12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Frsm. meiri hl. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér hefur verið falið að mæla hér fyrir nál. meiri hl. utanrmn. á þskj. 110, en að þessum meiri hl. standa fulltrúar fjögurra flokka í utanrmn., þ. e. a. s. Alþb., Alþfl., Framsfl. og SF.

Íslendingar heyja mikla baráttu fyrir því að öðlast full og óskoruð umráð yfir landgrunni sínu og auðæfum hafsins yfir því. Sú barátta hófst í rauninni fyrir alvöru, þegar hinni stjórnarfarslegu frelsisbaráttu landsmanna lauk með stofnun lýðveldisins 1944. Við eigum gott land, sem teygir sig talsvert langt út í hafið, og það köllum við landgrunn. Öll erum við sannfærð um, að þjóðin á þess engan kost að lifa hér viðunandi menningarlífi með þeim kostnaði, sem sjálfstæðu þjóðfélagi við okkar skilyrði fylgir, nema saman geti farið skynsamleg nýting landsins og hafsins umhverfis í þágu hennar. Þessi nýja frelsisbarátta landsmanna hefur nú staðið áratugum saman, og þýðingu hennar má nokkuð marka af því, að enginn, sem vel þekkir til, efast um, að byggjum við enn þá við sömu fiskveiðilandhelgi og við höfðum, þegar hún hófst, þ. e. a. s. þrjár mílur og allir flóar og stórfirðir opnir erlendum fiskveiðiflotum, eins og þeir eru nú orðnir, væri hagur landsmanna ömurlegur orðinn.

Hér verður engin saga rakin, en áfanga má nefna: landgrunnslögin, 4 mílur og nýjar grunnlínur, sem færðu okkur flóa og stórfirði inn í landhelgina, þá 12 mílur, 50 mílur og stefnan tekin að 200 mílna markinu. Við gerum okkur það sjálfsagt ljóst, sumpart að fenginni reynslu, að það er löng leið frá 3 í 200 og að ýmsar torfærur eru á þeirri leið sem taka verður tillit til, og því ekki alltaf hægt að fara þráðbeint. Vandinn er á hinn bóginn að finna ætið færa leið og missa aldrei sjónar af markinu né glata stefnunni.

Við gerðum ráð fyrir því við útfærsluna í 50 mílur, að erfiðastir yrðu sem fyrr árekstrarnir við þá útlendinga, sem mest hafa notfært sér fiskimiðin, sem við af lífsnauðsyn verðum að tryggja okkur einum framvegis. Áreiðanlega höfum við einnig gert okkur ljóst, að í þeim sviptingum yrðum við stundum að gera fleira en gott þætti og fara öðruvísi að en við mundum gera, ef við þyrftum ekkert tillit að taka til annarra.

Þegar Alþ. ákvað 15. febr. 1972 með 60 shlj. atkv. að færa fiskveiðilandhelgina út í 50 mílur, var þess vegna jafnframt ályktað, að halda skyldi áfram samkomulagstilraunum við ríkisstj. Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál, sem skapast vegna útfærslunnar. Hér voru höfð í huga tímabundin og takmörkuð veiðiréttindi innan 50 mílnanna. Þessi tillit þótti Alþ. óhjákvæmilegt að taka, ekki bara vegna erlendra útgerðafélaga, heldur einnig vegna erlendra fiskimanna, sem höfðu lífsviðurværi sitt af þessum veiðum. Hér var hafður í huga sanngjarn umþóttunartími. Þannig mótaði Alþ. stefnuna 15. febr. 1972.

Eftir mikil átök við Breta, sem ég ætla ekki að lýsa hér nú, og eftir erfiða samninga liggur fyrir, hvað hægt er að semja við þá um. Menn greinir á um einstök atriði þessara samninga, sem nú er hægt að gera. En ekki mun því haldið fram, að samningurinn marki stefnubreytingu í landhelgismálinu né frávik frá þáltill. frá 15. febr. 1972 um útfærslu landhelginnar. Öll erum við áreiðanlega á einu máli um það, að hefðum við haft full tök á, mundum við hafa ætlað og ætla Bretum að haga bráðabirgðaveiðum sínum á umþóttunartímanum hér í landhelginni öðruvísi og okkur á hagfelldari hátt en ráð er fyrir gert í þessum samningi. Hér verður á hinn bóginn ýmis tillit að taka, og sýnist þá einmitt sitt hverjum, eins og oft vill verða, þegar þannig stendur á.

Þegar á allt er litið telur meiri hl. utanrmn. ávinning að því að gera þennan samning og leggur því til, að þáltill. verði samþ. Rétt er að leggja áherslu á þýðingu þess, að með þessum samningi eru útilokaðar veiðar Breta hér á frysti- og verksmiðjutogurum, en óttinn við vaxandi sókn á þess háttar skipum var ein veigamesta ástæða þess, að útfærslan í 50 mílur mátti ekki dragast og gat ekki dregist. Ástæða er til að benda á, að hvað sem öllum formum og orðalagi á lagaformúlum líður, þá felst mikil raunveruleg viðurkenning á umráðarétti okkar út að 50 mílum í samningi eins og þessum og að samningur af þessari gerð færir okkur miklu nær því, en ekki fjær, að fá fulla formlega viðurkenningu á 50 mílna fiskveiðilandhelginni.

Á þskj. 101 er að finna till. frá hv. 3. landsk. þm. þess efnis, að þjóðaratkvgr. fari fram um bráðabirgðasamkomulag það, sem nú er ráðgert við Breta. Eins og ég hef þegar komið að, er ekki með samningi þessum vikið frá stefnu Alþ. í landhelgismálinu, eins og hún var mótuð 15. febr. 1972 og fullyrða má, að þjóðin hafi fylgt sér um. Sér meiri hl. utanrmn. ekki ástæðu til að efna nú til þjóðaratkvgr. um framkvæmd þess stefnuatriðis, sem ráðgerð er með þessum samningi. Meiri hl. utanrmn. leggur því til, að þáltill. verði samþ. óbreytt.

Sterkast höfum við staðið í þessu merka máli okkar, landhelgismálinu, þegar alger samstaða hefur náðst. Það er því sérstakt ánægjuefni, að hv. minni hl. utanrmn., sem gefur út sérstakt nál., mælir einnig með því, að þáltill. verði samþ. Vona ég, að þetta boði, að mjög víðtæk samstaða náist um þetta mikilsverða mál.