24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3933 í B-deild Alþingistíðinda. (3488)

121. mál, z í ritmáli

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil nú fyrst geta þess, að eftir nál. um till. á þskj. 148 og framsöguræðu frsm. þykir mér jafnlítið og áður við fyrri hl. umr. fara fyrir röksemdafærslu fyrir efni þáltill. Það var tekið fram við fyrri hluta umr., að sú ákvörðun um að fella setu úr skólastafsetningu, sem til umr. er, var tekin eftir einróma áliti n., sem skipuð var þeim mönnum, sem hver og einn hefur helgað krafta sína og lífsstarf því að kenna íslenskum ungmennum íslenska tungu. Það hefur orðið vart á síðustu vikum, að ýmsir úr sama hópi eru mjög eindregið á þeirri skoðun, að sú till., sem réttritunarnefndin gerði og framfylgt var með auglýsingunni um brottnám setu úr skólastafsetningu, væri rétt og rökum studd. Ég nefni aðeins það álit, sem stjórn Sambands ísl. barnakennara hefur gert, og þá könnun, sem fram fór hjá verðandi kennurum í Kennaraháskóla Íslands og öllum alþm. eiga að vera kunnar, svo að ég rek það ekki nánar. En ég vil við þennan hluta umr. endurtaka nokkur meginatriði í þeirri röksemdafærslu, sem liggur að baki auglýsingunni um brottnám setu úr skólastafsetningu.

Það er ómótmælt, að 40 ára reynsla af áður gildandi setureglum er sú, að seta er ekki kennd í skyldunámi, og þegar kennsla hennar hefst í framhaldsnámi, þá er það reynsla kennara, að til þessa sérstaka stafsetningaratriðis fer svo mikill tími, að mjög er dregið úr kennslu annarra atriða, sem að dómi þorra kennara skipta meira máli heldur en setureglur. Eins og nógsamlega var sýnt fram á við fyrri hl. umr., þá veitir seta og þekking á því að fara með áður gildandi setureglur afar lítið innsæi í hljóðkerfi og eðli málsins, og er þar allt öðru máli um hana að gegna en um staf eins og ypsilon, sem hefur samlagast í í framburði í málssögunni, en á sér allt aðrar rætur af hljóðvarpi og þeim hljóðbreytingum, sem að baki þeirri þróun liggja.

Ákvörðunin um brottnám setu úr skólastafsetningu var tekin í góðri trú á nákvæmlega sama hátt og jafnan áður hefur átt sér stað, þegar opinberir aðilar hafa látið til sín taka, hver stafsetning skuli kennd í skólum landsins. Ákvörðunin var tekin að vel athuguðu máli og bestu manna yfirsýn. Fyrir því eru ekki rök, að hér sé verið að brjóta upp á miklu nýmæli. Þvert á móti er verið að færa stafsetninguna í fyrra horf, í það horf, sem hún var þangað til seta var tekin upp með auglýsingunni 1928. Það, sem ákveðið var með auglýsingunni um brottnám setu úr skólastafsetningu, er niðurstaða af fenginni reynslu, og með þessari auglýsingu var mun skemmra gengið en áður að ákveða, hversu stafsetningarreglunni skuli fylgt. Þar var einungis ákveðið, að seta skyldi ekki kennd í skólum og hún skyldi ekki notuð í opinberum embættisplöggum, en áður kváðu stafsetningarreglur svo á, að hina lögboðnu skólastafsetningu skyldi fortakslaust nota á öllum ritum, sem gefin væru út á kostnað ríkisins eða með styrk af almannafé.

Ég tel mig ekki öðrum gjarnari að miða hvað eina í námi og kennsluháttum við þrengstu hagsmunasjónarmið, við aukningu vergrar þjóðarframleiðslu, eins og stundum kveður við í umr. Það er því ekki vegna þess, að ég sjái ofsjónum yfir tímanum, sem varið er til setukennslu í sjálfu sér, að ég tel rétt, að hún hverfi úr skólastafsetningu. Það er vegna þess, að sá tími, sem þar er um að ræða, — og hann er mikill, eins og glöggt kemur fram í yfirliti stafsetningarnefndar, og árangur er mjög tvíhentur samkv. reynslu sömu manna, — þessi tími er beinlínis tekinn frá öðrum þáttum móðurmálskennslunnar, þjálfuninni í því að beita málinu í ræðu og riti. Einhliða áhersla á stafsetningarkennslu í framhaldsskólum hefur orðið til þess, að þar hefur verulega dregið úr þjálfun í ritgerðasmíð. Það er, að ég held, reynsla margra á undanförnum árum, að þeim hrýs hugur við, hversu algengt það er, að fólki með langskólanám að baki, fólki með stúdentspróf er ósýnt um að setja fram hugsun sína á réttu íslensku máli, hversu því hættir við að afbaka algenga talshætti eða rugla þeim saman. Þótt þetta fólk kunni máske að stafsetja hvert orð rétt; þá er ljóst, að því hefur ekki auðnast að tileinka sér það málskyn og það næmi fyrir eðli málsins, fyrir íslenskri setningaskipun og beygingakerfi, sem ætíð hlýtur að vera höfuðatriðið í málrækt og kennslu íslensks máls. Þar að auki stuðlar sú þróun í stafsetningarkennslu, sem átt hefur sér stað síðan setustafsetningin var tekin upp, að því að skipta þjóðinni í tvö samfélög hvað varðar þennan þátt stafsetningarinnar. Það er ekki nokkur von, þegar setukennsla á sér ekki stað í skyldunámi, að þeir, sem þess eins verða aðnjótandi, geti stafsett eftir gildandi reglum til móts við þá, sem lengri skólagöngu njóta. Því

eru töluverð brögð að því, að þeir, sem litla skólagöngu hafa og ekki hafa hlotið kennslu í setureglum né tileinkað sér þær á annan hátt, veigri sér við að láta frá sér fara ritað mál á opinberum vettvangi, því að þeir vita, að þeir ráða ekki við þennan þátt þeirrar stafsetningar, sem gilti til skamms tíma. Þetta er atriði, sem vert er að gefa gaum, því að ég tel, að allir séu sammála um það, að spornað skuli við allri þróun, sem stuðlar að því að kljúfa íslenska málsamfélagið í mismunandi hópa.

Ég tel, að í þeim umr., sem átt hafa sér stað á hinu háa Alþ. um þetta mál, hafi engin þau rök komið fram, sem hnekki nokkru meginatriði í þeim rökum, sem 45 ára reynsla hefur kennt og liggja að baki þeirri ákvörðun að nema setu brott úr skólastafsetningunni. Reynslan er sú, að undanþága hefur gilt í skyldunámi frá setukennslu og komið hefur upp tvenns konar ritháttur með þjóðinni: ritháttur lærðra manna og ólærðra. Það tel ég réttnefnt undanhald frá eðlilegri umhyggju um málþróunina að láta slíkt ástand haldast óbreytt.

Stafsetningin er ekki heldur höfuðatriði í málinu, notkun þess né kennslu þess. Meginatriðin eru orðaforðinn og leiknin í að beita beygingakerfi málsins. Þetta í sameiningu veitir tjáningarhæfni í ræðu og riti. Þetta hlýtur að vera kjarni móðurmálskennslunnar, og stafsetningin má ekki vera þannig úr garði gerð, að hún torveldi hið raunverulega málræktarstarf við kennsluna.

Í meðferð þessa máls hef ég farið eftir þeirri hefð, sem ríkt hefur óslitið frá því skömmu eftir að æðsta stjórn fluttist inn í landið og íslensk stjórnvöld tóku að skipa stafsetningarmálum. Meðan ekki er önnur skipan á gerð með lagasetningu, hlýtur sú eldri skipan að ríkja, sem áður og ítrekað hefur verið framfylgt í afskiptum stjórnvalda af stafsetningarreglum. Ég tel mig hafa farið nákvæmlega eins að og fyrirrennarar mínir hafa gert, án þess að aths. sætti. Meðan málinu er ekki öðruvísi skipað á lögformlegan hátt, hlýt ég að halda fast við það fyrirkomulag, sem ríkt hefur og ákvörðun mín um brottnám setu úr stafsetningarkennslunni hyggist á.