25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

113. mál, skipulag ferðamála

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég get endurtekið það, sem ég hef áður sagt í sambandi við þessa till., að efnislega er ég henni samþykkur, og það hefur komið fram hjá fleiri mönnum, sem tekið hafa til máls um þetta frv., en ég er á sömu skoðun og ég hef verið, að þessi till. eigi heima sem breyt. á öðrum l. en þessum. Hún á fyrst og fremst heima í sambandi við skólakostnaðarl. Hvað viðkemur því, sem hv. þm. sagði varðandi Ferðamálasjóðinn, þá hefur ekki til þess þurft að koma. Það vita menn í sambandi við hagnýtingu á heimavistarskólunum til sumarhótelhalds, að það hefur ekki þurft til þess að koma, að þar væri um neinn ágreining að ræða. Ferðamálasjóður hefur lánað fé til þess, að það væri hægt að bæta þá aðstöðu, sem í heimavistarskólunum er fyrir hendi, til þess að þau kæmu að sem bestum notum til hótelrekstrar. Þess vegna er enginn vafi á því, að enda þótt þessi breyt, verði ekki gerð á frv. eða l. um skipulag ferðamála, þá er það jafnt fyrir hendi eftir sem áður, að Ferðamálasjóður mundi hlaupa undir bagga að einhverju leyti í sambandi við það, sem l. mundu ákveða um að hanna skólahús með tilliti til þess, að þau yrðu nýtt sem sumargistihús. Ég tel. að það sé alveg tvímælalaust, að brtt. sem þessi eigi ekki heima í þessu frv. eða þeim l., sem hér er verið að afgreiða, heldur vil ég segja það, að ég er tilbúinn til þess að vera meðflm. hv. flm. þessarar till. við að breyta l. varðandi skólana, sem væru alveg í sömu átt og felst í þessari till., en tel hins vegar, að það sé rétt, sem rétt er, og þessi till, eigi þar heima, en ekki annars staðar.