26.03.1974
Sameinað þing: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3131 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

42. mál, notagildi einfasa og þriggja fasa rafmagns

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til athugunar þessa þátill. Efni hennar lýtur að því, að kannað verði notagildi einfasa og þriggjafasa rafmagns, ennfremur, að gerð verði ítarleg kostnaðar- og framkvæmdaáætlun, hvernig best verði við komið breytingu úr einfasa rafmagni í þriggjafasa rafmagn í sveitum landsins, þar sem það telst nauðsynlegt og jafnframt er talið kleift.

Sá tími nálgast óðfluga, að sveitarafvæðingunni ljúki. Það er því fyllsta ástæða að huga vel að því máli, sem hér ræðir um. Það er álit fróðra manna, að aukinni tæknivæðingu í landbúnaði séu settar mjög þröngar skorður, ef einungis er búið við einfasa rafmagn, og fyrir þá sök sé þörf að íhuga og síðan að hefja endurbætur að þessu leyti. Hitt er einsætt, að það var eðlilegt, að hin ódýrari leið væri farin í fyrstunni til þess að flýta sem mest fyrir dreifingu rafmagns um byggðir landsins. En þegar henni lýkur, er það að mati allshn. rétti tíminn að hafa til fullbúnar þær áætlanir, sem þarf til frekari aðgerða.

Umsagnir liggja fyrir frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Stéttarsambandi bænda, þar sem tekið er mjög undir þetta mál. Þá hefur komið frá Rafmagnsveitum ríkisins sérfræðileg grg. um þetta efni, og ég ætla að leyfa mér að lesa upp glefsur úr þeirri grg. Þar segir m.a.:

„Könnun á því, hve mikið óhagræði og kostnaðarauka þeir búa við, sem aðeins hafa einfasa rafmagn, borið saman við þá, sem hafa þriggja fasa rafmagn: Hagkvæmni þriggja fasa rafmagns fyrir býlin kemur m.a. fram í hagstæðara inn kaupsverði á rafmóturum, en þriggja fasa rafmótorar eru mun ódýrari en einfasa mótarar. Aflnýting einfasa rafmagnsmótora er mun verri en þriggja fasa mótora, og veldur hér sérstaklega ójafnt álag á fasa í einfasakerfi, en fasa skekkja verður því meiri sem stærri vélar eru tengdar við kerfið, og á þetta þá sérstaklega við um súgþurrkun. Yfir sumartímann getur aflstöðull lækkað niður í 0,65 úr 0,80 yfir veturinn, þegar rafmagnshitun er meira notuð. Rekstraröryggi þriggja fasa rafmagns er mun meira. Einfasa rafmótorum er mun hættara við yfirlestun svokallaða fasaskekkju.“

Niðurstaðan um þetta atriði í þáltill. er á þessa leið hjá Rafmagnsveitum ríkisins: „Dreifing þriggja fasa rafmagns um sveitir landsins er hugsanlega að verða tímabær á þéttbýlustu svæðunum. Rafvélabúnaður fjölda býla er þegar orðinn svo mikill, að hagkvæmt er, að þau fái tengingu við þriggja fasa rafmagn. Þörfin fyrir þriggja fasa rafmagn mun því á næstu árum aukast mjög mikið, og nægir að nefna í því sambandi sjálfvirka fóðrun, flórhreinsun, mykjudælingu og margt fleira, sem þegar hefur rutt sér mjög til rúms erlendis. Hins vegar er ljóst, að fjöldi býla hefur ekki þörf fyrir þriggja fasa rafmagn fyrst um sinn, frekar en flestir neytendur í bæjum. Það sýnist því vera rétt, að stofnlínur dreifikerfanna séu byggðar fyrir þriggja fasa rafmagn, þannig að stórir orkukaupendur geti tengst við þriggja fasa kerfið sem fyrst. Kostnaður við að breyta einfasa spennustöðvum í þrífasa spennustöðvar ásamt breytingum á heimtaugum gæti þá dreifst yfir alllangt framkvæmdatímabil. Nauðsyn þess að miða dreifingu þriggja fasa rafmagns við ákveðnar meðalfjarlægðir væri þá ekki fyrir hendi.

Þetta segja Rafmagnsveitur um hagkvæmni í — sambandi við einfasa og þriggjafasa rafmagn. — Enn fremur segir í grg. Rafmagnsveitna ríkisins:

„Áætlun kostnaðar við það að koma þriggja fasa rafmagni um sveitir landsins, þar sem nú er einfasa eða verður lagt á næstu árum: Svar: Kostnaður um 1680 þús. kr.“

Um þriðja atriðið í þáltill. segja Rafmagnsveiturnar:

„Framkvæmdaáætlun, sem miðast við það, að þegar að fulllokinni sveitarafvæðingunni verði hafist handa um að koma þriggja fasa rafmagni til þeirra sveitabýla, sem fengið hafa einfasa rafmagn, þar sem það telst kostnaðarlega forsvaranlegt. Svar: Kostnaður 1000 þús. kr.“

Hér hefur verið vikið að nokkru leyti að öllum þeim þrem þáttum, sem till. fjallar um, og er alveg ljóst, að þessu máli hefur verið sinnt hjá Rafmagnsveitum ríkisins og hér hafa margvísleg svör verið gefin. En með því að allshn. telur hér mjög brýnu verkefni hreyft og til úrlausnar þess verður fyrr en seinna að ganga, en ætla má hins vegar, að enn frekari úrvinnslu sé þörf á vegum þeirra opinberu aðila, sem þegar hafa unnið að málinu, þykir allshn. rétt, eins og málinu háttar, að vísa till. við svo búið til hæstv. ríkisstjórnar.