05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

113. mál, skipulag ferðamála

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. til l. um skipulag ferðamála, en frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþ. einróma með nokkrum minni háttar breyt. Frv. þetta var einnig lagt fram á síðasta þingi, en var þá ekki útrætt og hefur því verið endurflutt á þessu þingi.

Þetta frv. er samið af n., sem samgrh. skipaði 2. febr. 1972 til að endurskoða gildandi lög um ferðamál frá 1969 með sérstöku tilliti til endurskipulagningar og uppbyggingar starfsemi ferðamálaráðs og Ferðaskrifstofu ríkisins. N, skipuðu þeir Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, form., Heimir Hannesson lögfræðingur og Lúðvík Hjálmtýsson framkvstj., en starfsmaður n. var Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri.

Eins og segir í 1. gr. frv., er tilgangur þess að stuðla að þróun ferðamála og skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk, sem mikilvægs þáttar í íslensku atvinnulífi, bæði með hliðs,jón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd. Meginstefna þess er sú, að leitast við með hóflegri og hæfilegri forsjá hins opinbera að vinna að skipulegri þróun og aukningu ferðamannastraums til Íslands og Íslendinga um land sitt á þann veg, að ferðamannaþjónusta eigi að geta eflst eigi síður en aðrar atvinnugreinar, sem afkoma þjóðarinnar byggist á, og skipað meðal þeirra eðlilegan og æskilegan sess, en jafnframt sé haldið svo á málum, að ekki séu opnaðar allar gáttir fyrir óskipulögðum ferðamannastraumi til Íslands og með því boðið heim margvíslegum hættum, sem slíku gætu fylgt, bæði fyrir þjóðlíf okkar í heild og fyrir það náttúruumhverfi, sem er okkar þjóðarstolt og við viljum varðveita sem eina dýrmætustu eign þjóðarinnar. Hér þarf sýnilega að þræða hinn gullna meðalveg og kunna fótum sínum forráð. En slíkt verður ekki gert án skipulegrar samvinnu milli þeirra annars vegar, sem atvinnugreinina stunda, og hins vegar þeirra opinberu aðila, sem að verulegu marki bera ábyrgð á sviðum atvinnu- og efnahagsþróunar og verndun þeirra þjóðarverðmæta, sem fólgin er í náttúruundrum landsins.

Á síðustu árum hefur bólað á þeirri skoðun, að aukning á ferðamannastraumi til landsins væri af hinu illa og að afleiðingar hans yrðu mengun og hvers konar menningarspjöll. Jafnvel hefur örlað á þeim kenningum, að hindra bæri frekari aukningu en orðin er af þeim sökum. Að baki þessum skoðunum stendur sú trú, sem við lítil rök á að styðjast, að einhver og gífurlegur fjöldi erlendra ferðamanna standi í eins konar óendanlegum biðröðum eftir því að troða landið fótum í bókstaflegum eða óeiginlegum skilningi. Að flestra dómi, sem skoðað hafa þessi mál svo vandlega sem kostur hefur verið á, er þessu á allt annan veg farið, þ.e.a.s. þann, að mjög mikið átak þurfi að koma til af opinberri hálfu og einnig þeirra, sem ferðamannaþjónustu stunda, til þess að við getum notið eðlilegs hluta þess alþjóðlega markaðar, sem hér er um að ræða, og fyrirsjáanleg sé mjög bráðlega algjör stöðnun í þróun túrisma hérlendis sem atvinnugreinar, ef ekkert er að gert. Kemur þetta m.a. mjög greinilega fram í fyrri hluta áliti bandaríska fyrirtækisins Checchi & Co., sem hefur að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna unnið að álitsgerð um þróun íslenskra ferðamála.

Sé hinni efnahagslegu hlið málsins velt fyrir sér, blasa við margvísleg rök fyrir því að efla ferðamannaþjónustu. Þar er í fyrsta lagi um að ræða beina viðskiptalega hagsmuni, svo sem auknar gjaldeyristekjur, auknar tekjur flugfélaga, skipafélaga, gisti- og veitingastaða og auk þess þau örvunaráhrif, sem ferðamannaþjónusta hefur á fjölda framleiðslugreina, svo sem í matvælaframleiðslu, margs konar iðnvarningsgreina og þjónustustarfsemi. Enn kemur hér til, sem er mjög mikilvægt, að erlent ferðafólk, sem kemur til Íslands, með eða án dvalar, gerir Íslendingum kleift að halda uppi betra og fullkomnara samgöngukerfi við umheiminn heldur en nokkur kostur væri á, ef aðeins væri um íslenskan heimamarkað að ræða. Það er líka svo, að ferðamannaþjónusta er þegar orðin allsnar þáttur í íslensku atvinnulífi og efnahagslífi. Þannig námu beinar og óbeinar gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu árið 1971 alls 1223 millj. kr. eða sem þá svaraði 9.3% af heildarútflutningsverðmæti. Það er því staðreynd, að þessi atvinnugrein er þegar orðin verulegur þáttur í okkar atvinnu- og efnahagslífi, sem ekki verður undan vikist að viðurkenna í reynd með því að skapa honum jafnræði hvað snertir fjármögnun og opinbera fyrirgreiðslu miðað við aðrar atvinnugreinar. Ákvæði frv. um Ferðamálasjóð og eflingu hans er ætlað að mæta þessari augljósu nauðsyn.

Þar sem hér er um endurflutt frv. að ræða, sem hv. þm. hafa vafalaust kynnt sér rækilega, mun ég ekki að þessu sinni, nema sérstakt tilefni gefist til. ræða einstök atriði þess og ákvæði nákvæmlega.

Frv. skiptist í 6 kafla, og er hinn 1. um tilgang laganna og yfirstjórn ferðamála.

2. kafli fjallar um Ferðamálastofnun Íslands, stjórn hennar og verkefni, en þau skulu vera: 1) Almenn skipulagning ferðamála. 2) Margvísleg þjónustustarfsemi. 3) Eftirlit og umhverfisvernd. 4) Sölustarfsemi og ýmisleg önnur verkefni.

3. kafli fjallar um ferðamálafélög, Ferðamálaþing og Ferðamálaráð.

4. kafli er um almennar ferðaskrifstofur.

5. kafli fjallar um Ferðamálasjóð.

6. kafli fjallar um ýmis ákvæði.

Frv. fylgir síðan ítarleg grg. og fjöldi grg. um einstök atriði frv. í sérstökum fskj., þannig að allgott yfirlit og margvíslegar upplýsingar eru þar tiltækar.

Ferðamálin hafa á þessu ári verið mjög til umr. hjá mörgum aðilum. M.a. hafa landshlutasamtökin flest eða öll haft þau til rækilegrar skoðunar og gert um þau ályktanir, sem allar eru hvetjandi til jákvæðra aðgerða.

Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur ekki sætt, svo að ég viti til, gagnrýni hvað heildarstefnu þess viðkemur. Einstök atriði hljóta hér sem viðast annars staðar að vera álitamál og koma til skoðunar í meðferð hæstv. Alþ. Hitt vil ég þó segja undir lok máls míns, að ég tel á því brýna nauðsyn, að þetta frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi, og það yrðu þeim, sem að ferðamálum vinna, vonbrigði, ef svo yrði ekki, og að mínu viti til mikils tjóns fyrir æskilega þróun þessarar mikilvægu atvinnugreinar, en einnig fyrir íslenska umhverfisvernd, því að hvort tveggja verður að haldast í hendur, ef vel á að fara. Ég tel, að þetta frv. sé til þess fallið, að þeim þætti málsins sé miklu betur borgið en með þeirri löggjöf, sem um þessi mál hefur gilt.

Herra forseti. Ég mun ekki tefja tíma hv. þd. með lengri framsöguræðu fyrir þessu máli nú, ég geri ráð fyrir, að mönnum sé það kunnugt, eins og ég hef áður sagt, en legg til, að því verði nú vísað til 2, umr. og hv. samgn.