06.12.1973
Neðri deild: 37. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er aðeins í tilefni af ræðu síðasta ræðumanns, sem ég vil segja örfá orð. Það er vissulega alveg rétt hjá honum, að það geta komið upp ákveðin vandamál hjá sýsluvegasjóðunum, þegar stærstu sveitarfélögin innan hverrar sýslu fá kaupstaðarréttindi. Og ég tek undir það með síðasta ræðumanni, að það er raunverulega engin skynsemi í því kerfi, sem við búum við í dag. Það er engin skynsemi í því t. d., að þm. færu að synja sveitarfélögum um kaupstaðarréttindi vegna þess, að sýsluvegasjóðirnir mundu þá verða illa settir. Miklu skynsamlegra væri þá að breyta reglunum þannig, að kaupstaðirnir í viðkomandi héraði greiddu í sýsluvegasjóðina. Sýsluvegaframkvæmdir eru kostaðar að 2/3 hlutum með framlagi úr vegasjóði, en að ½ af sveitarfélögunum í hlutfalli við íbúafjölda.

Mér sýnist hins vegar, að þetta ásamt mörgu öðru, bendi okkur á, hvernig þetta fyrirkomulag allt hjá okkur hefur raunverulega gengið sér til húðar. Ég held, að sýnu skynsamlegra væri, að sveitarfélögin tækju að sér sýsluvegina og gerðu það á vettvangi landshlutasamtakanna. Það er í samræmi við það, sem sveitarstjórnarmenn hafa óskað eftir.

Það mætti benda á ýmis dæmi þess, hvernig getur farið, ef hin stærstu sveitarfélög í vissum sýslum sækja um kaupstaðarréttindi. Athugun t. d. Kjósarsýslu. Við erum hér með frv. um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi. Garðahreppur, sem er stærsti hreppurinn með um 3500 íbúa, hann flyst yfir í Kjósarsýslu um næstu áramót samkv. l., sem samþ. voru á síðasta þingi. Ef hann nú sækir um kaupstaðarréttindi og Mosfellshreppur einnig, sem er með yfir 1000 íbúa og fer mjög ört vaxandi, þá yrðu eftir 3 hreppar í Kjósarsýslu, sem hver um sig er með liðlega 240 íbúða. Sýslufélagið, sem nú er með um 7000 íbúa yrði þá með rúml. 600 íbúa eftir. Hvernig færi þá með sýsluvegasjóðinn? Í þeim 3 hreppum, sem eftir væru í þessu sýslufélagi, eru allir sýsluvegirnir í Kjósarsýslu. Þess vegna er þetta alveg rétt ábending hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, og þarf að huga að þessu líka.

Mér sýnist, að þetta megi samt ekki verða til þess, að við frestum afgreiðslu þeirra frv., sem hér liggja fyrir. Það eru mjög ákveðnar óskir frá þessum sveitarfélögum um, að þau hljóti kaupstaðarréttindi. Hér hafa verið tíunduð þeirra rök, og þau eru vissulega mikilvæg. Ég legg þess vegna áherslu á það, að þó að við sjáum, að í þeim sveitarfélögum, sem eftir eru innan sýslufélaganna, komi upp vandamál vegna þessa, þá megum við ekki láta þau sveitarfélög gjalda þess, sem hafa sett fram þessar eindregnu óskir.