28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

199. mál, öryggi sjómanna á loðnuveiðum

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. greið og góð svör, og eins og kom fram í hans svörum, er örugglega ástæða til þess að bæta hér nokkuð um. Þegar svo er, að fiskur er nægur og verðlag hátt, er eftir miklu að slægjast, og þá er freistingin mikil að tefla á tæpasta vað, og er lítill vafi á því, að nú daglega er fjöldi af okkar sjómönnum í verulegri lífshættu. Og í raun og veru byggist það mest á hæfni og varfærni skipstjóranna, að ekki fari illa. Þess vegna er nauðsynlegt, að ráðamenn sjái byrjandi skipstjórum fyrir nauðsynlegri fræðslu í þessum efnum og einnig að starfsmenn Siglingamálastofnunarinnar séu tíðir gestir í bátum og fylgist með, hvort öryggisaðgerðir séu nægar, og jafnvel bendi stjórnendum skipa á hætturnar öðru hverju í útvarpi. Sannarlega er ástæða til að leggja á það áherslu, að ekki verði sparað fé til svo nauðsynlegra starfa. Á síldarárunum, þegar veiðarnar voru langt fram á haust, var það allalgengt, að bátunum hlekktist á, og þá komu í gildi reglur, er heimiluðu að sekta skipstjóra fyrir ofhleðslu. Vafasamt er, hvort þessar reglur gilda á loðnuveiðum, en eitthvert eftirlit, og þarf að gera ráð fyrir, að möguleg sé einhver refsing, ef úr hófi fram ógætilega er að farið. Það er alveg víst, að mörg af þeim skipum, sem nú stunda loðnuveiðar, eru ekki sérlega vel hæf, og til þess að ekki fari illa, er ekkert nema ítrasta varkárni, úrvals sjómennska, ábendingar og árverkni yfirvalda, sem getur forðað áföllum.