03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4140 í B-deild Alþingistíðinda. (3740)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég get fyrir mitt leyti fallist á þessa till., sem hv. 4. þm. Norðurl. v. flytur og hann hefur borið undir okkur flm. Ég tel hana jafnvel enn þá skýrar skera úr um það, sem ágreiningur er um, og get því fyrir mitt leyti fallist á orðalag till.

Ég er ekki í þeirri n., sem þessu máli var vísað til, og þess vegna get ég ekki svarað því, sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Reykn., Jóni Árm. Héðinssyni, en vil þó segja í sambandi við það, sem hann var þar að ræða um, og taka sérstaklega fram, að t.d. bátar þeir, sem stunda grásleppuveiðar, fá ekki yfirleitt greiðslur úr Tryggingasjóði fiskiskipa, eins og er almennt um þau skip, þar sem útflutningsgjöld eru greidd af útflutningi, þ.e. yfirleitt af fiskiskipaflotanum. Hann fær verulegar upphæðir úr þessum sjóði, sem hann leggur í, og þess vegna þótti á sínum tíma eðlilegt, að grásleppuhrognin færu í þennan sjóð, og þeir sjómenn, sem eru á þessum bátum, fá ekki heldur fæðispeninga, sem einnig koma til annarra fiskimanna.

Þá er rétt að geta þess líka í þessu sambandi, að nú er ákveðið samkv. þessu, sem er verið að afgreiða í l. um Lagmetisstofnunina, og hún fái ekki fyrirgreiðslu frá Fiskveiðasjóði Íslands, eins og gert var ráð fyrir jafnvel í upphafi, heldur er nú ákveðið, að það eigi að vera Iðnlánasjóður, sem veiti lán til lagmetisiðnaðarins og þess vegna eigi lagmetisiðnaðurinn að greiða iðnlánasjóðsgjald. Þess vegna er ekki eðlilegt, að þessi iðnaður út af fyrir sig sé að greiða í þann lánasjóð, sem hann á ekki að njóta neins góðs af. Hvað upphæðin er há, skal ég ekki segja um, sem kemur til með að falla til í sambandi við niðursuðuiðnaðinn, en sjálfsagt fer það, eins og hv. þm. sagði áðan, eftir því, hvað þessi útflutningur eykst. Hann hefur verið mjög lítill til þessa, en vonandi fer hann vaxandi, og eftir því sem hann fer meira vaxandi, verður sú upphæð, sem hefði komið af útflutningsgjöldum, hærri og og eykst við það, sem framleiðslan kemur til með að aukast og söluverðmætið.