19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

113. mál, skipulag ferðamála

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 4. þm. Austf. það, sem hann sagði jákvætt um þetta frv. og lýsti áhuga sínum á ferðamálum. Hitt er svo annað mál. að við því er auðvitað ekkert að segja, þó að menn hafi mismunandi skoðanir á einstökum atriðum, og sjálfsagt að taka það allt til skoðunar, eins og venja er í þinglegri meðferð, það sem menn kunna að vera ósammála um.

Hv. 4. þm. Austf. taldi, að hér væri verið að búa til geysilega mikla stofnun með miklum umsvifum, og í raun og veru kom svipað fram hjá hv. 1. þm. Sunnl. Þetta er að mínu viti mikill misskilningur. Hér er ekki verið að stofna til neinna stórra útgjalda, kannske engra, frá því, sem yrði með núverandi skipan. Hins vegar er verið að reyna að samræma aðgerðir í ferðamálum meira en gert hefur verið og reyna að koma þeim málum í það horf, að það beri betri árangur fyrir eðlilega og æskilega þróun ferðamálanna. Þá á ég ekki eingöngu við þá hliðina, sem að því snýr að auka ferðamannastraum, heldur að þetta þróist með menningarlegum hætti, sé gætt fyllstu náttúruverndarsjónarmiða og annars þess, sem mikils er vert í sambandi við alla framkvæmd þessara mála.

Eins og kemur fram í grg. og ég held, að ég hafi tekið fram í minni framsöguræðu, er í raun og veru fyrst og fremst um það að ræða að samræma, að vísu með nokkuð breyttum hætti, þá starfsemi, sem nú er rekin annars vegar af ferðamálaráði og hins vegar af Ferðaskrifstofu ríkisins. Þessu er þannig fyrir komið samkvæmt ákvæðum frv., að það geti orðið með sem einföldustum hætti og með sem minnstri yfirbyggingu, ef svo má segja. Ég játa t.d., að það orkar tvímælis, fyrir því eru bæði rök með og móti, að Ferðamálastofnun Íslands, eins og hún er hugsuð samkv. frv., reki sölustarfsemi. Í hv. Ed. fluttu flokksbræður þeirra hv. þm., sem hér hafa nú talað, till. um, að þetta yrði fellt niður sem hlutverk ferðamálastofnunar, en hins vegar væri heimild til þess að reka almenna ferðaskrifstofu, sem lyti venjulegum reglum um almenna ferðaskrifstofu. Ég játa, að fyrir þessu geta verið talsverð rök. En það, sem hefur vakað fyrir þeim, sem sömdu þetta frv., og fyrir þeim, sem flytja það nú, er að einfalda þessa hluti eins og hægt er. Það þyrfti t.d. ekki að vera sérstakur forstjóri fyrir Ferðamálastofnun Íslands og annar forstjóri fyrir Ferðaskrifstofu ríkisins, heldur væri það einn og sami maðurinn, sem veitti þessari starfsemi allri forustu, og þannig væri gerð tilraun til að spara fé og mannafla, sem ynni saman, í staðinn fyrir að hann vinnur nú í a.m.k. tvennu lagi og mundi kannske vinna í þrennu lagi, ef annar háttur væri hafður á.

Þetta kemur líka inn á það atriði, sem hv. 4. þm. Austf. gagnrýndi, að hér skorti kostnaðaráætlanir. Það má vel vera, að svo sé, og ég get játað, að það mætti vel taka upp aðra hætti í þeim efnum, eins og hann minntist á. En það sem er til afsökunar í sambandi við þetta mál, er fyrst og fremst, að það er ekki verið að stefna að stórkostlegum auknum kostnaði í sambandi við meðferð þessara mála, heldur er verið að reyna að gera nauðsynlegar breytingar, án þess að mikill viðbótarkostnaður stafi af. Ferðaskrifstofa ríkisins starfar núna sem sjálfstætt fyrirtæki. Ferðamálaráð starfar sjálfstætt og án nokkurra beinna tengsla við Ferðaskrifstofuna. Við, sem að þessu frv. stöndum, álítum, að með álíka mannafla og þessar stofnanir hafa nú væri hægt að reka Ferðamálastofnun Íslands og þ. á m. þá sölustarfsemi, sem gert er ráð fyrir í 6. gr. frv.

Varðandi það aftur, sem þessu viðkemur, fjármálin, sem hv. ræðumaður sagði um, að væri nánast lítilsvirðing, að það væri ekki gefin nein skýrsla um, hverju næmi sá hluti, sem á er minnst í grg., að rynni til Ferðamálasjóðs af rúllugjaldi, þá held ég, að þetta sé nokkuð eðlilegt, vegna þess að í lögunum segir, að það skuli að vísu vera hluti af rúllugjaldi, sem renni til Ferðamálasjóðs „samkvæmt lögum,“ segir þar, og þá er átt við sérstök lög, því að til þess að þessi breyting geti á orðið og þessi tekjustofn fundinn fyrir Ferðamálasjóð, þyrfti að breyta lögunum um skemmtanaskatt. Það er ekki með þessu frv. neinu slegið föstu um þetta atríði og þess vegna kannske ekki rík ástæða til þess, að þarna séu lagðar fram áætlanir.

Ég verð að játa það, að ég er ekki viðbúinn að svara þeirri spurningu, ef farið yrði að þeim hugmyndum, sem reifaðar eru í fskj. IX á bls. 28 og 29 í frv., eins og það var fyrst lagt fram, hverju það mundi nema. En ég held, að ég fari ekki með mikla vitleysu, þegar ég segi, að ég áliti, að það muni vera a.m.k. helmingi meira en lágmark ríkisframlagsins hefur gert ráð fyrir, sem gæti komið í hlut Ferðamálasjóðs. Vafalaust — er hægt að fá um þetta greinarbetri upplýsingar, og skal ekki standa á mér að stuðla að því, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, eða einstakir þm. fái þær upplýsingar um þetta, sem tiltækar eru. Hins vegar er þessi gjaldstofn að breytast. Þarna er um vínveitingahús að ræða. Þeim hefur farið allmikið fjölgandi, og þeim á kannske eftir að fara enn meira fjölgandi á næstunni, ég skal ekki segja um það. En þarna er um tekjustofn að ræða, sem getur tekið verulegum breytingum. Hins vegar er rétt að leggja áherslu á í þessu sambandi, að með þessu frv. er því á engan hátt slegið föstu, hversu hátt þetta gjald skuli vera eða hve mikið af því skuli renna í Ferðamálasjóð, þótt reifuð sé sú hugmynd, sem gerir ráð fyrir því, að gjaldið verði hækkað í 100 kr., sem skiptist þannig, að skemmtanaskattur verði 16 kr., gjald í Menningarsjóð verði 4 kr., hluti veitingahússins hækki um helming og verði 30 kr. og í Ferðamálasjóð renni 50 kr. Þetta eru hugmyndir, en hvorki frv. né lög, og mundi auðvitað verða að ræðast alveg sérstaklega, ef þetta frv. yrði samþykkt, og væntanlega yrði þá tekið til skoðunar, að flutt yrði frv. um viðeigandi breyt. á l. um skemmtanaskatt.

Þá vék hv. ræðumaður að því, að lánakjör Ferðamálasjóðs væru slæm miðað við þá erfiðu aðstöðu, sem þeir, sem að ferðamálum vinna, og hóteleigendur og veitingahúseigendur ættu við að stríða. Má sjálfsagt til sanns vegar færa, að það væri æskilegt, að þau væru betri. En ég sé ekki, að í þessu frv. felist mikilvægar breytingar frá þeim kjörum, sem nú eru, því að þær eru ekki aðrar en þær, sem samþykkt þessa frv. hefði í för með sér frá þeirri skipan, sem verið hefur um fjölda ára, að lánin eru verðtryggð samkv. framfærsluvísitölu, en í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þau séu verðtryggð með byggingarvísitölu, og virðist það ekki vera með öllu óeðlilegt og kannske ekki mikill munur á. Ég held, að þegar um sjóði er að ræða, verði að gæta þeirra sjónarmiða talsvert vel, að sjóðirnir brenni ekki smátt og smátt upp með hækkuðu verðlagi og aukinni verðbólgu, og það verður naumast gert með öðru móti en verðtryggja þá að meira eða minna leyti. Algert lágmark tel ég þó það, að sjóðirnir láni ekki út með lægri kjörum en þeir fá sitt fé, því að það sjá allir, hvaða þýðingu sjóðmyndanir hafa, ef þeirri meginreglu er ekki fylgt. Ég held, að aðstoð við þá, sem byggja mannvirki í sambandi við túrisma, yrði þá að koma með einhverjum öðrum hætti eða þá ef ríkisvaldið treystir sér til að leggja fram til Ferðamálasjóðs ákveðið fjármagn, sem væri beinlínis varið til þess að greiða niður vaxtakostnað og tryggja þannig, að sjóðurinn brynni ekki upp. Það skyldi síst standa á mér, ef hv. Alþ. er á því að veita slíka aðstoð, þá mundi það síst vera gegn mínum vilja, því að mér er ljóst, að hér þarf veruleg breyting að verða á, ef Ferðamálasjóður á að geta verið hlutverki sínu vaxinn, eins og margvikið er að í grg. frv. og frv.-ákvæði gera ráð fyrir, að úr sé bætt, þó að skrefið sé þar ekki stigið til fulls. Sömuleiðis væri það mér ánægjuefni, ef hv. þm., hv. d. og hv. Alþ. treysti sér til þess að hafa lágmarksríkisframlagið hærra en 10 millj., það væri síst á móti mínu skapi. En það er þar eins og með önnur fjárútlát, að það er í mörg horn að líta og getur verið erfitt að meta, hvað er hægt að gera margt í einu. Ég tel samt, að hér sé þannig tekið á málunum, að það sé líklegt, að það leiddi til þess, að Ferðamálasjóður yrði öflugri og færari um — ekki aðeins að gegna því hlutverki, sem hann hefur gegnt, heldur að auka verksvið sitt, eins og þessi lög gera ráð fyrir. Á því er mikil og brýn nauðsyn, að til sé sjóður, sem getur lánað í annað en hótel, því að það er mörg önnur fjárfesting í sambandi við ferðamálin, og sérstaklega þarf að gæta umhverfisverndar, sem ég held, að sé hin mesta nauðsyn, og þá þurfi sjóðurinn að geta veitt lán einnig til annarra hluta.

Þá var það það, sem hv. þm. sagði um Ferðaskrifstofu ríkisins, og það, sem hann m.a. taldi, að ef hér væri um almenna ferðaskrifstofu að ræða, þá uppfyllti Ferðaskrifstofa ríkisins ekki þau skilyrði varðandi sinn fjárhag, sem þar eru sett öðrum ferðaskrifstofum. Ég held, að það sé hins vegar alveg rétt hjá honum, að það sé ekkert óeðlilegt við það, þó að Ferðaskrifstofa ríkisins sé undanskilin þessum ákvæðum, vegna þess að það er auðvitað með Ferðaskrifstofu ríkisins eins og önnur ríkisfyrirtæki, að ef í harðbakkann slær, þá er það vitanlega ríkið og ríkissjóður, sem þar ber ábyrgð á hlutunum, og það verður að ætla, að það sé nægileg trygging til þess, að enginn verði hlunnfarinn í viðskiptum við þá stofnun. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm., að fjárhagur Ferðaskrifstofu ríkisins er mjög þröngur. Hún hefur þó síðustu árin, að árinu 1973 undanteknu, en uppgjör liggur ekki enn þá fyrir um það ár, verið rekin aðeins með hagnaði, en þó minnkandi, en ég tel horfur á, að umskipti hafi orðið á í þeim efnum á s.l. ári, þótt ég geti ekki um það fullyrt og hafi ekki gögn í höndum fram að leggja, m.a. vegna þess, að endanlegt uppgjör á rekstri stofnunarinnar fyrir s.l. ár liggur ekki fyrir. Þá er rétt að það kom í ljós á s.l. hausti, að það höfðu safnast upp mjög verulegar lausaskuldir hjá þessu fyrirtæki og meiri en fjárveitingar og tekjur stofnunarinnar gátu risið undir. Þetta er alveg rétt, þó að ég hins vegar áliti, að þessi vandræði séu ekki svo mikil, að vöskum útgerðarmanni yxu þau í augum. En sama er, að þarna hafa verið fjárhagsleg vandkvæði í sambandi við reksturinn, sem samgrn. hefur eftir bestu getu reynt að bæta úr, og ég hygg, að sú fjárhagsfyrirgreiðsla, sem stofnunin hefur fengið á síðustu mánuðum, geti ekki talist lítil, því að það, sem þar hefur verið gert, bæði beint og óbeint, þær frjálsu aðgerðir munu nema um eða yfir 20 millj. kr., þannig að ég hygg, að staða lausaskulda sé nú komin í það horf, að ekki þurfi nein vandkvæði af að skapast. Það gefur svo auga leið, að þegar svona gerist, þá er rekstrarfé ærið lítið, og það er rétt, að það er ekki að fullu leyst fyrir þá ferðamannavertíð, sem nú er fyrir höndum. En þar er um svo lítilvæga hluti að ræða, að ég tel naumast, að það sé verjandi tíma Alþ. til þess að ræða það vandamál, hvort vantar peninga fyrir nokkrum teppum á einhvern bar á einhverju hóteli eða því um líkt. Ég held, að það sé slíkt framkvæmdaatriði og smámunir, að það taki varla að eyða orðum að því.

Ég held, að sá ótti, að Ferðaskrifstofan geti ekki hafið rekstur Edduhótelanna, sé ástæðulaus. Samgrn. hefur notið eftir atvikum góðrar fyrirgreiðslu fjmrn. til þess að leysa þau fjárhagslegu vandamál, sem hér eru á ferðinni, en endanlega verða þau auðvitað ekki leyst fyrr en í fyrsta lagi hreint uppgjör stofnunarinnar liggur fyrir og naumast nema til komi fjárveiting í samræmi við aðstæður stofnunarinnar á næsta Alþ. Aðrar ráðstafanir hljóta að verða meira eða minna til bráðabirgða. En það er áreiðanlega fullur vilji fyrir því, að ég held, að enginn vefengi það, að hann hefur verið sýndur af samgrn. til þess að leysa þau vandamál, sem hér eru á ferðinni.

Ég ætla ekki að fara að blanda persónu forstjóra Ferðaskrifstofunnar inn í þetta. Ég tel það ekki viðeigandi. En það er sjálfsagt svo, að mönnum fellur það misjafnlega að þurfa að glíma við erfið fjárhagsleg vandamál, hvort sem er í rekstri eða öðru, og við því er auðvitað ekkert að segja eða gera. En það er hins vegar ofmælt, sem hv. ræðumaður ýjaði að, að það væru miklar framkvæmdir, sem þyrfti að gera til þess að koma Edduhótelunum í gang.

Ég skal skýra frá því, að ég hef út af fyrir sig haft hug á því, þegar ég fór að gera mér nokkra grein fyrir því, hvað þessi stofnun ætti núna erfitt uppdráttar, að þá hefði e.t.v. komið til greina að draga saman seglin, sleppa einhverju af hótelrekstrinum og reyna að koma honum yfir á einkaaðila. En slíkt mætti mjög mikilli andspyrnu flestra þeirra a.m.k., sem við ferðamál fást, og töldu, að það væri mikill skaði skeður, ef Edduhótelin væru ekki rekin. Þau mynda nokkurt samhengi kringum landið, þau halda uppi vissum „standard“ í hótelrekstri, og það er enginn vafi á því, að einhver hlekkur brestur í þeirri keðju, sem Edduhótelin eru ásamt öðrum hótelum, sem rekin eru úti á landsbyggðinni, að þá væru ekki möguleikar til þess að taka á móti þeim ferðamönnum, sem hingað vilja sækja. Því miður er útlit á, að þeim fari nú ekki fjölgandi, þannig að fjölgun ferðamanna verður tæplega mikil gróðavon fyrir þessi hótel. En málið er það, að einkaaðilar vilja fúsir taka að sér rekstur nokkurra þeirra hótela, sem hafa skilað hagnaði, en vilja ekki taka hin, sem verr eru sett og fyrirsjáanlega verður að reka með einhverju tapi, en eru þó jafnnauðsynleg og hin, sem hagnaði skila. Að auki hefur hér komið til, að pantanir ferðamanna gerast löngu fyrir fram, áður en ferðamaðurinn kemur, oft mörgum mánuðum, jafnvel hálfu ári, og það hefur verið bókað það mikið af erlendum ferðamönnum, að ekki hefur þótt fært að draga þar neitt saman seglin að nokkru ráði, þótt ég hefði talið það í raun og veru æskilegt með tilliti til rekstrar þessara stofnana, því að auðvitað ber að því að stefna og verður að því að stefna, að Ferðaskrifstofa ríkisins sé ekki rekin sem tapfyrirtæki, heldur standi hún undir sér og helst meira, eins og hún hefur oft gert, — að hún geti með sínum tekjum og sinni starfsemi líka að einhverju leyti stuðlað að landkynningu og áróðri fyrir því, að fleiri ferðamenn komi til landsins. En í þeim efnum er ástæða til þess að hafa áhyggjur, þegar meðalaukningin hefur á undanförnum árum verið frá 15–16% a.m.k. og sum árin jafnvel meiri, en á s.l. ári fer aukningin niður í aðeins 4,6 eða 4,7%, og það er sýnilegt, hvert stefnir í þeim efnum, enda kemur þar margt til, líka atburðir, sem við höfum ekki nein tök á að ráða við.

Þetta er það, sem ég hef að segja um þau mál, sem hv. 4. þm. Austf. gerði hér að umtalsefni. Það má vel vera, að honum finnist, að svörin séu ekki greið. En ég vil þá játa það, sem satt er, að skýrari svör get ég ekki gefið honum um þetta á þessu stigi málsins, en er hins vegar reiðubúinn til þess að stuðla að því, að hann fái allar þær upplýsingar, sem eðlilegt er, að þm. fái í máli sem þessu.

Þá eru það aðeins örfá orð um það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði og ég raunar hef að sumu leyti svarað. Hann taldi, að hann væri ekki beinlínis á móti þessu frv., en taldi þó, að það væri misskilningur, að það greiddi fyrir ferðamálum. Um þetta má sjálfsagt þrátta og hafa mismunandi skoðanir, og ég ætla ekki að fara að deila við hann um þetta. Ég vil ekki fortaka, að það sé hægt að gera breytingar á frv., þannig að það bíði ekki skaða og gæti jafnvel batnað, það má vel vera, og það er sjálfsagt að skoða það með eðlilegum hætti, eins og ég tel raunar, að hafi verið gert í hv. Ed. En svo vildi til, að hv. samflokksþm. 1. þm. Sunnl. lögðu til, að Ferðamálaráð yrði lagt niður. Nú telur hann, að það eigi endilega að starfa áfram, en hins vegar eigi stofnunin sjálf, Ferðamálastofnunin., ekki að koma til. Hér er auðvitað um grundvallarágreining að ræða, hvort slík stofnun sem hér er um að ræða verði að veruleika eða ekki og ferðamálin þannig samræmd þörfum og verkefnum, eftir því sem best má verða, eða hvort allt situr í sama farinu og það nú er. Ég tel. að skipulag á þessum málum sé ekki nægilega gott. í því felst þó enginn áfellisdómur yfir ferðamálaráði. Það hefur áreiðanlega látið margt gott af sér leiða. En ég held, að það mundi gera meira gagn, ef starfsemi þess væri í nánara samhengi við annað það starf, sem af opinberri hálfu er unnið í ferðamálum, heldur en nú er, en frv. gerir einmitt ráð fyrir þeirri breytingu.

Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Sunnl. um, að það ber að forðast að auka yfirbygginguna og það ber að draga úr óþarfaeyðslu. Ég er hins vegar á öndverðri skoðun við hann um það, að ég allt, að þetta frv. stefni alls ekki í þá átt, heldur að gera þau störf, sem unnin eru nú þegar að ferðamálum, samhæfðari og nota starfskrafta betur, hafa færri höfuðin á stofnunum og einfalda hlutina, eftir því sem frekast má verða. Ég get svo aðeins bætt því við, að sjálfsagt er að taka allar skynsamlegar ábendingar til athugunar, en minni þá jafnframt á, að það líður nú á þing. Þetta frv. var lagt fram til kynningar á síðasta Alþ. og aftur núna mjög snemma þings, þannig að menn hafa haft mikinn tíma, óvenjulega mikinn tíma til þess að skoða frv. og einstök ákvæði þess, og ég sé þess vegna engin rök fyrir því, að það fái ekki þinglega meðferð og fulla afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar er það auðvitað á valdi hv. Alþ. og þ.á m. þessarar hv. þd., hvort á því verða gerðar einhverjar breytingar. En ég tel, að þær breytingar, sem voru gerðar í Ed., séu a.m.k. ekki til skaða. Ég vil ekki fullyrða, að þær séu allar til hóta, en ég tel þær þó ekki á neinn hátt varða höfuðatriði málsins, og þess vegna hef ég ekki beitt mér gegn þeim. Hins vegar mun ég ekki að svo komnu eiga frumkvæði að því, að gerðar verði frekari breytingar á frv.