05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3545 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., fjallar um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni. Ástæðan til þess, að það var fram borið á þessu þingi, er sú, að hreppsnefnd Hólshrepps hefur farið þess á leit við þm. Vestf., að þeir flyttu frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Bolungarvíkurkauptún. Allir þm. Vestfjarða standa að flutningi þessa frv.

Það liggja ýmsar ástæður fyrir réttmæti þess að veita Bolungarvíkurkauptúni kaupstaðarréttindi, og skal ég ekki fara út í þá sálma að tíunda þær ástæður hér. Það liggur svo augljóst fyrir, enda er enginn ágreiningur um þetta frv. Um þessar mundir eru ýmis frv. í meðferð Alþ. um kaupstaðarréttindi til ýmissa kauptúna á landinu. Það mun ekki vera ágreiningur, að ég hygg, um réttindi þeim kauptúnum til handa. Þegar svo er, sýnist mér, að það sé augljóst, að menn geti verið sammála um að veita svo merkum stað sem Bolungarvík þessi réttindi. Bolungarvík er nefnilega merkur staður, allt frá því að byggð Íslands hófst.

Það er svo, að eftir því sem heimildir herma, mun Bolungarvík vera elsta verstöð á landinu. Landnáma segir frá því, að Þuríður sundafyllir, sem nam þar land, hafi sett Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi, og svo virðist sem þá hafi hafist hin þróttmikla útgerð í Bolungarvík, sem alla tíð hefur einkennt þennan stað.

Bolungarvík er líka merkisstaður fyrir það, að þar var sonur Þuríðar sundfyllis, Völvu-Steinn. Ég ætla ekki að fara að ræða um Völu-Stein hér. En þess má geta, að það hafa komið fram kenningar um það, að þessi frumbyggi Bolungarvíkur sé höfundur Völuspár. Sá maður, sem hefur komið með þessa tilgátu, er ekki ómerkilegri maður en Sigurður Nordal. Um Völuspá segir hann, að kynni sín af kvæðinu hafi sannfært sig um, að í engu Eddukvæða sé slíkur arnsúgur dreginn frá upphafi til enda. Sigurður Nordal segir einnig, að þessi maður, höfundur Völuspár, hafi ekki verið einhamur. Þetta er að finna í Íslenskri menningu, bók Sigurðar Nordals.

Þannig hófst saga þessa staðar, og staðurinn er merkur enn í dag og skarar fram úr á ýmsum sviðum. Það er alkunna, með hvílíkum myndarbrag uppbygging Bolungarvíkur hefur verið á undanförnum árum og áratugum. Á þetta jafnt við framfarir í atvinnulegu tilliti sem félagslegu tilliti. Það má því segja, að arnsúgur einkenni allt atferli þeirra Bolvíkinga, og slíkar eru framfarir í þessu byggðarlagi, að einhvern tíma hefði verið sagt, að Bolvíkingar væru ekki einhamir.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál, því að ég hef þá ánægju að kynna fyrir hv. d., að félmn. d. mælir einróma með þessu frv.