tiltaka ákveðna tölu, en þar er vísað til þess réttlætismáls, sem ég hef rætt um, að veita íbúum dreifbýlisins sem svipaðasta aðstöðu til þess að ná til opinberra atofnana og þjónustumiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, eins og íbúar þess svæðis hafa.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, enda hefur málið alloft verið rætt hér á hinu háa Alþ. og fengið ágætar undirtektir. Ég vil aðeins að lokum láta í ljós þá von mína og mþn. í byggðamálum, að þetta mál fáist nú útrætt og mörkuð sú stefnu, sem til er lagt í þáltill.

Að þessari umr. lokinni vil ég leggja til. að till. verði vísað til allshn.