28.03.1974
Efri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

286. mál, ávana- og fíkniefni

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og hæstv. dómsmrh. tók fram áðan, eru þessi þrjú frv. nátengd. Það frv. sem hér liggur fyrir, miðar að endurskoðun á l. nr. 77 1970, um tilbúning og verslun með ópíum o. fl., en þau lög eru að stofni til frá 1923 með nokkrum breytingum, sem gerðar voru með l. nr. 43 1948 og nr. 25 1970.

Þetta frv. hefur verið samið í náinni samvinnu við dóms- og kirkjumrn. og hegningarlaganefnd, og er tengt þeim frv., sem rætt var um hér áðan. Hegningarlagan. hefur átt mjög drjúgan þátt í samningu þessa frv. einnig, enda ríður mjög á, að löggjöf sem þessi sé sérstaklega úr garði gerð með það í huga, hvernig túlkun dómsstóla kunni að verða við meðferð dómsmála við brot á slíkri löggjöf.

Það er kunnara en frá þurfi að segja í löngu máli, að mjög hefur reynt á löggjöf og aðrar aðgerðir þjóða um allan heim, einkum hin síðari ár, í sambandi við ávana- og fíkniefnamál. Þetta hefur einnig haft í för með sér víðtækar sameiginlegar aðgerðir þjóða í viðleitni til varnar gegn þeim vágesti, sem ávana- og fíkniefni eru.

Árið 1961 var undirritaður alþjóðasamningurinn „Single convention on Narcotic Drugs“. Sameinuðu þjóðirnar áttu frumkvæði að þeirri samningsgerð, og eru nú flestar þjóðir samtakanna eða 93, aðilar að þessum samningi. Eftir því sem leið á 7. áratuginn var almennt talið af þeim, sem til þekktu, að samningurinn 1961 væri ekki nógu víðtækur með tilliti til þeirra efna, sem skráð eru í honum. Varð því úr, að gerður var í Vínarborg 1971 nýr samningur, „Convention on Psychotropic Substanees“, sem að formi til er mjög hliðstæður samningnum frá 1961, er tekur til ýmissa ofskynjunarefna, sem komin voru í sviðsljósið, svo sem LSD, örvandi efna, t.d. amfetamíns, og ýmissa svefnlyfja og róandi lyfja. Um s.l. áramót höfðu 15 þjóðir staðfest þennan samning.

Með frv. þessu er samkv. I. málsgr. 1. gr. gert ráð fyrir því, að ríkisstj. verði heimilt fyrir Íslands hönd, að gerast aðili að slíkum alþjóðasamningum. Það skal þó tekið fram af þessu tilefni, að af hálfu framkvæmdavaldsins hefur að undanförnu verið fylgt þeirri meginstefnu, sem áðurgreindir alþjóðasamningar marka, og nauðsynlegar skýrslur hafa verið gerðar samkv. beiðni fjárhags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Af þessum sökum mun væntanleg aðild að alþjóðasamningum um ávana- og fíkniefni ekki hafa í för með sér teljandi byrjunarörðugleika í framkvæmd.

Þegar rætt er hér um ávana- og fíkniefni, er rétt að hafa í huga, að hugtakið nær jafnframt til lyfja, sem vissulega hafa mikilvægt notagildi, ef rétt meðferð er höfð. Nákvæmt eftirlit þarf með slíkum lyfjum engu síður en öðrum ávana- og fíkniefnum. Í þessu sambandi reynir á lyfsölulög, nr. 30 frá 1963. Samkvæmt heimild í þeim hafa verið sett reglugerðarákvæði um ávísanir ávana- og fíkniefna, sem ganga í sumu lengra en alþjóðasamningar bjóða, enda ber einnig að líta svo á, að ákvæði samninganna feli í sér þær lágmarksaðgerðir, sem aðilar skuldbinda sig til að framkvæma.

Með þessu frv. er ráðh. heimilað að ákveða með reglugerð um flokkun ávana- og fíkniefna. Í þessu sambandi er þó einkum vísað til efna, sem greind eru í alþjóðasamningum. Þeir aðilar, sem að samningu þessa frv. hafa unnið, þ.e.a.s. hegningarlaganefnd, fulltrúar dóms- og kirkjumrn. og heilbr. og trmrn., eru þó sammála um að tilgreina sérstaklega í þessu frv. efni, sem mikil hætta stafar af samkv. ákvæðum alþjóðasamninga. Eru þau efni talin upp í 6. gr. frv., þannig yrðu þessi efni bönnuð með l. og heimild ráðh. til flokkunar ávana- og fíkniefna að því leyti takmörkuð.

Refsiákvæði í 5. gr. þessa frv. eru almenns eðlis, en hins vegar er gert ráð fyrir, að stórfelld brot eigi undir almenn hegningarlög að sækja, sbr. áðurgreint frv. til breyt. á þeim l., sem lagt er fram samhliða þessu frv.

Ég held, að það sé ekki ástæða til, að ég skýri gr. frv. hverja fyrir sig. Það fylgir frv. ítarleg og skýr grg., bæði almenn og skýringar við einstakar gr. En ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að afgreiða þetta mál, þannig að það geti orðið að l. á þessu þingi. Ég hygg, að það sé rétt, að þessi frv. fylgist að við í athugun í n., og teldi því eðlilegt, að einnig þessu frv. yrði vísað til hv. allshn. Ég geri það að till. minni, herra forseti, um leið og ég legg til. að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr.