14.11.1973
Neðri deild: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur nú fyrir, er bráðabirgðaákvæði og viðbót við önnur lög. Ég geri ráð fyrir því, að það megi finna það út, að í hinum almennu l., sem þetta mál er bráðabirgðaákvæði við, sé svarað ýmsum spurningum, sem í hug manna koma viðvíkjandi framkvæmd á þessu. Hitt getur vel verið, að það komi í ljós við reynslu, að gera þurfi einhverjar breytingar á þessum l., það er ekkert nýtt. Ég skal játa, að þetta eru mjög stutt ákvæði, og það getur vel verið, að þeir, sem hafa samið frv., hafi ekki séð fyrir eða getað haft í huga öll þau tilvik, sem upp geta komið, svo að það er ekkert óeðlilegt við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, og það getur verið, að framkvæmdin sýni, að það þurfi einhver fyllri ákvæði um einhver atriði.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson var að spyrja um, þá er ég nú margbúinn að svara mörgu af þessu, og sumt af því kom fram í minni stuttu framsöguræðu áðan, en hann hefur ekki verið við kannske þá. Ég get rifjað upp sumt af því enn einu sinni.

Það er gert ráð fyrir því, að þegar varðskip stendur togara að meintu broti á þessu samkomulagi, kveðji það næsta hjálparskip eða aðstoðarskip til. Að vísu er rétt að taka það fram áður, að það er beinlínis tekið fram í þessu samkomulagi, að það sé skylda togarans að stöðva eftir fyrirmælum varðskipsins, svo að það eitt, ef togari hlýðir ekki stöðvunarmerki varðskips, er brot á þessu samkomulagi og varðar því, að hann verður felldur niður af skrá. En það á að kalla næsta hjálparskip til. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað því, hve langan tíma það tekur fyrir það skip að koma á staðinn. Það fer eftir því, hvar það er statt. En ég geri ráð fyrir, að það sé eðlilegt að gera þá kröfu til þess, að það komi viðstöðulaust, ef það vill sinna þessu. Það hvílir ekki nein skylda á því að koma. Ef það kærir sig ekkert um að líta á þetta, þá ber því engin skylda til þess.

Hv. fyrirspyrjandi er mér náttúrlega miklu fróðari í öllu, sem lýtur að sjómennsku. Mér er sagt, að það þurfi ekki að vera nein nauðsyn, að varðskip bíði á staðnum eftir komu þessa eftirlitsskip, heldur geti það sett út merki eða bauju, sem kallað er, eða hvað sem það nú er, og þurfi það ekki að vera þar frekar en það vill. Þó að það bíði á staðnum, getur það líka sent sín gögn, sína skýrslu til dómsmrn. strax, á meðan það er á staðnum. Það þarf ekki að bíða endilega eftir því að koma í land. Það er ekki gert ráð fyrir því sem sagt, að hér sé hafður sá háttur á, sem venjulegur er við landhelgismál, að varðskipsforingjar komi fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína með eiði eða drengskaparheiti, heldur gefa þeir sína skýrslu beint til dómsmrn., og það er ekki lögboðið neitt form á henni. Hvort togarinn á að vera kyrr eða ekki, það býst ég að fari eftir ákvörðun varðskipsins. Ef togarinn viðurkennir staðarákvörðun varðskipsins, er ástæðulaust, að hann sé að bíða þar. Ef deilt er um það, þá gæti verið, að varðskipið skipaði honum að bíða.

Um nánari framkvæmd á þessu verður auðvitað reynslan að leiða í ljós, og þeir menn, sem hafa daglega stjórn á þessum málum, forstjóri Landhelgisgæslunnar og hans aðstoðarmenn, eru nú að vinna í því að athuga, hvernig þessu verður háttað.

Það er ekki hægt að neita því, að þetta samkomulag kallar á verulega starfsemi af hálfu Landhelgisgæslunnar fram yfir það, sem hefur verið áður. Það eru m. a. þessi smábátasvæði og friðunarsvæði, sem þarf alveg sérstaklega að gæta að, og svo auðvitað það hólf, sem lokað er hverju sinni, fyrir utan það almenna eftirlit, sem verður alltaf að hafa á öllu svæðinu gagnvart útlendingum og reyndar gagnvart Íslendingum líka, þannig að það má gera ráð fyrir því, að þetta geti kallað á það, að Landhelgisgæslan þurfi að fá meiri kost til að fylgjast með þessu. En það er mjög í hugum þeirra manna, sem þessi mál eru að athuga nú, að það verði hægt að nota flugvélar í enn ríkara mæli en gert hefur verið við þetta eftirlit. Varðskipakosturinn er nú þessi, sem menn þekkja. Týr er kominn af stað og Hvalur 2 er í undirbúningi. Ég skal ekkert fullyrða um það á þessu stigi, hvort þetta reynist nægilegt, en það er mjög nauðsynlegt, að Landhelgisgæslan verði þannig í stakk búin, að hún geti haft fullkomið eftirlit, alveg sérstaklega með þeim svæðum, sem friðuð eru, ýmist alfriðuð eða eða friðuð fyrir togurum.

Það voru að vísu fleiri spurningar, í orði a. m. k., sem hv. þm. bar fram, en ég vona, að ég hafi nú með almennum orðum gert nokkra grein fyrir því samt, sem fyrir honum vakti. Ég tek það enn fram, að það getur vel verið, að framkvæmdin sýni, að hér þurfi eitthvað að færa til betri vegar og lagfæra í þessari lagasetningu, sem verður að setja nú með skjótum hætti, vegna þess að við getum ekki farið að framkvæma samkomulagið, fyrr en við erum búnir að fá þessi lög.