02.04.1974
Neðri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

172. mál, verndun Mývatns og Laxár

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Þar sem ég gat því miður ekki verið viðstaddur í gær, er þetta mál kom hér til umr. og var reifað af 1. þm. Austf., sem ég efa ekki, að hefur gert því skil af kunnugleika og áhuga fyrir þeim málum, þá langaði mig aðeins til þess að skjóta hér inn í eða bæta við örfáum orðum um þetta efni.

Menn líta almennt nokkuð mismunandi á svokallaða náttúruvernd. Sumum hættir til að álíta hana aðeins hégómamál, tildur og sérvisku eða jafnvel rómantík. En slíkt er víðs fjarri, því að náttúruvernd í nútímaþjóðfélagi er síst af öllu rómantik, heldur beint raunsæi. Og sem betur fer hafa viðhorf manna hér á landi og þó öllu fremur úti í löndum tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum og áratugum. Þessu veldur fyrst og fremst hin aukna tækni, myndun stórborganna, mengun lofts og lagar og lands og umhverfis mannsins almennt. Náttúruvernd er ekki aðeins heilsuvernd, hún er ekki aðeins augnayndi, hún er jafnframt eða getur verið arðsöm eða arðgæf. Hvað yrði t.d. um nýjan atvinnuveg, sem nú er mikið ræddur hér á landi, ferðaþjónustuna, ef náttúra Íslands missti tign sína og fegurð? Ég er hræddur um, að ýmsar bjartar vonir manna mundu þá ekki rætast.

Mývatn og umhverfi þess eru snar þáttur í náttúru landsins og eitt af verkefnum náttúruverndar í landinu. Hvílíkur gimsteinn og djásn Mývatn er í krúnu íslenskrar náttúru, það hafa margir eygt og um ritað, erlendir sem innlendir. Á sínum tíma gerðu þeir ferð sína þangað Eggert Ólafsson og Bjarni og rituðu um þetta, og margir erlendir fræðimenn fyrr og síðar og nú á síðustu árum, m.a. Peter Scott, hafa ritað bók um þetta hérað og fegurð þess og sérstætt hlutverk. Íslenskir náttúrufræðingar, svo sem Steindór Steindórsson á Akureyri, hafa gert þessu mikil og góð skil í riti og ræðu, og hann hefur talið, að Mývatn ætti sér engan líka í Evrópu hvað vissa náttúrufjölbreytni snerti. Hann hefur kallað eyna Slútnes fuglaparadís. En það er ekki aðeins, að það séu fuglar og þeir fjölbreytilegir á þessu vatni, sem gefa því sérstöðu, heldur er gróðurinn og einstæður. T.d. í Slútnesi einu saman voru á sínum tíma eða fyrir um 40 árum einar 70 tegundir íslenskra villtra jurta. En því miður höfum við þar sem og víðar ekki kunnað nægilega að vernda þessa náðargjöf, sem þjóðin hefur eignast. Þar hefur verið farið um nokkuð hörðum höndum fyrr og síðar og einnig um annað nágrenni Mývatns. Þar hafa verið reistar verksmiðjur, sem að vísu eru gagnlegar, en hefðu e.t.v. mátt vera staðsettar með einhverjum þeim hætti, að þær skertu ekki beint fegurð vatnsins sjálfs. Vegagerð hefur þar átt sér stað, sem þó fyrir atbeina Náttúruverndarráðs tókst að firra, að yrði verri en til var stofnað. En enn eru unnin þarna spjöll. Og ég skal ekki neita því, að sumt af því er kannske ekki með öllu hægt að koma í veg fyrir. Það er ákaflega eðlilegt, að bændur við vatnið stundi veiðar og nýti sér þá miklu búbót, sem þeir hafa af því. Engu að síður hefur hin gegndarlausa netalögn í vatninu valdið miklu tjóni á öðrum sviðum. M.a. var þetta eitt sinn rannsakað, og þá kom í ljós, að í netum höfðu farist á ekki löngum tíma um þúsund fuglar. Þetta er sjálfsagt erfitt að fyrirbyggja, en mætti þó e.t.v. með betri skipulagningu, með meiri takmörkun á bæði fjölda og legustöðum fyrir netin hindra, að slíkur vandalismi væri rekinn til frambúðar.

Það horfir líka allt betur núna. Þegar Mývatnsmálunum var fyrst hreyft hér á Alþ. 1970, en raunar hafði þeim verið hreyft utan þings áður, — síðan er hart nær hálfur annar áratugur, að þessi mál voru hér á þingi og í þessari hv. d., — þá kom það á daginn, að bændur í nærsveitum Mývatns voru mjög andvígir allri eða flestri svokallaðri verndun og töldu, að hún mundi skerða afrakstur búa þeirra. En nú hefur þetta breyst svo, að mér skilst, og liggur víst fyrir skjalfest, að hugur bænda er þarna gersnúinn. Þeir sjá nú fram á, að það er fyrst og fremst í þeirra hag, sem vatnið er verndað, og það er fyrst og fremst í þeirra eigin hag, að komið verði upp vísindalegri rannsóknarstöð við vatnið til þess að kynna sér lifnaðarhætti silungsins og hvernig hann megi endast þeim sem lengst og ofveiði verði ekki stunduð til þess, að silungsstofninn þrjóti, eins og sumir aðrir fiskstofnar við strendur landsins. Ég held því, að í þessu máli fari saman hagkvæmni og fegurðarnautn. Ég lít á náttúrufriðun, sandgræðslu, sem hindrar uppblástur jarðarinnar, og skynsamlega skógrækt, allt ekki einungis til fegurðarauka og yndisauka, heldur hagkvæma, nytsamlega hluti, sem löggjafarsamkundu Íslands ber að styðja að, svo mikið sem hún megnar á hverjum tíma. En það, sem liggur hér fyrir, till. um takmarkaða vernd Mývatns, er aðeins eitt spor, fyrsta sporið, að ég vona, og ég vona, að skjótlega og betur verði fram haldið.