21.11.1973
Efri deild: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

113. mál, skipulag ferðamála

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru ekki mörg orð, sem ég hef ástæðu til að segja hér í framhaldi af ræðu hv. 6. landsk. þm. Ég er honum að miklu leyti sammála um flest af því, sem máli skipti í hans málflutningi. Ég vil taka það fram, að ég tel, að aukinn ferðamannastraumur og raunar öll ferðamannaþjónusta verði að haldast í hendur við náttúruvernd og einmitt vernd þeirra verðmæta, sem ég álít á hinn bóginn, að við eigum að vera stoltir af að geta sýnt útlendingum með mannsæmandi hætti og aukið kynni þeirra af landi og þjóð og aukið eðlileg samskipti við umheiminn. Ég get líka verið honum sammála um það, að kannske væru sumar af þeim ferðum, sem farnar eru til sólarlanda, betur ófarnar. En ég held þó, að þar sem við búum á eylandi, gyrtu sjó, þar sem við eigum mjög erfitt og höfum engar leiðir aðrar en yfir hafið að sækja til þess að kynnast erlendum þjóðum, þá hljóti okkur öllum útþráin að vera meira og minna í blóð borin. Þess vegna vil ég ekki fordæma það, þótt menn stytti sér langan norðurheimskautsvetur með því að skjótast í nokkurra klukkutíma ferð til Mallorca, því að heimurinn er nú einu sinni þannig, að hann er alltaf að minnka, og fólk gerir auðvitað kröfu til að nota þá ferðatækni, sem fyrir hendi er.

Þó er aðeins eitt atriði, sem ég vil gera örlitla aths. við í máli hv. 6. landsk. þm. Ég er honum að vísu alveg sammála um, að það, sem hann kallar örtröð ferðamanna, er hlutur, sem er sjálfsagt og verður sjálfsagt að gjalda varhug við. Sannast mála er það, að okkar ferðamannaþjónustu hefur verið þannig farið að undanförnu, að það hefur verið um raunverulega örtröð að ræða á vissum stöðum, og þarf úr að bæta. Má t. d. nefna það, að örugglega meiri hluti af þeim erlendu ferðamönnum, sem koma til Íslands, fer til Gullfoss, og þar hefur til skamms tíma verið algert ófremdarástand fyrir þetta fólk til þess að geta komist á snyrtingar og annað því um líkt, sem hlýtur að fylgja heimsóknum á slíkan stað. Í undirbúningi er nú að bæta úr þessu, og ég vænti þess, að hv. fjvn. verði samgrn. innan handar um að fá nauðsynlegt fjármagn, til þess að hægt verði að koma þarna upp eðlilegri aðstöðu og einnig á nokkrum, tiltölulega fáum stöðum þó, þar sem orðið er mjög brýnt að gera hliðstæðar ráðstafanir á öræfum landsins. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að hæfileg aukning ferðamanna og hæfilegur ferðam.straumur um landið og kannske ekki síst um hálendið eigi fyllilega samleið með eðlilegri náttúruvernd. Ég teldi það vera til mikilla bóta t. d. að opna öræfin, ekki aðeins fyrir útlendingum, heldur kannske fyrst og fremst fyrir okkur sjálfum, til þess að gera öllum almenningi auðveldara að njóta þeirrar dýrðar, sem þar er að sjá. En jafnframt því að opna t. d. allgreiðfærar bílaslóðir, sumarslóðir, um öræfin, þyrfti að setja mjög strangar reglur um það, að ekki mætti aka út fyrir þessar tilteknu leiðir, svo að það gæti ekki átt sér stað, sem nú á sér stað og hefur átt sér stað, að menn brjótist um á torfærubílum, hvert sem þeir eiginlega girnast að fara, og skilja eftir sig á öræfum landsins opin sár, sem eru lengi að gróa.

Eins og ég sagði áðan, eru einnig móttökuskilyrði ferðamanna, bæði innlendra og útlendra, á sumum stöðum þannig, að það verður ekki við það unað frá neinu sjónarmiði, hvorki frá sjónarmiði ferðamannanna sjálfra né almennri náttúruvernd, og þ. á m. eru sumir okkar þekktustu og frægustu ferðamannastaðir. En ég held, að einmitt eðlileg aðsókn erlendra ferðamanna muni frekar ýta á það, að úr þessu sé bætt, heldur en það sé hindrað.

Ég er ekki sömu skoðunar eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að nokkrir menn væru, að það sé hægt að taka sérstaklega auðtekinn og fljóttekinn gróða í sambandi við ferðamál. Ég held, að þau séu ekki þannig vaxin, að það sé auðgert. En hitt tel ég alveg eðlilegt, að ferðamannaþjónustan skili þeim arði til þjóðarinnar, að hægt sé að gera vissa hluti, bæði til þess að bæta fyrir aðstöðu ferðamannanna og til þess að auka náttúruvernd í landinu.

Að lokum svo aðeins vegna þess, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, að hann hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með till. hins bandaríska fyrirtækis. Ég hef heyrt ýmiss konar gagnrýni á þær till. og ætla ekki á þessu stigi að dæma þær. Ég held, að það sé ýmislegt í þeim, sem við getum lært af og haft hliðsjón af í sambandi við okkar aðgerðir. Ég tek þær ekki sem neinn úrslitadóm um það, hvað við eigum að gera í þessum málum. En fyrst og fremst hef ég heyrt þá gagnrýni á till. þess bandaríska fyrirtækis, sem vann þetta verk á vegum Sameinuðu þjóðanna, að þar væru of miklar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, en of litlar um landið, og þetta á vafalaust við nokkur rök að styðjast. Hitt er svo annað mál, að í því sambandi verðum við að gæta þess, að við aukum ekki ferðamannastrauminn og tæplega höldum honum við, nema við höfum aðstöðu til þess að hýsa flesta erlenda gesti, sem hingað koma til landsins, á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngum okkar við útlönd er þannig háttað, a. m. k. nú og verður þannig trúlega um einhverja verulega ófyrirséða framtíð, að þær eru við Reykjanes- og Reykjavíkursvæðið. Hingað koma menn, og héðan fara menn, þegar þeir eru að ferðast til og frá landinu, og ef við eigum að fá aukna ferðamannaþjónustu út um landið, sem ég veit, að margir hafa áhuga á, þá verður auðvitað ekki hjá því komist að víkka þann flöskuháls, sem er í ferðamannaþjónustunni, en hann er kannske ekki hvað síst hótelrými hér í höfuðborginni. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að hægt sé að jafna því saman við Mallorcadvöl, þó að hér væri sköpuð gistiaðstaða til að hýsa almennt erlenda ferðamenn, sem hingað koma, í 2–3 nætur hvern að meðaltali, kannske enn þá minna. En til þess er tæpast aðstaða, eins og nú standa sakir.