05.12.1973
Neðri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

73. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Á þskj. 79 er frv. til l. um breyt. á almennum hegningarl., nr. 19 frá 1940. Frvgr. eru aðeins tvær og mjög stuttar báðar, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa þær upp hér:

„1. gr. Ný grein, 233. gr., a, orðist svo: Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sæti sektum varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.

2. gr. Lög þessi taka þegar gildi.“ Ástæðurnar fyrir frv. þessu eru; þær, að á vegum Sameinuðu þjóðanna var samþykktur samningur 21. des. 1965, sem nefnist United Nations Convention on the Elimination of all forms of Racial Discrimination. Ísland er aðili að þessu samkomulagi, og er talið nauðsynlegt, til þess að Ísland geti uppfyllt skyldur sínar samkv. þessu samkomulagi, að gera þá breytingu á almennum hegningarlögum, sem frv. þetta hefur að geyma og ég var hér að lýsa.

Frv. þetta var samþ. shlj. í Ed., og í nál. á þskj. 172 hafa nm. í allshn. þessarar hv. d. allir orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþykkt.