28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

217. mál, regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 379 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um afskipti stjórnvalda af regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar í Laxalóni.

Hinn 16. apríl 1951 veitti landbrn. Skúla Pálssyni leyfi til þess að flytja til landsins regnbogasilungsstofn frá Danmörku. Ætlun Skúla var að koma hér á fót regnbogasilungseldi með það að markmiði að selja regnbogasilung á erlendan markað til neyslu. Ýmis skilyrði fylgdu leyfinu, og er ekki annað sannað en þau hafi verið uppfyllt. Nokkru eftir að Skúli flutti inn hrognin frá Danmörku, fór að bera á alvarlegum sjúkdómi í regnbogasilungnum þar í landi. Einkum var um svonefnda kýlapest að ræða, en síðar einnig veirusjúkdóma.

Afleiðing þessa varð sú, að hinn 13.8. 1955 ritaði landbrn. Skúla bréf, þar sem talin er nauðsyn á því að áliti sérfræðinga öryggis vegna að rannsaka heilbrigði regnbogasilungsins í stöð hans. Í bréfinu var tekið fram, að rn. setti bann við flutningi á fiski eða hrognum frá stöðinni, þar til umrædd athugun hefði farið fram.

Rn. fól veiðimálastjóra í samráði við Tilraunastöð háskólans á Keldum að framkvæma rannsóknina. Rannsóknin fór svo fram á árunum 1955 og 1956. Að rannsókn lokinni barst rn. bréf frá veiðimálastjóra, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Er þar með umræddri rannsókn á heilbrigðisástandi regnbogasilungs í eldisstöðinni á Laxalóni lokið, og hafa kýlaveikismitberar ekki fundist í regnbogasilungi þar. Líkur fyrir, að sjúkdómurinn sé í stöðinni, eru innan við 1%, og telur Páll A. Pálsson það mikið öryggi fengið með rannsókninni, að óþarft sé að hafast frekar að. Skal því lagt til, að banni því, sem verið hefur á um burtflutning lifandi vatnafiska úr eldisstöðinni, sbr. bréf hins háa rn., dags. 13. ágúst 1955, verði aflétt “

Sú varð raunin á, að á næstu árum seldi Skúli fiska og hrogn til tveggja aðila innanlands með leyfi landbrn. En 1964 átti Skúli enn kost á að selja eldisfisk úr stöðinni, en þá synjaði rn. um leyfi og enn vegna mögulegrar smithættu. Þetta gerðist 13 árum eftir innflutning hrogna frá Danmörku og 8 árum eftir að áðurnefnt bréf um heilbrigði kom. Þetta er því furðulegra, þar sem eldisstöð Skúla er við bæjardyrnar hjá heimsþekktri dýra- og veirusjúkdómastofnun, þ.e. Tilraunastöð háskólans að Keldum, sem maður hefði haldið, að hefði mjög góða aðstöðu til þess að rannsaka sjúkdóma í dýrum. Þess vegna er 1. liður spurningar minnar þannig:

„Hvernig hefur heilbrigðiseftirliti með eldisfiski í eldisstöðinni í Laxalóni verð hagað frá stofnun hennar til þessa dags? Hafa smitnæmir sjúkdómar fundist í stöðinni?“

Eldisstöð Skúla er í nágrenni einnar mestu og bestu laxveiðiár á landinu, Elliðaánna. Skúli hefur auk regnbogasilungs ræktað í stöð sinni bæði lax og bleikju á undanförnum árum. Ef yfirvöld hafa yfirleitt haft grun um sjúkdóm hjá Skúla, er vægast sagt mjög undarlegt, að þau skuli hafa heimilað honum eldi laxfiska þar. Þess vegna spyr ég, hvort komið hafi upp sjúkdómar í nálægum eldisstöðvum eða ám, er hægt sé að rekja til stöðvarinnar í Laxalóni. Mér skilst, að yfirvöld hafi í meira en 20 ár haft grun um sjúkdóm í þessum stofni. Þótt rannsóknir hafi e.t.v. ekki verið stöðugar eða fullnægjandi, er þá ekki augljóst, að ef um smitnæman sjúkdóm væri að ræða, þá mundi hann nú herja á laxfiska víða um land?

Regnbogasilungur er mikil búgrein víða um heim. Í Evrópu munu vera framleidd um 70 þús. tonn árlega. En vegna sjúkdóma í stofninum erlendis eru hrogn úr heilbrigðum fiski mjög verðmæt og mjög góð útflutningsvara. Þeir útlendingar, sem hafa kynnt sér stofn Skúla, telja hann heilbrigðan, máske eina heilbrigða stofninn í Evrópu. Hins vegar er ekki hægt að nýta sölumöguleika, nema fullkomið heilbrigðisvottorð fáist, og þess vegna er honum bráð nauðsyn að fá ákvörðun sem allra fyrst um ástand stofnsins.

Það sama gildir um Skúla og marga aðra, sem rekið hafa fyrirtæki í jaðri Reykjavíkur. Borgin þrengir að honum, svo að hann þarf að flytja starfsemi sína. Hann hefur þegar skapað sér möguleika á aðgengilegum stað, en fær nú ekki leyfi til þess að flytja regnbogasilunginn á hinn nýja stað. Og enn er það smitunarhættan, sem veldur. Verði ekki breyting á afstöðu yfirvalda til atvinnurekstrar Skúla, liggur ekki annað fyrir en að drepa þennan verðmæta stofn niður. Skúli hefur varið milljónum króna til þess að halda þessum stofni við í 23 ár, og mér skilst, að hann hafi fengið aðeins 49 þús. kr. styrk frá ríkinu til þess. Nú virðist hann hafa ótakmarkaða möguleika til að flytja út hrogn til sölu, og væri vægast sagt hörmulegt, ef hann þyrfti nú að gefast upp og drepa niður stofninn eftir að hafa í 23 ár barist við þetta uppeldi. Þess vegna er 3. liður spurningar minnar svo:

„Sé svo ekki eftir meira en 20 ára veru regnbogasilungsstofnsins í landinu, er þá eðlilegt að neita um flutning stöðvarinnar á annan og heppilegri staði“