05.04.1974
Efri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3589 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Heilbr.- og trmrh, (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Að því er varðar fyrra atriðið, sem hv. þm, gerði að umtalsefni, þá er það svo, að það hafa verið lögð útflutningsgjöld á sjávarafurðir, sem renna ekki í þróunarsjóðinn, þ. á m. 1% gjald, sem á að renna til Fiskveiðasjóðs Íslands. Með frv. til l. um breyt. á l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins er verið að létta þessum gjöldum af lagmetisiðnaðinum. Hins vegar halda áfram fyrri gjöldin, sem renna í þróunarsjóðinn, l. um Iðnlánasjóð er eðlilega ákvæði um það, að þeir, sem greiða gjald í Iðnlánasjóð, skuli ganga fyrir um lánveitingar úr sjóðnum. Það hefur mjög háð lagmetisiðnaðinum, að það er enginn sjóður í landinu, sem hefur talið verkefni sitt að styðja hann, enginn stofnlánasjóður, og þess vegna beitti ég mér fyrir því á síðasta hausti, að Iðnlánasjóður tæki þetta verkefni að sér. En til þess að hann geti gert það á eðlilegan hátt, þarf að koma til þessi breyting um, að greitt sé gjald í Iðnlánasjóð. Það liggur í hlutarins eðli, að við fjármögnun Iðnlánasjóðs verður að taka tillit til þess, að hann tekur þarna að sér ný verkefni, þannig að fjármögnunaráætlun hans fyrir þetta ár og næsta ár verður að sjálfsögðu að taka mið af því, að hann hefur þarna bætt við sig verkefni umfram þau, sem hann hafði áður.