12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

416. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er út af þessum orðaskiptum milli hv. 2. þm. Norðurl. e. og hæstv. forsrh., að ég vil aðeins grípa inn í. Ég vil minna á það, að sú landshlutaáætlun, sem hér er til umr., er ein af mörgum landshlutaáætlunum, sem nú er unnið að á vegum Framkvæmdastofnunarinnar eða fyrir hennar hönd. Og það verður að segjast eins og er, að það er ekki langt síðan hafist var handa um þetta. Framkvæmdastofnunin tók til starfa í ársbyrjun 1972, og það er varla við því að búast, að hún hafi skilað af sér öllum þeim áætlunum, sem hafin er vinna við, og þannig er einmitt farið um þessa áætlun. Ég tel, að það sé alveg útilokað, að á þessu stigi sé hægt að fara að áætla fjármagn til áætlunar, sem enn er í smíðum. Ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á það, enda kom það skýrt fram hjá hæstv. forsrh., að það er verið að vinna að þessari áætlun, og ég tel, að það sé verið að vinna að henni á fullkomlega eðlilegan hátt og það sé ekkert fram komið, sem bendi til þess, að áætlunin geti ekki orðið tilbúin á eðlilegum tíma. En um það hefur verið rætt innan Framkvæmdastofnunarinnar, að þessi áætlun mætti verða til á þessu ári og ekki síðar en á árinu 1975. Fyrir mér er það höfuðatriðið, að það skuli vera unnið að þessari áætlun, og er auðvitað skylt að gera þá kröfu, að það verði unnið að henni markvisst og eðlilega. Hitt tel ég fullkomna ofætlun, að krefjast þess, að hún sé til nú og það sé möguleiki á því að fara að ákveða fjármagn til áætlunar, sem enn er í smíðum.