02.05.1974
Neðri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (3696)

277. mál, sala kirkjujarðarinnar Stóru-Borgar

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað þetta frv. á þskj. 659, en með frv. er lagt til, að Grímsneshreppi sé heimilað að selja jörðina Stóru-Borg, sem hreppurinn á sínum tíma keypti af ríkinu með þeirri kvöð, að hann mætti ekki selja hana aftur öðrum en ríkissjóði. Frv. var sent til umsagnar þeirra aðila, sem venja er að fjalli um slík mál, jarðeignadeildar ríkisins og Landnáms ríkisins. Jarðeignadeildin sendi jákvæða umsögn, en frá Landnámi ríkisins hafði ekki borist umsögn, þegar málið var afgreitt í nefndinni.

Landbn, leggur til, að frv. verði samþ., en gerir þó till. um þá breyt. á því, að Sigurjóni Ólafssyni sé ekki heimilt, ef hann vill selja jörðina aftur, að selja hana öðrum en Grímsneshreppi eða ríkissjóði, ef annar hvor aðilinn vill þá kaupa, og þá fyrir fasteignamatsverð.

Ég vænti þess fastlega, að mál þetta fái jákvæða afgreiðslu í gegnum þessa hv. d. Fjarstaddur við afgreiðslu þessa máls í landbn. var Benedikt Gröndal.