12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

416. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það fór raunar eins og mig grunaði, að enn lægi ekki neitt fyrir um það, hvaða fjármagn yrði veitt til þessarar landshlutaáætlunar á þessu ári, og eru það vissulega vond tíðindi. Það er orðið mjög áríðandi einmitt í þessum landshluta, að hið opinbera fari að gera það upp við sig, hvort það vill í alvöru stuðla að því og standa við það, að þarna haldi áfram að vera byggð, og m.a., eins og hæstv. forsrh. minntist á, er nauðsyn á verulegri fyrirgreiðslu vegna erfiðleika, sem þar eru í sjávarútveginum og rætt hefur verið um, bæði innan ríkisstj. og meðal þm. þessa kjördæmis. Ég vil því vænta þess, að hæstv. forsrh. geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að flýta fyrir þessu máli, svo að það fái einhverja afgreiðslu nú á þessu ári.