14.11.1973
Neðri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja hv. síðasta ræðumanni það, að því fer fjarri, að þetta frv. sé flutt samkv. nokkurri sérstakri kröfu frá Alþb. -mönnum. Það var frá upphafi og er fullt samkomulag um frv. í ríkisstj. Það hefur aldrei verið neinn ágreiningur um það. Það hefur öllum verið ljóst, sem um þetta hafa fjallað, og auðvitað öllum lögfræðingum, sem hafa komið nálægt því, að það þyrfti að setja ákvæði samningsins um viðurlög inn í lög, vegna þess að það er ekki hægt fyrir framkvæmdavaldshafa og enn síður dómstóla, ef því væri að skipta, að ákveða viðurlögin samkv. ákvæðum samningsins. Þegar um slíkt er að ræða í milliríkjasamningum, verður annaðhvort að hafa þann háttinn á, sem stundum hefur verið, að milliríkjasamningurinn er beinlínis lögfestur, — það hefur oft verið gert, — eða þá það verður að taka þau ákvæði úr honum, sem telja verður, að þurfi að fá staðfestingu í íslenskum lögum, upp í sérstök íslensk lög. Var talið sjálfsagt að hafa þann háttinn á hér, m. a. vegna þess, að jafnframt þurfti að kveða alveg skýrt á um það, hvaða íslenskur aðili, hvaða íslenskt yfirvald eða dómstóll, ef menn hefðu viljað fara þá leiðina, — en ég skýrði það áðan, hvers vegna menn hefðu ekki viljað binda sig við dómstól í þessu sambandi, — þá þurfti líka að taka ákvæði um það upp í íslensk lög.

Sem sagt, ég get huggað hv. þm. að því leyti til, að það hefur ekki verið neinn ágreiningur í ríkisstj. um þetta.

Skrípaleik, held ég, að sumir hv. þm. ættu að fara varlega í að tala um, af því að það gæti orðið áhorfsmál, hverjir hefðu verið bestir leikarar á því sviði.

Ég tek það fram, ef menn skyldu ekki átta sig á því, að auðvitað er neitun togara á því að stöðvast samkv. boði varðskips brot á þessu samkomulagi. Það eitt út af fyrir sig er ástæða fyrir því, að hann yrði strikaður út af skrá.

Ég held, að ég þurfi ekki að gefa fleiri skýringar vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns, og það er alls ekki meining mín að fara að efna til neinna almennra umr, í sambandi við þetta frv., því að það má, eins og hann sagði, líta á þetta sem sjálfsagt eftir það, sem búið er að gera, og þess vegna ekki ástæða til að fjölyrða um það. Ég held, að frv. sé í sjálfu sér alveg skýrt.