29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3605)

318. mál, launasjóður rithöfunda

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 729 er sprottið af þál., sem Alþ. samþykkti fyrir tæpum tveimur árum, þar sem ríkisstj. var falið að leggja fyrir næsta þing till, um, að fjárhæð, sem nemi sem næst andvirði söluskatts af bókum, renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun eftir reglum, sem samdar verði í samráði við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda. Þá hafði verið tekin fjárveiting, 12 millj. kr., í fjárlög 1973, sem skyldi úthlutað sem viðbótarritlaunum til höfunda. Sams konar fjárveiting hefur á ný verið tekin í fjárlög þessa árs.

Skipuð var n. til þess að semja reglur um úthlutun viðbótarritlaunanna, og lauk hún því starfi á síðasta ári, og fór þá úthlutun fram. Þessari n. var jafnframt falið að semja frv. til l. um efni þál. frá 18. maí 1972. Það er þetta frv., sem nú er lagt fyrir Alþingi.

Upphaflega var hugmyndin um þessi aukaritlaun bundin við, að til rithöfunda rynnu þær tekjur, sem ríkissjóður hafði og hefur af söluskatti á íslenskum bókum. Af þeim sökum var efnt til nokkurrar athugunar á því, hverju söluskattur af bókum mundi nema á árinu 1972. N. komst að þeirri niðurstöðu, að söluskattur á bókum næmi sem næst 21.7 millj. kr. það ár af þeim bókum, sem frumsamdar væru af íslenskum höfundum, en væri þýðingum við bætt, næmi söluskatturinn nálægt 38.3 millj. kr.

Þótt málið væri vakið í sambandi við þá hugmynd, að söluskattur á bókum skyldi renna til höfunda og þýðenda, taldi n, ekki rétt að binda þessa fjárveitingu við söluskattsupphæðina. Bæði er verulegum erfiðleikum bundið að finna hana, svo að af nákvæmni sé, og þar að auki geta auðvitað orðið ýmiss konar sveiflur í því frá ári til árs, hversu bókasölu er varið. Því er í 1. gr. þessa frv. lagt til, að stofnfé sjóðsins skuli vera 21.7 millj. kr. úr ríkissjóði, og er þá miðað við þá upphæð, sem varð niðurstaða af athuguninni um árið 1972.

Í 2. gr. er kveðið á um það, að í fjárl. árlega skuli sjóðnum ætluð fjárveiting, er nemi eigi lægri fjárhæð en tekin er til í 1. gr., en fjárhæðin skal endurskoðuð ár hvert við undirbúning fjárl. með tilliti til breytinga á byrjunarlaunum menntaskólakennara. Þessi viðmiðun er valin m.a. af þeirri reynslu, sem fengin er af því, að starfslaun rithöfunda eru miðuð við byrjunarlaun menntaskólakennara.

Í 3. gr. er kveðið á um, að höfundar íslenskra skáldrita og fræðirita skuli eiga rétt til greiðslu úr sjóðnum og heimilt sé að greiða úr honum fyrir þýðingar á íslensku.

Ég legg til, herra forseti, að eftir þessa umr. verði frv. vísað til 2, umr. og hv. menntmn. Guðlaugur Gíslason: Herra forseti. Þegar till. sú, sem vitnað er til í grg. með þessu frv., var hér til umr, fyrir 1–2 árum, benti ég á, hvort ekki væri verið að fara inn á nokkuð hættulega braut með því að draga út hluta af söluskatti til endurgreiðslu til tiltekinna aðila. Ég hygg, að eftir því sem þetta mál kann að verða skoðað betur, gæti Alþingi komist í nokkrar ógöngur, ef þetta frv. verður samþykkt og aðrir aðilar, sem vissulega er svipað ástatt um, gerðu sömu kröfur og hér eru gerðar fyrir hönd íslenskra rithöfunda. Það eru vissulega aðrir aðilar, skyldir rithöfundum, aðrir listamenn, getum við sagt, sem selja verk sín á opinberum vettvangi og lenda í því, að af þeim er greiddur söluskattur, og eiga þeir að, sjálfsögðu, ef inn á slíka braut er farið sem hér er gert ráð fyrir, alveg sama rétt á, að sá söluskattur, sem greiddur er af þeirra verkunn, renni í launasjóð til þeirra.

Það getur vel verið, að þetta sé ekki stórt mál. En þetta hlýtur að verða „prinsipp“-mál hjá Alþ., hvort inn á slíka braut á að fara eins og hér er gert ráð fyrir. Á eftir listamönnum gætu komið aðrir aðilar, sem gætu fært fram nákvæmlega sömu rökin, og þannig gæti þetta hlaðið á sig, að Alþ. stæði frammi fyrir því, að kannske allverulegan hluta af söluskatti af ýmsum framleiðsluvörum yrði að greiða út, ef þeir, sem geta ekki beint kallað sig listamenn, fengju framgengt sömu kröfum og hér er um að ræða.

Svo kemur það spursmál, sem margir virðast eiga mjög erfitt með að gera Upp og gera grein fyrir, hverjir það eru eiginlega, sem geta kallað sig rithöfunda. Ef hver og einn, sem dettur í hug að skrifa bók eða yrkja ljóð og gefa slíkt út, á rétt á því að gerast félagi í einhverju þeirra þriggja félaga, sem rithöfundar eru í, þá eru þeir komnir í þennan hóp, þó að verk þeirra falli kannske ekki almenningi í geð, seljist ekki, safnist aðeins upp hjá bókasöfnum, sem kaupa ýmis verk, sem út eru gefin, og rykfalli í hillum safnanna. Ég veit ekki, hvaða tilgangi það þjónar, ef þannig er að staðið, að þessir aðilar geta með nokkrum rétti talið sig vera komna á laun hjá ríkissjóði, vegna þess eins að þeir hafa látið sér detta þetta í hug.

Ég held, að ef við erum um það sammála, að það þurfi að bæta aðstöðu rithöfunda, þá sé hægt að finna eðlilegri leiðir en gert er ráð fyrir í þessu frv. Það viðurkenna allir, að aðstaða rithöfunda hefur mjög verið bætt á síðari árum og ekki nema gott um það að segja. En ég hygg, að sú leið, sem hér er gert ráð fyrir, geti reynst Alþ. allerfið gagnvart öðrum aðilum á síðara stigi.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég vildi bara endurtaka þá ábendingu, sem hér kom fram, þegar till., sem vitnað er til í grg. með frv., var hér til umr. og vara mjög við því, að inn á þá braut verði farið, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, því að það á án efa eftir að draga dilk á eftir sér og getur orðið erfiðara í meðferð hjá Alþ. á síðara stigi, þegar fleiri aðilar hljóta næstum því eðli málsins samkv. að gera svipaðar og sömu kröfur og þá kannske með nákvæmlega sömu rökum og sama rétti og nú er borinn fram fyrir flutningi þessa frv.