05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil leggja á það mjög ríka áherslu, að deilur um þessi mál eru nálega eingöngu um fiskiskip, en um mörk allra annarra lánveitinga sjóðsins hafa verið miklu minni deilur. Þetta er ekki óeðlilegt vegna þess, hve fiskiskip eru „hreyfanleg“ atvinnutæki, svo að maður noti það hugtak, og þau ganga mjög kaupum og sölum á milli staða í landinu. Jafnvel í þessum efnum hefur ekki, eins og síðasti ræðumaður benti á, verið haldið við þá reglu, sem stjórn Byggðasjóðs setti sér, því að nýbúið er að veita leyfi fyrir einum togara, sem á að vísu að vera fyrir Hafnir, en verður gerður út í Keflavík, af því að hann kemst ekki að bryggju í Höfnum. Og það er ekki langt síðan Sjöstjörnunni í Keflavík var veitt leyfi fyrir stóru skipi. Hvernig á að verja það gagnvart öðrum íbúum Keflavikur, að þeir geti ekki fengið þessi lán? Þetta er vandinn. Eiga þeir að neyðast til að fá einhverja til að leppa skip fyrir sig úti á landi og gera þau síðan út í Keflavík?

Ég er þeirrar skoðunar, að Byggðasjóður hafi e.t.v. látið leiða sig allt of langt út í lánveitingar til fiskiskipa. Fiskiskipin eru svo mikilvæg fyrir okkur, að við verðum að koma lánamálum þeirra fyrir á annan hátt. Vandamál hefur ekki komið alvarlega upp á neinu öðru sviði útlána og fjárfestingar, en það er óleyst á þessu sviði, og ég skil því mætavel, að Reyknesingar kvarti. Við verðum að finna einhverja betri lausn á þessu máli en að veita lán til skipa á Reykjanesi á einum fundi, en neita um þau á þeim næsta.