28.03.1974
Efri deild: 93. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

283. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef ásamt 4, þm. Norðurl. v. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, og er það síður en svo það fyrsta af þeirri tegund í þessari hv. d. í vetur. Þetta frv. er nokkuð sérstaks eðlis, því að meginefni þess er að færa starfsemi þessarar þýðingarmiklu stofnunar út á landsbyggðina, þ.e. til þeirra þriggja landshluta, sem lengst eru frá Stór-Reykjavíkursvæðinu og eiga óhægast um vik að ná nauðsynlegri og eðlilegri fyrirgreiðslu í hvívetna.

Eins og bent er á í grg., er hér um einn af hinum fjölmörgu þjónustuþáttum hins opinbera að ræða. Spurningin er ekki um það, hver þýðing hans sé í samanburði við ýmsa aðra, heldur frekar um prófstein á viðhorf, ekki aðeins Alþingis, heldur ekki síður stofnananna sjálfra varðandi till. yfirleitt um flutning starfsemi þeirra út á land, hvort sem um mikinn hluta er að ræða eða jafnvel alla starfsemina. Að þessu verkefni hefur svokölluð stofnananefnd unnið. Ég tek það fram sem meðlimur þeirrar n., að hér er ekki um að ræða álit þessarar n. um skipan mála hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, enda liggur það ekki fyrir, né heldur er þetta eitthvert sennilegt sýnishorn af þeim till, sem þar munu verða fram settar í hinum ýmsu málaflokkum.

Það hefur hins vegar verið sérstaklega lærdómsríkt að starfa í þessari n., kynnast hvoru tveggja: víðsýni og frjálslyndi forustumanna opinberra stofnana svo og dæmalausri þröngsýni og einkasjónarmiðum eigingirninnar, sem einnig hafa fram komið. Ekki verður síður lærdómsríkt og fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum við þeim till., sem n. leggur fram, og þá allra helst, hvernig framkvæmdin verður, því að þar þarf sannarlega að taka til hendi, ef áratuga einstefnuakstri á að snúa við.

Opinber þjónusta hefur á flestum sviðum verið í algeru lágmarki úti á landsbyggðinni, sums staðar og á allt of mörgum sviðum engin. Um það má vissulega deila, á hvaða sviði fyrst skal bera niður, hvar þörfin sé mest, og fjarri er mér að halda því fram, að þessi þáttur sé einmitt sá, sem á er mest nauðsyn allra þjónustuþátta úr að bæta. Hitt er jafnljóst mér sem öðrum, sem þessi mál þekkja af raun, að nauðsyn stórbættrar þjónustu við landsbyggðina, einnig í þessum efnum, er knýjandi. Til þess liggja margar ástæður aðrar en þær, að fjarlægðin er svo mikil og erfitt um vik af þeim ástæðum. Tilfærsla valds og ákvarðanatektar kemur hér mjög inn í. Landsbyggðin heimtar til sín æ meiri rétt til eigin valds til ákvarðanatöku um eigin málefni. Nefnd eða forstjóri í Rvík á ekki að vera ein allsherjaralmáttug forsjón í einu sem öllu. Fyrir utan þá hættu, sem af því stafar að stefna öllu valdi í hverju einu á einn stað eða ákveðið svæði, koma sterklega inn í myndina þau atriði, sem lúta að yfirsýn og þekkingu, sem hlýtur að vera því minni sem fjær er vettvangi þess, sem gera skal.

Ég hef svo sannarlega misjafna reynslu af opinberum stofnunum varðandi fyrirgreiðslu þeirra varðandi hinn almenna þegn út á landsbyggðinni. Húsnæðismálastofnunin er alls ekki neitt sérstakt neikvætt dæmi hér um. Ótal mörg dæmi mætti þó nefna frá þeirri stofnun einni, sem hafa reynst húsbyggjendum dýrkeypt, sum fyrir mistök, sem alltaf geta reyndar átt sér stað, en önnur vegna skorts á nauðsynlegum þjónustuvilja við húsbyggjendur. Í gær var t.d. húsbyggjandi austur á landi í öngum sínum út af því, að eingöngu vegna samgönguerfiðleika hafði vottorð hans, sannanlega, borist 2 dögum of seint til stofnunarinnar, svo að hann fékk þau svör, að heldur betur yrði bið á láni honum til handa, — eitt smádæmi af ótal, sem ég ætla ekki að ræða hér nánar, því að margt má einnig gott um stofnunina segja hvað þjónustu varðar. Rangt væri að ætla sérstaklega að vera að gera hér að umtalsefni ýmislegt, sem þar mætti betur fara, því að vissulega er víða hægt að rekja sögur af misjöfnum viðskiptum borgaranna við kerfið, enda er það langt í frá, að þar sé um að ræða ástæðuna fyrir þessum frv.- flutningi.

Útibúahugmyndin varðandi opinberar stofnanir ýmsar, hefur ætíð verið mér einkar hugleikin, og ég held, að í henni sé fólgin veruleg hreyfing í jafnaðarátt í þágu landsbyggðarfólks, þó að margar stofnanir megi með fullum rétti segja, að eins geti verið utan höfuðborgarsvæðisins, og að því ber að vinna einnig, eins og nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa gert með góðum árangri. En hvers vegna er þessi útibúahugmynd einmitt sett fram varðandi húsnæðismálin og varðandi Húsnæðismálastofnun ríkisins? Í fyrsta lagi hafa verið um slík útibú háværar raddir utan af landsbyggðinni, og eins og vikið er að í grg., var sérstök krafa um þetta sett fram á húsnæðismálaráðstefnu á Austurlandi s.l. vor. Þar voru mættir bæði form. og framkvstj. stofnunarinnar, og fékk ég ekki heyrt nein sérstök mótrök þeirra við þessari kröfu. Miklu fremur voru þeir í mörgu jákvæðir hugmyndinni, þó að ýmsar aths. væru gerðar við framkvæmdina og möguleikana á fullri og endanlegri afgreiðslu lánanna.

Í öðru lagi eru húsnæðismálin og húsbyggingar á landsbyggðinni með miklum blóma. Hin stóraukna atvinna og almenna bjartsýni, sem þar ríkir, hefur gjörbreytt öllu ástandi húsnæðismála einnig á þann veg einmitt, að nú segir húsnæðiseklan til sín í æ ríkara mæli, stendur blátt áfram mörgum byggðarlögum fyrir þrifum. Stóraukning húsbygginga er orðið eitt af mest brennandi viðfangsefnum landsbyggðarinnar. Til móts við þetta hefur verið komið með annars vegar aukinni byggingu verkamannabústaða, sem víða eru vel á veg komnir, og svo með hinni nýju löggjöf um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga, og fleira kemur einnig til.

Í þriðja lagi er það mín persónuleg reynsla, byggð á starfi mínu s.l. ár, að um flest eða ef til vill nær allt færi betur á því og yrði hentugra og betra, að lánsafgreiðslan færi öll fram heima fyrir í landshlutunum. Þá yrði hægara um vik og ýmislegt færi betur, því að í öllu því flóði umsókna og vottorða, sem berst, vill sumt týnast og margt dragast um of, og er alls ekki verið að gera lítið úr góðu starfi stofnunarinnar með því, aðeins það að slíkt hlýtur að koma fyrir í öllu því skriffinnskuflóði, sem viðgengst þetta varðandi og eflaust er að mörgu nauðsynlegt.

Margt fleira mætti telja, en skal ekki farið nánar út í hér, en einróma álit þeirra, sem í húsbyggingum standa úti á landsbyggðinni, er það, að málum þeirra væri betur komið og þeir ættu auðveldara með að sækja sinn rétt, lagfæra mistök o.s.frv., ef þjónustan væri heima í landshlutanum sjálfum.

Hin hliðin, sem snýr að því, að þá sjálfsögðu þjónustu eigi sem viðast að rækja, er svo ekki síður þýðingarmikil og um hana mætti vissulega margt segja, eða um það, hvers vegna endilega Reykjavik sé sjálfsögð staðsetning sérhvers, sem er í þjónustu landsmanna allra. En það er önnur saga, sem ekki skal út í farið.

Sérhvert spor til að snúa þar við, er vissulega dýrmætt, ekki bara landsbyggðinni og íbúunum þar, heldur og þjóðfélaginu sjálfu og allri uppbyggingu þess. Misrétti - jöfnuður eru orð, sem koma ósjálfrátt í hug, þegar um þessi mál í heild er rætt. Misréttið er það, sem einkennt hefur ástandið og einkennir enn í allt of mörgu. Jöfnuður er sú stefna, sem að ber að vinna, framtíðarmarkmið, sem Reykvíkingum einnig ber að hafa í huga sjálfs sin vegna. Skal þá vikið að efni frv.

Meginefnið lýtur að stofnun sjálfstæðra útibúa frá Húsnæðismálastofnun ríkisins á Vestfjörðum, Norðurlandi v., Norðurlandi e., og Austurlandi. Hér er ekki gengið lengra en að leggja til útibú í þeim landsfjórðungum, er lengst liggja frá höfuðborginni eða stofnuninni sjálfri. Vissulega væri full ástæða til að hafa útibú víðar, en flm. þykir rétt að ganga ekki lengra í byrjun. Það verður þá a.m.k. ekki sagt með réttu, að allt sé í einu heimtað. Sýnist mönnum hins vegar svo, að verði útibúum á annað borð komið á, beri að gera það í öllum kjördæmum, skal ekki standa á okkur flm. að samþykkja það.

Við leggjum til náin og um leið nauðsynleg tengsl þessara útibúa við þær skipulagsskrifstofur sem að er stefnt úti í landshlutunum, sem hljóta fyrr eða síðar að komast þar á, annaðhvort að tilhlutan heimamanna, einna eða með samstarfi við ríkisvaldið og þá auðvitað, hvor leiðin sem farin yrði, í nánum tengslum við skipulag ríkisins. Þessar skipulagsskrifstofur hljóta að vera nauðsynlegir hjálparaðilar fyrir hin ýmsu dreifðu sveitarfélög, og verkfræðiskrifstofur, sem þegar er sums staðar vísir að, koma hér einnig inn í til samstarfs og leiðbeiningar. Slíkar skrifstofur sem þessar hljóta að auðvelda mjög útibúastofnun og að þeim er unnið og ber enda að vinna samhliða.

Að öðru leyti er gert ráð fyrir svipuðu starfi í útibúunum og fram fer í höfuðstaðnum. Tekið er við umsóknum og þær yfirfarnar og séð um, að öllum skilyrðum sé fullnægt, og þær síðan arfgreiddar. En þá kemur til sú nauðsynlega bankaþjónusta, sem óhjákvæmileg er. Lagt er til. að útibú Landsbankans eða annars ríkisbanka annist þá hlið mála. Að sérstaklega skuli að Landsbankanum vikið, stafar einfaldlega af því, að veðdeild Landsbankans fer með þessi mál í núgildandi lögum, en á Norðurl. v. hagar hins vegar svo til. að Landsbankinn starfrækir þar ekkert útibú, og er því „annars ríkisbanka“ skotið þarna inn.

Ég get varla ímyndað mér neina annmarka hér á, sé þá einfaldlega ekki, þó að einmitt hafi verið á útborgun lánanna bent sem þröskuld í vegi, þ.e. að bankaútibúin gætu illa séð um eða tekið við þessu verkefni, m.a. vegna veðtrygginga. Hér hafa aðeins heyrst fullyrðingar án alls, sem við flm. getum tekið alvarlega sem beinan og ótvíræðan rökstuðning á móti.

Eitt af hlutverkum útibúanna ætti að sjálfsögðu að vera það að hafa sem mest og best samstarf við byggingarfulltrúa á sínu svæði og meira en það. Þó að á það atriði sé ekki minnst í frv., á það að vera ein frumskylda þessara útibúa, sem og stofnunarinnar í heild, að sjá þessum mönnum fyrir viðunandi fræðslu, auka þekkingu þeirra og um leið hæfni, því að ekki mun sums staðar af veita.

Skipulags- og verkfræðiskrifstofurnar kæmu hér einnig inn sem ágætur hjálparaðili, einkum hvað snertir tæknihlið þessarar fræðslu, sem byggingarfulltrúum þyrfti að veita í ólíkt ríkara mæli en nú er gert. Um þetta er ekki fram tekið sérstaklega í frv., en vísað til þess, sem segir um, að útibúin skuli veita sömu þjónustu og stofnunin sjálf, og hér er komið inn á eina þýðingarmestu skyldu stofnunarinnar, sem of litið hefur verið að gert, en þó verið fitjað upp á að nokkru.

Varðandi fyrirgreiðslu og upplýsingaþátt útibúanna almennt þarf fátt fram að taka, en almenn upplýsingamiðlun þarf að aukast. Húsnæðismálastofnunin hefur nú upp á síðkastið gengið þar myndarlega til verks, en betur má þó án efa gera. Sýnishorn teikninga hljóta og að eiga að vera til reiðu, en teiknistofan hér syðra hlyti eftir sem áður að vinna öll verkefni. Skipulagsskrifstofur í landshlutunum kæmu hér inn í myndina, og ef til vill væri hægt að fela þeim ýmis verkefni þar að lútandi í framtíðinni, en úr því verður reynslan að skera.

Sú skoðun hefur æ oftar komið fram, að Húsnæðismálastofnunin væri óþörf, þetta ætti hreinlega að vera inni í bankakerfinu sjálfu, sem einn þáttur þess. Ég er þessu andvígur bæði gagnvart einstökum húsbyggjendum og þó alveg sérstaklega gagnvart þeim félagslegu þáttum, sem hljóta að verða enn meira afgerandi á næstu árum, verkamannabústaðakerfið, leiguíbúðirnar og eflaust fleiri þættir, sem þar geta til komið. Húsnæðismál eru fyrst og fremst félagslegs eðlis, félagsmál, en ekki fjárhagslegs eðlis á þann hátt, að bankar einir eigi þar að ráða ferðinni. Þvert á móti ber að efla þessa stofnun, fá henni fleiri verkefni í hendur, en um leið dreifa valdinu og starfinu í heild út um landsbyggð alla. Því er lögð á það rík áhersla í frv., að hinir sérstöku félagslegu þættir húsnæðismálakerfisins séu einnig í höndum útibúanna og heimamenn, sveitarstjórnir og aðrir slíkir aðilar, fái þar að ráða ferðinni meira en verið hefur og sitji a.m.k. við sama borð og Reykvíkingar í þessum efnum. Enginn vafi er á því, að íbúðabyggingar á hvers konar félagslegum grundvelli eiga eftir að stóraukast og eins hitt, að þar muni nýir þættir koma inn, og hlýtur það þá að vera eitt helsta sameiginlegt verkefni útíbúanna og skipulagsskrifstofanna að rækja þá þætti sem best, sjá um hagkvæmni og jöfnun, tryggja, að slíkar byggingar verði í raun hagstæðari og viðráðanlegri en aðrar byggingar.

Ekki vil ég út af fyrir sig amast við þeirri sjálfsögðu viðleitni fólks að eignast eigið þak yfir höfuðið. En það má og á að gera einnig með öðrum hætti en þeim eina, sem hingað til hefur verið allsráðandi, þ.e. að menn byggi algerlega á eigin spýtur með að vísu aðstoð ríkisvaldsins í formi lánsfjár. Hið félagslega form, með hvaða hætti sem það nú kann að verða framkvæmt, hlýtur að verða ríkjandi fyrr en síðar, og ekki siður þess vegna er nauðsyn að færa vald til ákvarðana og skipulagningar út í landshlutana.

Fyrir Alþ. liggur nú frv. um sérstök örvunarlán til húsbygginga á landsbyggðinni. Ef af samþykkt þess verður, sem telja má öruggt, þar sem að því standa allir flokkar nema einn, þá hlytu útibúin þar verðugt viðbótarverkefni, sem þau væru enn betur fær um að rækja en stofnanir hér syðra. Það eru mörg rök og óyggjandi, sem að því hníga, að hér sé farið inn á rétta braut. Margir munu þó telja af þessu of lítinn ávinning miðað við þann ótvíræða kostnaðarauka, sem af yrði, þ.e. kostnaðarauka fyrir stofnunina sjálfa. En af víðara sjónarhóli verður að líta. Kostnaðarauki landsbyggðarfólks vegna ríkjandi fyrirkomulags um opinbera þjónustu vill furðu oft gleymast, en þeim mun meira um hitt talað, þótt aðeins sé brotabrot af því, sem landsbyggðarfólk þarf að bera bótalaust í alls konar aukakostnaði. Það er blátt áfram ömurlegt til þess að vita, hve svona röksemdir eru oft notaðar af forráðamönnum stofnana og talsmönnum hins opinbera til að berja niður sjálfsagða þjónustu við fólkið úti á landi, — hvernig hægt er að horfa fram hjá hinum stóra þætti þessa máls, hinum afgerandi viðbótarkostnaði fólksins, en einblína á hitt, er mér og mörgum fleirum ráðgáta.

Um ávinninginn má eflaust deila, en ég vísa aftur á einróma álit heimamanna, t.d. á Austurlandi, hér um, og á því tek ég meira mark en ýmsu öðru frá því íhaldssama kerfi, sem uppi hefur aðrar röksemdir.

Að síðustu er í frv. vikið að úthlutun og útdeilingu þess heildarfjármagns, sem stofnunin hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Varðandi það atriði má eflaust fara ýmsar leiðir, en fyrst og fremst hlýtur fjárþörfin á hverjum tíma að skipta meginmáli. Yfirstjórn stofnunarinnar hlýtur að útdeila sem réttlátast því fjármagni, sem hún hefur yfir að ráða. Hún hlýtur einnig að verða að taka um það heildarákvörðun, hversu mikið fjármagn eigi að fara í hvern þátt byggingarmálanna, og einnig að leggja þá höfuðlínu í málunum, sem útibúin hljóta svo að byggja á. Vald til mörkunar heildarstefnu í húsnæðismálum er í höndum Alþ. Í þess umboði fer húsnæðismálastjórn með alla nánari útfærslu þeirrar stefnu, og því verða útibúin, a.m.k. í fyrstu, að hlíta. Freistandi væri að ræða hér þátt lífeyrissjóða og samtengingu þeirra við þetta kerfi, en það skal ekki gert hér. En vissulega er þar um að ræða veigameira mál en svo, að það þarfnist ekki heildarathugunar, og þar verður að byggja á öðru en því handahófi, sem allt of víða er þar á nú.

Um yfirstjórn útibúanna gerum við flm. enga ákveðna till. Það mál þarfnast rækilegrar íhugunar, og við flm. erum ekki á þessu stigi tilbúnir að leggja neitt ákvarðandi til í þeim efnum. Aðeins sem hugmynd mætti nefna það, að ásamt framkvæmda- eða útibússtjóra væru allar meiri háttar ákvarðanir teknar af tveim fulltrúum til viðbótar frá sveitarstjórnum eða frá stjórnum byggingarfélaga verkamanna á svæðinu, er um þau mál væri sérstaklega fjallað, er þeim við kæmi. Annars ætti afgreiðslan að vera sem sjálfvirkust, ef öllum skilyrðum væri fullnægt og miðað við að fjárþörf á hverjum tíma verði mætt að mestu eða öllu leyti.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta frv., en leggja áherslu á það aftur, að í raun er hér nokkur prófsteinn á viðbrögð og afstöðu jafnt þm. sem stofnana á till. af þessu tagi, þótt ég viti, að þær hafi áður komið fram. Hvað svo sem mönnum sýndist um þetta afmarkaða mál, þá kæmi fram afstaða manna til útibúahugmyndanna yfirleitt, þar sem um hreinan flutning stofnana yrði þá ekki að ræða.

Ég legg svo til. herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.