05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, vil ég vekja athygli hv. þm. á því, út á hvað þessar umræður hafa raunverulega gengið. Þær hafa gengið út á það, að hér hafa annars vegar talað þm. landsbyggðarinnar, sem hafa verið mjög glaðir yfir því, að í gildi hafa verið hjá Byggðasjóði svo til sjálfvirkar reglur um lán vegna fiskiskipa, og hins vegar þm. Reykn., sem hafa talað mjög um það, hve nauðsynlegt sé að gera þessar lánareglur líka sjálfvirkar fyrir Reykjaneskjördæmi og væntanlega Reykjavik þá líka. Það hefur nánast enginn þeirra hv. þm., sem talað hafa, minnst á, að nein ástæða væri til að brjóta niður þessar sjálfvirku lánareglur og taka upp nánari skoðun á hverju einstöku máli með tilliti til byggðarsjónarmiða á hverjum stað. Hv. 2. þm. Reykn. taldi fráleitt, að ekki væri hægt að lána öllum þeim, sem sæktu um lán vegna kaupa á fiskiskipum á Reykjanesi, vegna þess að lánað hafði verið til kaupa á einu fiskiskipi, sem er gert út frá Höfnum og kemur til með að leggja meginhluta af afla sínum upp þar. En allir vita, að Hafnir eru staður, sem er sambærilegur við marga þá staði úti á landsbyggðinni, þar sem mjög bágt atvinnuástand er. Þar sem Byggðasjóður vill lána til kaupa á fiskiskipi á slíkan stað til þess að efla atvinnulíf á þeim stað, þá segir hv. þm., að lána verði öllum á Reykjanesi. Þetta er stefna, sem hefur verið ríkjandi hæði hjá þeim hv. þm., sem hér hafa talað, bæði þeim, sem eru kjörnir þm. fyrir Reykjaneskjördæmi, svo og þeim, sem eru kjörnir þm. fyrir önnur kjördæmi úti á landsbyggðinni. Þeir vilja helst allir hafa sjálfvirkar lánareglur, sumir fyrir meginhluta landsins, en aðrir fyrir allt landið. Meginkjarni málsins er sá, hversu mönnum gengur illa að koma sér saman um að viðhalda því sjónarmiði, sem Byggðasjóður er byggður á, að lita á málin út frá byggðarsjónarmiði í hverju einstöku tilviki.