28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

199. mál, öryggi sjómanna á loðnuveiðum

Pétur Sigarðsson:

Herra forseti. Það er að gefnu tilefni, bæði í svari hæstv. ráðh. og í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Það skal tekið undir það, að tilkynningarskyldan er líklega eitt stærsta skrefið, sem stigið hefur verið til þess að auka öryggi sjófarenda við strendur landsins. Þetta mál átti langan aðdraganda. Byrjun þess var sú, að ég flutti hér þáltill. í þinginu um daglegt eftirlit með fiskiskipum að gefnu því hörmulega tilefni, að fiskiskip með 11 manna áhöfn fórst við Reykjanes og enginn vissi um það í 3 eða 4 daga. Með fullri virðingu fyrir Slysavarnafélaginu, þá munu það hafa verið skipstjórnarmannafélögin hér í Reykjavík, sem beittu sér fyrir því, að þessari tilkynningarskyldu væri komið á fót og þá undir eftirliti og stjórn Slysavarnafélagsins, en meðal starfsmanna þar hafa alltaf verið miklir áhugamenn um þetta mál.

Í svari hæstv. ráðh. kom fram, að það hafi þurft að breyta gjaldskrá Skipaskoðunarinnar, til þess að nauðsynlegu eftirliti væri haldið uppi í flotanum. Verður auðvitað að harma, að fjárveitingavaldið skuli ekki hafa sinnt ítrekuðum tilmælum skipaskoðunarstjóra eða siglingamálastjóra og félaga sjómanna, bæði yfir- og undirmanna. Um langt árabil, jafnt í tíð fyrri ríkisstj. eins og þeirrar, er nú situr, hefur verið skorað á ríkisstj. og Alþ. að gera þarna bragarbót á. Ég tel, eins og þegar hefur komið fram, að það sé alls ekki nóg að hækka þessa gjaldskrá til þess að mæta þeim kröfum, sem gerðar eru til þessarar stofnunar.

En það var aðeins ein stutt fsp. í framhaldi af þessum alvörumiklu málum, sem mig langaði til að beina til ráðh. Hún er um það, hvort hann og siglingamálastjóri hafi nokkuð hugsað sér að verða við óskum manna, sem gott vit hafa á þeim málum, og óskum frá þingi Farmannasambandsins að taka upp halla- og stöðugleikaprófun á hinum minnstu þilfarsbátum. Mér er kunnugt um, að maður austan af landi átti viðtal við hæstv. ráðh. um þetta á s.l. hausti eða nú í vetur og benti þá m.a. á þau hörmulegu slys, sem hefðu orðið austanlands á skipum af þessari stærð. Er enginn vafi á því, að þar hefur bæði farið saman vanbúnaður skipanna og vankunnátta skipstjórnarmanna, sem í hlut áttu í það og það skiptið.