27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3134 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

113. mál, skipulag ferðamála

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við upphaf 3. umr. gerði ég grein fyrir brtt. minni á þskj. 571, og urðu þá nokkur orðaskipti um hana, og komu þá m.a. fram tilmæli frá hæstv. menntmrh. um, að ég skoðaði málið frekar með hliðsjón af hugsanlegri breytingu, sem gerð yrði á till., þannig að almennari samstaða gæti um hana tekist en útlit virtist fyrir eftir undirtektum að dæma við 2. umr., þar sem sumir þdm. hafa látið í ljós þá skoðun, að a.m.k. fyrri hl. brtt. ætti ekki heima í l. um skipulag ferðamála. Síðan þetta var, hef ég haft samráð við hæstv. menntmrh. um að orða till. á annan veg og borið þá jafnframt undir hv. 2. þm. Vesturl., Jón Árnason, sem hafði mælt gegn till. í hinu fyrra formi, og hefur hv. þm. Jón Árnason fallist á að styðja till. í þeim búningi, sem hún er nú á þskj. 572. Ég tel ástæðulaust að lesa bana hér upp, en læt þess einungis getið, að hún er algerlega samhljóða efnislega hinni fyrri till., en úr till. er sleppt þeim orðum, áður en hannað er húsnæði heimavistarskóla, sem ríkissjóður kostar að einhverju eða öllu leyti, skuli leita umsagnar stjórnar Ferðamálastofnunar Íslands um gerð hússins og innréttingu. Menn töldu sem sé, að þessi orð ættu frekar heima í l. um skólakostnað og nægilegt væri, að í l. um skipulag ferðamála kæmi það inn, sem beinlínis snertir Ferðamálastofnunina.

Ég vil í fyrsta lagi, herra forseti, draga til baka brtt. mína á þskj. 571, en í öðru lagi óska eftir því, að leitað verið afbrigða um brtt. mína á þskj. 572.