28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

214. mál, fjölgun starfsmanna í stjórnarráðinu

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Aths. skal vera örstutt. Hér er vikið að ákveðnu máli, sem snertir ekki aðeins rn., heldur embættismannabáknið í heild, og þá kemur upp í huga minn, að vinstri stjórnin í Danmörku, sem á við mikla erfiðleika í efnahagsmálum að etja eins og við Íslendingar, hefur nú í huga, að því er ég hef lesið í blöðum, að stöðva allar fastráðningar nýrra manna til ríkisins fram til 1. ágúst og taka upp þetta heildarvandamál, þ.e.a.s. fjölda starfsmanna, þörfina og athuga, hvernig málin standa. Ég held, að það væri vert í sambandi við þá efnahagsörðugleika, sem uppi eru með þjóðinni, að hæstv. fjmrh. stöðvaði um skeið frekari mannaráðningar og gerði úttekt á embættismannabákninu í heild, þannig að ekki yrði um óeðlilega fjölgun að ræða. Þetta er eitt af þeim vandamálum, sem við eigum við að glíma, og það er vert að gera þetta.

Að lokum þetta: Þetta snertir ekki aðeins rn. Mér virðist Seðlabankinn hafa meira starfslið heldur en öll rn., og það er útþensla víðar en hjá rn. En við þurfum að kunna okkur hóf, og hæstv. fjmrh. ætti að taka rögg á sig og gera heildarúttekt á þörfinni og hinni eðlilegu aukningu, sem kann að teljast í rn. Það er vert að íhuga, að eitt rn., menntmrn., vex, en mér er sagt, að þjónustan minnki.