14.11.1973
Efri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

73. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er til breytinga á hinum almennu hegningarlögum okkar. Ég leyfi mér að lesa hér upp efnisgrein frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða, sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.“

Þetta frv. er fram komið til þess að fullnægja alþjóðasamningi, sem Ísland er aðill að, — samningi, sem fjallar um skyldu aðildarríkjanna að fordæma hvers konar kynþáttamismunun og vinna gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Hegningarlaganefnd okkar hefur samið frv. og einnig þá grg. með því, mjög ítarlega, eða aths. Er mér óhætt að vísa til þeirrar grg. um nánara efni máls.

Þess vil ég geta, að um eitt atriði hefur hegningarlaganefnd farið fram úr því, sem ákvæði segja um í nefndum samningi. Í nefndum samningi er ekki sérstaklega rætt um atlögu að hópi manna vegna trúarbragða, en hegningarlaganefnd hefur þótt rétt að taka trúarbrögðin inn í þessa grein, enda munu ákvæði að því er slíkt ákvæði varðar verða í hinum norrænu refsilögum.

Tel ég svo óþarft að ræða frekar frv., grg. gefur því mjög gildi og skýrir það, að mér skilst, til fulls. Allshn. mælir með samþykkt frv.