24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

179. mál, rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er á dagskrá, fjallar um rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni. Flm. eru allir 6 þm. Sunnl. Ég leyfi mér að lesa till.:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka hafnamál Suðurlands og gera till. um nýja höfn á suðurströnd landsins.

Til að hefja rannsóknina og gera till. um framkvæmdir skal samgrn. skipa n. 5 manna. Skal einn tilnefndur af sýslunefnd Árnessýslu, einn af sýslunefnd Rangárvallasýslu, einn af sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu, einn af bæjarstjórn Vestmannaeyja og einn af samgrn. án tilnefningar, og skal hann vera form. n.

Hafnamálin á suðurströnd landsins hafa oft hér á þingi verið til umr. Till. hafa komið fram frá einstökum þm. og fsp. varðandi rannsókn og athafnir í þessu efni. Þess vegna get ég farið hér einungis fáum orðum um þetta mál.

Á s.l. sumri vann stjórnskipuð n. 7 manna að athugun á hafnamálum á Suðurlandi, vegna eldgossins í Vestmannaeyjum aðallega. Athugun þeirrar n. beindist ekki að gerð nýrrar hafnar, heldur að uppbyggingu Þorlákshafnar og fleiri hafna, bæði fyrir austan og vestan Þorlákshöfn, í Grindavík annars vegar og hins vegar í Hornafirði. Og það, að 7 manna nefndin vann með þessum hætti að málinu, stafaði fyrst og fremst af því, að það var orðið ljóst, þegar leið á sumarið, að betur færi í sambandi við þessar miklu náttúruhamfarir en við mátti búast áður á árinu, og var gert ráð fyrir því, að Vestmannaeyjahöfn mundi að mestu leyti geta haldið sér og endurbætur og stækkun Þorlákshafnar, eins og fram kom í áliti þessarar n., var í raun og veru alveg sjálfsögð og nauðsynleg framkvæmd, sem kemur æðimörgum að notum og ekki síst þeim, sem búa fyrir vestan Þorlákshöfn. En Þorlákshöfn leysir ekki þann vanda, sem af hinu alræmda hafnleysi á suðurströndinni leiðir eða á strandlengjunni frá Ölfusá og alla leið til Hornafjarðar.

Flm. þessarar till. telja höfuðnauðsyn að fá úr því skorið, hvar heppilegast er og hagkvæmast að gera nýja höfn á suðurströndinni, en um marga möguleika er talið að ræða fyrir. austan Ölfusá og að Dyrhólaey.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við Dyrhólaey hafa ýmiss konar rannsóknir á vegum hafnamálastjórnarinnar farið fram, þó að hvergi nærri sé komið að neinu endanlegu marki og langt frá því. Í Þykkvabæ hefur lengi verið talið, að væru sæmileg hafnarskilyrði, og er hægt að segja það enn einu sinni, að Bandaríkjamenn voru þar á ferðinni við rannsóknir á árunum 1951–1953 og lögðu töluverða vinnu í þær, en niðurstöðu af þeirra hálfu veit maður ekki um aðra en þá, að þeir töldu, að þarna væri um ærið gott hafnarstæði að ræða. Hins vegar að sjálfsögðu þar eins og annars staðar verður hafnargerð á suðurströndinni mjög dýr í framkvæmd. Og eins má segja um Dyrhólaey. Þar er sjálfsagt hægt að gera góða höfn, sem yrði til geysilegra hagsbóta.

Þá eru það tvær hafnir, ef hafnir skyldi kalla. Það hafa farið fram lendingarbætur á tveim stöðum í Árnessýslu, þ.e. á Stokkseyri og á Eyrarbakka. En hafnir þær eru litlar og engan veginn traustar og taka á móti örfáum bátum á hvorum stað, en sjálfsagt má vinna þar svo, að hægt sé að gera hafnir. Sérstaklega er það talið á Eyrarbakka.

Eins og ég sagði áður, hafa hv. þm. fylgst með þessum málum og ekki vafi á því, að þeir eru á okkar máli, þm. Sunnlendinga, að það sé rétt að láta kanna og það sem fyrst til fulls, hvar á að bregða sprota niður til að byggja virkilega góða fiskiskipahöfn og kannske verslunarhöfn líka. Það er ekki aðeins hagsmunamál Sunnlendinga, heldur og allra landsmanna. Það er ekki vafi á því. Og þá er hugsað til þeirra fiskimiða, sem eru þarna út af ströndinni.

7 manna nefndin, sem ég gat um og hafði með hafnamálin að gera á s.l. sumri og lét frá sér fara skýrslu um störfin, segir í lokaorðum m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

N. bendir á, að eðlilegt geti verið að mynda sérstaka ráðgjafanefnd í hafnamálum Suðurlands, þar sem valdir væru menn sem viðast að úr landshlutanum til þess að vera opinberum aðilum til trausts og halds við nánari ákvarðanir í almennum hafnamálefnum Suðurlands.“

M.a. með hliðsjón af þessum lokaorðum í skýrslu 7 manna n. hafa þm. Sunnl. allir leyft sér að flytja þessa till. Hún er í fullu samræmi við þetta álit 7 manna n. og verkefni, sem 7 manna n. taldi sig ekki eiga að leysa að svo komnu.

Í umsögn frá Framkvæmdastofnun ríkisins segir m.a.: Að því er varðar aðild félagsaðila á Suðurlandi að athugun þessa máls, þ.e.a.s. hins almenna hafnarmáls, hefur af hálfu Framkvæmdastofnunar ríkisins verið hallast að þeirri hugmynd, sem gert er ráð fyrir í till. til þál." Við þm. Sunnl. vorum á s.l. hausti á fundi með stjórnendum í Framkvæmdastofnuninni, og þá var einmitt rætt um þessa hugmynd, og m.a. höfum við flutt till. með hliðsjón einmitt af þessu áliti þeirra í Framkvæmdastofnuninni.

Það verður að líta svo á m.a., að í till. felist það, að eðlilegt sé, að heimamenn, sem eru kunnugastir öllum staðháttum, fari með þessa rannsókn og að álit þeirra komi skýlaust í ljós. Það fer vel á því og það er enginn vafi á því og ætlast til þess beinlínis, að valdir verði þeir menn af hálfu Sunnlendinga, sem eru oddvitar hver á sínu svæði, þar sem um hafnargerð kann að verða að ræða, og þeir staðir, sem ég hef nefnt, 4 á suðurströndinni, verði teknir til könnunar og það af mönnum, sem hafa forstjórn á sveitarmálefnum. Þess vegna teljum við ekki rétt, eins og fram kemur í áliti Framkvæmdastofnunar ríkisins, að það væri kannske eðlilegt, að einn maður enn væri í þessari n., sem væri kvaddur til af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga. Við teljum það enga nauðsyn, vegna þess að þarna verða, eins og ég segi oddvitar að verki, og þeir eru nægilegir fulltrúar Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og ekki ástæða til þess að hafa fleiri í n. að því leyti.

Formaður n., 5. maðurinn, verður svo valinn af rn., sem fer með hafnamál, og við teljum þá, að hagsmunir hins opinbera séu að fullu tryggðir. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að taka neina stórfellda uppbyggingarákvörðun, heldur verið að reyna að þreifa sig áfram og fá, eins og ég hef sagt, álit heimamanna á því, hvað þeir telja eðlilegast, og um leið eða freistað að fá sameiginlegt álit um einn ákveðinn stað, því að í raun og veru er það gersamlega úrhendis að vera með lendingarbætur á svo og svo mörgum stöðum, því að það yrði aldrei nema kák eitt miðað við hitt.

Það teljum við sjálfsagt, sem að þessari till. stöndum, að n. hafi aðstöðu til og eigi að leita aðstoðar sérfræðinga á vegum ríkisstj. og forráðamenn hafnarmálefna hafi þar tök á. En sem sagt, í allshn. höfum við íhugað þessar þáltill. og athugað umsagnir annars vegar frá Framkvæmdastofnuninni og hins vegar skýrslu frá 7 manna n., og við höfum komið okkur ásamt um það öll í n. að mæla með samþykkt till. óbreyttrar.