05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Ætlun mín er ekki að ræða sérstaklega þá lántökuheimild ríkisstj., sem hér liggur fyrir, eða setja fót fyrir þær framkvæmdir, sem ætlunin er að nota fé þetta til, heldur í þessu sambandi almennt að ræða þá skuldasöfnunarstefnu, sem virðist vera ráðandi hjá núv. ríkisstj. Að vísu er hún ekki ein um það, en þó virðist mér hún ganga feti framar en fyrri ríkisstj., þegar miðað er sérstaklega við það góðæri og þau hagstæðu viðskiptakjör, sem við höfum átt við að búa að undanförnu.

Miklar framkvæmdir og svokallaðar framfarir geta að sjálfsögðu verið góðra gjalda verðar. Þó er mér nær að halda, að það geti stundum verið farsælt að flýta sér hægt, eins og raunar Tryggvi Þórhallsson, einn af brautryðjendum Framsfl., orðaði það svo oftsinnis í þessum sölum. Íslendingar verða nefnilega að fara að læra smám saman, að ekki er hægt að gera allt í einu, ekki allt samtímis, og til framkvæmdanna þarf nokkurt eigið fé, en ekki eingöngu erlent lánsfé. Á þann hátt leggjum við þungar skuldabyrðar á okkur sjálf, sem nú lifum, og e.t.v. á komandi kynslóðir.

Hér á Alþ. hefur verið reynt að sanna með tölum, að skuldir landsmanna hafi ekki vaxið hlutfallslega að sama skapi og þjóðartekjurnar. Hins vegar er þess ekki gætt í sömu útreikningum, að við höfum átt við einstakt góðæri að búa og tiltölulega hagstætt erlent gengi. Svo hefur vinnuaflið, sem betur fer, fremur leitað til framleiðslunnar en á vegu hins opinbera. Þrátt fyrir þetta einstaka góðæri hafa ríkisskuldirnar hlaðist upp. Sem dæmi þessa má nefna tölur, t.d. á árunum 1969–1971, svo að það sé tekið til samanburðar, en þá jukust ríkisskuldirnar um 719 millj. kr. og þótti sumum ærið nóg, en nú á árunum 1971–1973 hafa skuldirnar vaxið um 6100 millj. kr.

Svo að annar samanburður sé hafður, má t.d. nefna, að árið 1966 námu erlendu skuldirnar alls um 41/2 milljarði, en árið 1973 eru þær komnar upp í a.m.k. 21 milljarð kr. Það er ekki aðeins, að skuldaþungi ríkisbúsins hafi þannig aukist geigvænlega á skömmum tíma, heldur eru þessu auðvitað samfara mjög auknar árlegar afborganir og vaxtagreiðslur. Samanlagt er áætlað, að þessar greiðslur, afborganir og vextir muni á ársgrundvelli nema um 11% af tekjum, sem fást af útfluttum vörum og þjónustu. Þessar tölur tala vissulega sínu máli og sanna að mínu viti, út á hve hála braut hefur verið stefnt. Áhrif þessarar stefnu hljóta óhjákvæmilega að verða aukinn óhagstæður verslunarjöfnuður og greiðslujöfnuður, því að einhvern tíma hlýtur þó að koma að skuldadögum og jafnvel erlent lánstraust að þrjóta. Í þessu felst auk efnahagslega málsins pólitísk hætta. Ég hygg, að margir, a.m.k. úr lýðræðisflokkunum, muni vera mér sammála um, að það gæti fylgt því nokkur ábætta að skulda Rússum t.d. í dag 1 milljarð kr. Það hefur oftlega sýnt sig, að það er ekki einungis sérréttur hinna svokölluðu kapítalísku landa að beita fjármagninu sem vopni í valdabaráttunni, Rússar hafa vissulega ekki verið neinir eftirbátar á því sviði.

En svo að aftur sé vikið að stórfelldum erlendum lántökum, þá hljóta þær að auka á verðbólguna í landinu, því að hið erlenda lánsfé fer auðvitað inn í íslenskt peningakerfi og þrýstir á verðlagið, sem flestum finnst víst þó í dag vera orðið nógu hátt. Raunar má segja, að ásælni ríkisins á innlendan peningamarkað sé einnig orðin mikil og sumpart óeðlileg. Auðvitað hljóta svokölluð happdrættislán, þótt þeim sé ætlað að koma í gagnið góðum verkum, að hafa veruleg áhrif á peningamarkaðinn og draga úr því, að venjulegt sparifé komi til bankanna, og minnka þannig möguleika viðskiptabankanna til þess að styðja við bakið á atvinnuvegunum og framleiðslunni í heild.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, er þessum orðum engan veginn beint gegn þessu frv., sem hér er til umr., og öðru nokkuð hliðstæðu, sem d. hefur fengið til meðferðar, heldur eru þetta aðeins nokkur varnaðarorð til ríkisstj. og stuðningsmanna hennar um, að hverfa verði frá gegndarlausri skuldasöfnun og stefna ekki visvítandi með henni að vaxandi verðbólgu í landinu, því að ef þjóðin getur ekki að mestu búið að sínu í góðæri, hvernig fer þá, þegar harðnar í ári?