07.05.1974
Neðri deild: 122. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4263 í B-deild Alþingistíðinda. (3871)

113. mál, skipulag ferðamála

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. 3, þm. Vestf., að að samgn. hefur orðið sammála um að trufla ekki framgang þessa máls, enda þótt mönnum sýnist í ýmsum atriðum sitt hvað um málið í heild sinni.

Ég lagði á það áherslu við 1. umr. málsins, að ég teldi það óeðlilegt, sem segir í frv. um væntanlegt hlutverk þessarar stofnunar, þar sem rætt er um sölustarfsemi, um starfrækslu ferðaskrifstofu, að sá aðili, sem á að hafa yfirumsjón og eftirlit með þessari starfrækslu, keppi sjálfur á þessu sviði. En þar sem fyrir liggur, að þessi stofnun muni að mestu risa á starfsemi núv. Ferðaskrifstofu ríkisins, taldi ég ekki hæfilegt nú að leggja beinlínis til. að þessi þáttur í starfseminni yrði lagður niður, heldur yrði það framtíðarverkefni að aðgæta, hvort þetta sé ekki rétt stefna, þannig að þessi aðili, sem hefur með yfirumsjónina að gera og yfirstjórn þessara mála, fáist ekki á sama tíma við starfsemi og samkeppni á þessu sviði við aðra aðila. — Þetta var annað meginatriði málsins, sem ég hreyfði og ræddi einnig í samgn. Hitt var um Ferðamálasjóðinn. Eins og fram kom í framsöguræðunni, er ég mjög gagnrýnin á, að sú skipan mála, sem þar er gert ráð fyrir, sé nálægt því nægjanlega góð til þess, að sjóðurinn geti gegnt því hlutverki, sem honum er ætlað og við sækjum, að hann geti gegnt.

Þetta er allviðamikið mál, og eins og hv. frsm. sagði, við erum þeirrar skoðunar, að hér séu ýmsar nýjungar, sem sýnast horfa til betri vegar og rétt sé, að á það reyni í framkvæmdinni, hvernig til tekst. Þetta mál hefur enda fengið mjög rækilega athugun hér á hinu háa Alþingi, var fyrst lagt fram til kynningar á síðasta þingi, og síðan hefur málíð fengið, að því er ég best fæ séð, mjög vandlega meðferð hjá hv. Ed.

Ég þykist sjá að vísu ýmsa vankanta á þessu, en þó ekki svo stóra í sniðum, að ég telji ekki fullframbærilegt, að málið fái þá afgreiðslu, sem lagt er til af nefndinni.