29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

100. mál, kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. N. hefur rætt þetta mál á mörgum fundum og sent það dómsmrn. og réttarfarsnefnd til umsagnar. Einnig hefur verið til meðferðar í n. frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Seltjarnarnes og Bolungarvíkurkauptún. Í Ed. hafa verið lögð fram frv. um kaupstaðarréttindi handa Grindavíkurhreppi og Eskifjarðarhreppi. Urðu nm. sammála um, að það væri í nokkuð mikið ráðist að stofna til nýrra bæjarfógetaembætta á þessum stöðum, og í sömu átt hnigu einnig álitsgerðir dómsmrn. og réttarfarsnefndar. Mér þykir rétt að lesa hér upp kafla úr umsögn réttarfarsnefndar, með leyfi hæstv. forseta.

„Hér á landi fara sömu menn, bæjarfógetar og sýslumenn, með dómsstörf, lögreglustjórn og umboðsstörf ýmiss konar. Sjálfsagt verður þess ekki langt að bíða, að núv. skipan verði breytt hér á landi í það horf, að dómsstörf og umboðsstörf verði aðskilin. Verður þá að setja á stofn héraðsdómstóla utan Reykjavíkur, er taki við dómsstörfum bæjarfógeta og sýslumanna að verulegu leyti. Er það eitt af aðalverkefnum þessarar n. að gera till. í þessu efni. Einnig er nauðsynlegt að taka til endurskoðunar núv. mörk lögsagnarumdæma, sem eru víða mjög óeðlileg, miðað við staðhætti og breyttar aðstæður, t.d. í samgöngumálum. Við endurskoðun á þessu verður að hafa í huga hagsmuni þjóðarheildarinnar jafnt sem einstakra landshluta. Þess vegna telur réttarfarsnefnd æskilegt frá réttarfarslegu sjónarmiði, að sem allra minnstar einstakar breyt. verði gerðar á núv. dómstóla- og lögsagnarumdæmaskipan, meðan heildarendurskoðun er ekki lokið, þar sem slíkt gæti valdið erfiðleikum við endurskipulagningu síðar. N. telur einnig óæskilegt, að umdæmi dómara og lögreglustjóra séu mjög fámenn. Auk þess hefur fjölgun umdæma í för með sér veruleg útgjöld fyrir ríkissjóð. N. mælir því gegn því, að sett verði á stofn að svo stöddu ný bæjarfógeta- eða sýslumanns og lögreglustjóraembætti.

Það er hins vegar utan verksviðs réttarfarsnefndar að gera till. um skipan sveitarstjórnarmála, en benda má á, að mörk lögsagnarumdæma og sveitarstjórnarumdæma þurfa ekki nauðsynlega að fara saman. Ekki virðist heldur óhjákvæmilegt að stofna bæjarfógetaembætti, þó að sveitarfélög, þar sem sýslumaður hefur ekki aðsetur, fái kaupstaðarréttindi. Slíkt yrði ákveðið í l. um viðkomandi kaupstað. Sami maður gæti verið bæjarfógeti í tveimur kaupstöðum, á líkan hátt, og hann getur í senn verið bæjarfógeti og sýslumaður. Mætti þá setja upp á hinum nýja stað skrifstofu í tengslum við aðalskrifstofu bæjarfógeta.“

Þetta var úr umsögn réttarfarsnefndar. Þegar það lá fyrir, að n. mundi vera því mótfallin að setja upp bæjarfógetaembætti á Dalvík, hafði sveitarstjórinn og ýmsir hreppsnefndarmenn þar fyrir norðan samband við einstaka nm. og enn fremur hv. þm. úr Norðurl. e., og settu fram eindregnar óskir um, að í lög yrðu sett ákvæði þess efnis, að skrifstofa skyldi vera á Dalvík í tengslum við aðalskrifstofuna á Akureyri, skyldi hún vera opin á venjulegum skrifstofutíma, og þar vera staðsettur löglærður fulltrúi. Á þessari skrifstofu skyldu vera veðmálabækur fyrir hinn nýja kaupstað og nágrenni hans og þar gæti farið fram skipaskráning, bifreiðaskráning og önnur slík afgreiðsla, sem slík embætti annast. Á þessu var fullur skilningur í hv. félmn., en talið var, að allt slíkt væri framkvæmdaratriði, en ekki venja eða eðlilegt að setja í lög fyrirmæli um slíka framkvæmd. Haft hefur verið samband við sýslumann Eyfirðinga og bæjarfógetann á Akureyri og hæstv. dómsmrh., og er fullur skilningur hjá þeim báðum að verða við óskum Dalvíkinga að þessu leyti, eftir því sem þörf er talin á, og aðstæður leyfa. Fullt samkomulag ætti því að geta tekist um framkvæmdina. Sýslumannsembættið á Akureyri hefur haft opna skrifstofu á Dalvík í tæpt ár, og hefur löglærður fulltrúi farið frá aðalskrifstofunni á Akureyri einu sinni til tvisvar í viku, þegar fært hefur verið. Dalvíkingar vilja fá meiri þjónustu, en húsakynni, sem embættið hefur, eru of þröng, og erfitt er að bæta úr því fyrr en betra húsnæði fæst.

Að þessu öllu athuguðu er n. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með svo hljóðandi breytingum:

„1. Við 1. gr. Í stað orðanna „í alþingiskjördæmi Norðurl. e.“ komi: í Norðurlandskjördæmi eystra.

2. 2. gr. orðist svo:

Sýslumaður Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti Akureyrar skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.

3. 3. gr. falli niður.

4. 6. gr. (verður 5. gr.) orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

5. Aftan við frv. komi svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

„Þar til bæjarstjórnarkosningar hafa farið fram síðasta sunnudag í maí 1974, skal núv. hreppsnefnd fara með stjórn kaupstaðarins.““

Gylfi Þ. Gíslason var fjarstaddur afgreiðslu málsins.