05.11.1973
Sameinað þing: 12. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

Minnst látins alþingismanns

Forseti (Eysteinn Jónsson) :

Í morgun barst sú harmafregn, að Gísli Guðmundsson alþingismaður væri látinn, tæplega sjötugur að aldri. Hann hafði að undanförnu átt við mikla vanheilsu að stríða, kom af þeim ástæðum ekki til þings í haust og andaðist í gærkvöld.

Gísli Guðmundsson var fæddur 2. desember 1903 á Hóli á Langanesi. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi þar Gunnarsson bónda á Djúpalæk Péturssonar og kona hans, Kristín Gísladóttir bónda í Kverkártungu í Skeggjastaðahreppi Árnasonar. Hann hóf nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri haustið 1919 og lauk þaðan gagnfræðaprófi vorið 1921. Veturinn 1923–1924 var hann í menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi utanskóla 1926. Nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands stundaði hann á árunum 1926–1929 og fór síðan hálfs árs námsferð um Norðurlönd, Þýskaland, Sviss og Ítalíu 1929. Jafnframt námi var hann barna- og unglingakennari á Langanesi öðru hverju 1921–1925. Þingskrifari var hann á Alþingi 1928 og 1929, stundakennari við Samvinnuskólann 1928–1929 og 1930–1934, skólastjóri í forföllum 1930–1931. Hann var ritstjóri Ingólfs 1929–1930, ritstjóri Tímans 1930–1940 og jafnframt ritstjóri Nýja dagblaðsins 1934–1936. Alþingismaður Norður-Þingeyinga var hann 1934–1945 og 1949–1959, síðan alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra, sat á 41 þingi alls.

Gísli Guðmundsson var kjörinn til ýmissa annarra trúnaðarstarfa en hér hafa verið talin. Hann var í miðstjórn Framsóknarflokksins 1933–1946 og frá 1950, í fulltrúaráði Útvegsbanka Íslands 1936–1957 og í bankaráði Útvegsbankans frá 1957. Hann átti sæti 1936–1938 í stjórnskipaðri nefnd, er samdi frumvarp til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, og var kosinn 1937 í milliþinganefnd til að gera tillögur um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri. Í stjórn Skuldaskilasjóðs útvegsmanna var hann 1949–1951, í bankamálanefnd 1951–1954, í fjárhagsráði 1952–1953, í endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga 1954–1956, í byggðajafnvægisnefnd 1954–1956, var formaður atvinnutækjanefndar 1956–1961 og formaður staðsetningarnefndar ríkisstofnana 1958–1960. Hann var forseti Rímnafélagsins 1981–1965 og í stjórn Hins íslenska þjóðvinafélags 1962–1970.

Gísli Guðmundsson ólst upp við sveitastörf og hélt alla ævi nánum tengslum við æskustöðvar sínar, átti síðustu árin heimili á föðurleifð sinni og dvaldist þar löngum, þegar færi gafst vegna starfa þeirra, sem hann hlaut að vinna annars staðar. Hann var vel að sér um sögu þjóðarinnar og atvinnuhætti til lands og sjávar, ritfær og málhagur. Auk fjölmargra greina í blöðum og tímaritum liggja eftir hann frumsamin rit og þýðingar erlendra bóka. Gísli Guðmundsson var hæglátur og hlédrægur, en áhugi hans var mikill. Hann átti um nokkurt skeið við heilsuleysi að stríða, en víðtæk þekking hans á landshögum, glöggskyggni og gjörhygli, leiddu til þess, að til hans var leitað til ráðuneytis og forustu um marga mikilvæga þætti þjóðmála. Gísli Guðmundsson var samvinnuþýður og tillögugóður í samstarfi innan þings og utan, fastur fyrir og fylginn sér í baráttu fyrir hugðarmálum sínum, þrautseigur og úrræðagóður í hverri raun. Gísli Guðmundsson var langa hríð einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum landsins. Störf hans á sviði löggjafar og þjóðmála marka víða spor. Lengst mun þó Gísla Guðmundssonar verða minnst fyrir þrautseiga og hetjulega baráttu hans og forustu innan þings og utan fyrir ráðstöfunum til þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins, sem nú orðið á sterkan hljómgrunn með þjóðinni. Hiklaust má fullyrða, að enginn einstaklingur á jafnríkan þátt og hann í þeim heillavænlegu breytingum, sem nú eru að verða almennt á viðhorfi til þeirra mála.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Gísla Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]