05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

235. mál, Norðurlandsáætlun í samgöngumálum

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki betur séð en meðferð þessa máls hjá hæstv. ríkisstj. sé henni til mestu vanvirðu. Þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir um, að þessi áætlun verði tilbúin í tæka tíð, áður en þurfi að fara að vinna að og afgreiða næstu vegáætlun, er ekki enn hægt að setja fram neinar ljósar skýringar á því, hvenær samgönguáætlun Norðurlands verði tilbúin. Fyrir fáum dögum vorum við þm. Norðurl. v. hjá vegamálastjóra, og þá hafði ekki verið haft samband við Vegagerð ríkisins um undirbúning vegaþáttar samgönguáætlunar Norðurlands. Og enn hefur ekki verið haft samband við þm. Norðurl. um gerð þessarar áætlunar fyrir árin 1974 og 1975. Þetta tel ég algerlega óviðunandi vinnubrögð. Þegar hæstv. forsrh. svarar nú fsp., þegar er komið fram í mars, getur hann engar ljósar upplýsingar gefið um það, hvenær þessi áætlun verði komin á hreint, og ekkert sett fram annað en frómar óskir um, að hún verði tilbúin, áður en þarf að fara að ljúka við endurskoðun og samningu nýrrar vegáætlunar. Þessi vinnubrögð hlýtur að verða að átelja, og ég get ekki látið umr. um þetta mál ljúka svo, að ég veki ekki athygli á, hve þessi mál eru í miklum seinagangi og hæstv. ríkisstj. til mikillar vanvirðu.