30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

23. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðarinnar

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Á síðasta Alþingi bárum við hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, fram þáltill., sem hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að komið verði á fót mötuneytum og heimavistum á vegum hins opinbera, sem ætlaðar verði þeim nemendum af landsbyggðinni, sem sækja verða þá sérskóla í Reykjavík, er ekki starfa annars staðar á landinu. Í þessu sambandi verði m. a. kannað, hvort ekki komi til greina að semja við starfandi hótel um slíkan rekstur.“

Þessi till. var samþ. hér á síðasta þingi sem ályktun Alþingis. Á síðasta þingi var gerð grein fyrir þessari till., og ég ætla ekki að gera nánari grein fyrir henni hér, aðeins vekja athygli á því, að það mun sennilega aldrei hafa verið jafnmiklum erfiðleikum bundið fyrir nemendur utan af landi að fá húsnæði og mötuneytisaðstöðu í Reykjavík og nú í haust, eins og hv. þm. mun eflaust kunnugt, sem fylgst hafa með fréttum. Ég vil því af þessu tilefni beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., sem er á þskj. 29, hvað líði framkvæmd þessarar þáltill frá 3. apríl s. l. um bætta aðstöðu nemenda landsbyggðarinnar, sem sækja vilja sérskóla á höfuðborgarsvæðinu.