30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. á þingfundi í þessari hv. d., þegar það var tekið til fyrri umr. Ég skal ekki endurtaka það, sem ég sagði þá, en ég vil aðeins taka fram í tilefni af ummælum hv. 3. þm. Vestf., þar sem hann beinlínis viðurkenndi. að mistök hefðu orðið í sambandi við frágang þessara laga, að þá er ekki óeðlilegt, að þeir aðilar, sem ekki eru samþykkir ákvæðum laganna, vildu koma óskum sínum um breytingu á framfæri.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning ítreka ég stuðning minn við þá framkvæmd, sem hér er um að ræða, einnig tilhögun um útvegun fjármagnsins, sem til þessarar framkvæmdar er ætlað. Aðeins er það, að ég er algerlega mótfallinn því, að væntanleg skuldabréf verði verðtryggð á nokkurn hátt. Ég þykist þess nokkurn veginn víss, að sala bréfanna muni ganga með eðlilegum hætti og hægt verði að afla fjárins á þann veg og með þeim hætti, sem ég lýsti í ræðu minni, þegar þetta mál var til 1. umr. í hv. d., með því að hækka hugsanlega vexti af þessu láni. Til áréttingar vil ég því leyfa mér að bera fram brtt. við það frv., sem hér er til umr., og eru brtt. þannig:

Ný 2. gr. frv., sem hér er til umr., verði um það, að 3. gr. laganna falli niður.

Í 5. gr. l. falli niður orðin „svo og verðbætur“. Stuðningur minn við þetta frv. er bundinn því, að breyting sú, sem felst í þeim till., sem hér hafa verið reifaðar, fáist samþykkt.