02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

282. mál, kjarabætur til handa láglaunafólki

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er var það meginstefna ASÍ og ríkisstj. við síðustu kjarasamninga um síðustu mánaðamót, að láglaunafólkið skyldi fyrst og fremst fá meiri kjarabætur, m.ö.o. láglaunastefnan var meginatriðið. Hins vegar virðist reynslan hafa orðið sú, að þeir kjarasamningar, sem gerðir voru, mega teljast með eindæmum í sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar, og ber margt til:

Í fyrsta lagi hafði samningurinn varla verið undirritaður, áður en kauphækkanirnar komu að verulegu leyti fram í verðlaginu og það áður en sumar stéttir höfðu fengið kauphækkun. Mun þetta vera fátítt.

Í öðru lagi hin dæmalausa skattkerfisbreyting, sem er síst láglaunafólki til hagsbóta. Og í þriðja lagi, að samið var til meira en tveggja ára við það efnahagsástand, sem nú ríkir.

Í fjórða lagi, sem er erindið hingað, er, að nú hafa menn vaknað upp við þann vonda draum, að láglaunafólkið hefur fengið hlutfallslega minnstar kjarabætur. M.ö.o.: láglaunafólkið í landinu stendur verr að vígi eftir en áður, stefna ASÍ og ríkisstj. hefur ekki náð fram að ganga.

Af þessari ástæðu, til þess að ganga úr skugga um, hvort þetta sé rétt, að láglaunafólkið búi nú við skarðari hlut en áður, hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. félmrh.:

„1. Hlaut láglaunafólk mestar kjarabætur við nýgerða kjarasamninga, eins op ríkisstj. og ASÍ töldu höfuðnauðsyn á?

2. Hver varð hækkun á taxta Dagsbrúnar í samanburði við kauphækkun annarra vinnu,, stétta innan ASi, mæld í krónum og hundraðshlutum?“