20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

1. mál, fjárlög 1975

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi nú í reynd ekki miklu við það að bæta, sem hv. 11. landsk. þm. gerði hér grein fyrir að því er varðaði viðhorf minni hl. fjvn. til þeirra fjárl. sem nú eru á lokastigi í þinginu. Hitt vil ég þó sérstaklega undirstrika, að sé það rétt, sé sú lýsing á ástandi í þjóðfélaginn, sem þeir stjórnarflokkar hafa látið út ganga að undanförnu, rétt, þá eru þau fjárlög, sem hinir sömu aðilar hér á Alþ. ætla nú að ganga frá, algert pappírsgagn. Þau fjárlög, sem hér á að afgreiða, eins og nú blasir við, eru ekki bara byggð á því að það haldist óbreytt þensluástand, heldur er gert ráð fyrir aukinni veltu, aukinni þenslu, eins og þetta fjárlagafrv., sem hér um ræðir, er byggt upp. Ef þær tekjur, sem núv. stjórnarflokkar gera ráð fyrir í fjárlagafrv. til ríkissjóðs, eiga að skila sér í reynd, þá verður að ríkja meira þensluástand í þjóðfélaginu en hefur verið til þessa. Gerist það ekki, þá liggur það fyrir að stórkostlegur niðurskurður hlýtur að eiga sér stað tiltölulega fljótt á næsta ári. Hér er því um að ræða algera sýndarmennsku, alger pappírsfjárlög, eins og að afgreiðslu þeirra á nú að standa.

Ég vil sérstaklega taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður vék hér greinilega að og gerði skilmerkilega grein fyrir, að núv. stjórnarflokkar höggva vissulega í þann knérunn, sem síst skyldi, þegar þeir ætla þeim sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, þeim einum sem enga möguleika eiga á því að bæta sér upp þá skerðingu á lífeyri, sem þeim er nú boðið upp á, þeim og þeim kannske fyrst og fremst er ætlað að bera byrðar sem núv. stjórnarflokkar ætla á þá að leggja. Mér finnst ömurlegt til þess að vita, ef Alþ., sem eitt getur komið í veg fyrir að þessir aðilar innan þjóðfélagsins, sem til einskis hafa að snúa sér annarra heldur en alþm. og Alþ. til þess að leiðrétta sin kjör, ef það ætlar að bregðast við á þennan hátt eins og mér virðist nú blasa við að meiri hl. Alþ. ætli að gera. Ég vil því eindregið taka undir þau orð hv. 11. landsk. þm., að það er vissulega ástæða til þess að þm. Sjálfstfl. og Framsfl. geri sér fullkomlega grein fyrir því hvað þeir eru að samþykkja, ef þeir ætla að rétta upp hendur með því að afgreiða það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, eins og það stendur í dag. Þeir eru þá fyrst og fremst að níðast á þeim sem síst skyldi.

Það er augljóst nú — og ég veit ekki hvort hægt er að hugsa sér ömurlegra hlutskipti, að þeir, sem fyrir ári töldu ekki bara eðlilegt, heldur mjög auðvelt að skera niður þáv. útgjöld ríkisins sem nam 4300 millj., þeir koma nú með fyrsta frv. sitt rúmlega 18 þús. millj. hærra en þau fjárl. sem eru í gildi fyrir árið 1974. Ég veit ekki hvort hægt er að hugsa sér ömurlegra hlutskipti, ekki bara fyrir hæstv. fjmrh., heldur og alla þm. núv. stjórnarflokka sem töldu slíkt gerlegt fyrir ári, að koma nú með það mál, sem hér er til umr., eins og það liggur nú fyrir. Engu að síður er ljóst, að það á að kasta fyrir borð öllum fyrri yfirlýsingum sem þessir aðilar hafa gefið, og ekki bara það, heldur mjög að bæta við það sem þeir fordæmdu hvað harðast í táð fyrrv. ríkisstj. En ég tel, að frsm. minni hl. fjvn. hafi gert það rækilega grein fyrir afstöðu okkar minni hl. í fjvn., fyrir okkar sjónarmiðum til þess fjárlagafrv., sem hér er á lokastigi, að ég sé ekki ástæðu til að fara öllu frekar almennt út í það mál. Vel má vera, að ástæða þyki til eða tækifæri gefist til þess síðar í þessum umr., en ég tel, að það sé ljóst, fullkomlega ljóst, hvað hér er um að ræða.

Ég vil þó aðeins víkja að a.m.k. einum lið að því er varðar afgreiðslu fjárl. Það hefur mikið verið um það rætt og ritað að bæta þurfi hið verklega nám í skólakerfi hér á landi. Þeir eru ófáir, sem stungið hafa niður penna og tekið sér orð í munn á þann veg, að hér þyrfti stórkostlega um að bæta, og þeir eru margir úr núv. stjórnarliði. Þegar þetta fjárlfrv. er afgreitt, lítur dæmið þannig út að því er varðar þetta, að það hefur staðið fyrir dyrum að framkvæma eða byggja upp námsskrárgerð vegna iðnfræðslunáms í landinu. Beiðni hefur legið fyrir fjvn. þessa efnis upp á 12 millj. kr. Ekki er það nú hátt sem farið er fram á í þessum efnum. Eigi að siður hefur stjórnarliðið í fjvn. þverskallast við því að taka til greina þessa ósk þeirra iðnnema. Það liggur nú fyrir, að af þeim 12 millj., sem þessir aðilar báðu um, eru þeim nú ætlaðar 6. Dæmið stendur þá þannig, að ef engin breyting verður á þessu í meðförum þingsins við lokaafgreiðslu, þá er nokkurn veginn vitað að það verður ekkert gert í þessum efnum á næsta ári. Ég hefði haldið eftir allt það sem á undan er gengið, allt það tal og öll þau skrif sem ýmsir aðilar innan stjórnarliðsins hafa staðið að, að þeir létu það ekki henda sig að standa svo að afgreiðslu þessa máls eins og þeir hafa nú ákveðið að gera. Ég tel að það sé full þörf á að vekja athygli á þessu, vegna þess að ég held að almennt séu hv. þm. sammála um að hér þurfi að verða á mjög veruleg bót frá því sem verið hefur. En þetta er reyndin sem á að verða. (Gripið fram í: Hvað var á fjárl. 1974 í þessu skyni?) Ætli hv. þm. hafi ekki fjárl.? Hann hefur kannske farið eftir þeim í þessari fjárlagagerð. (Gripið fram í: Man hv. ræðumaður það?) Nei, ég man það ekki. En ég get aflað mér upplýsinga um það ef hv. þm. veit það ekki. En hvað sem því viðkemur, þá heyrðist mér á þeim hv. þm. Sjálfstfl., ekki bara við afgreiðslu síðustu fjárl., heldur og áður, að þeir teldu þá að það væri ekki þess vert að bæta ofan á alla þá eyðslu, allar þær veislur, sem þáv. ríkisstj. var talin hafa staðið að þegar hún liðsinnti þeim sem verst var farið með í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Og ég held, að ef þessi hv. þm., Lárus Jónsson, hefði ætlað að fara eftir sinni sannfæringu, sem ekki er nú altítt í hans þingflokki, þá hefði þessi tala sennilega orðið hærri og betur verið gengið til móts við þá, sem hér biðja um 12 millj. kr. til þess að byggja upp námsskrárgerð til iðnfræðslu í landinu. En þar hafa sennilega aðrir ráðið.

Það hefur mikið verið um það rætt, ekki síst af núv. stjórnarliðum, á undanförnum árum að það væri mikil þörf á því, að ríkissjóður kæmi meira til móts við hafnarsjóði í landinu vegna mikilla greiðsluerfiðleika, sem þeir hafa staðið í. Þetta hefur verið tekið inn í fjárlög tveggja síðustu ára, var notað árið 1973, en á ekki að nota nú á árinn 1974. Og það var ekki ætlun núv. hæstv. ríkisstj. að taka inn í heimildagr. fjárl. að heimila Hafnabótasjóði að taka lán til þess að létta greiðslubyrði hafnarsjóðanna. En eftir mikla eftirgangsmuni af hálfu minni hl. fjvn. fékkst það þó fram, að þarna væri tekin inn heimild til þess að Hafnabótasjóður gæti tekið lán til þess að létta greiðslubyrði hafnarsjóða. Í núgildandi fjárl. var hér um 50 millj. kr. fjárhæð að ræða. Maður hefði því ætlað, fyrst heimild átti að taka inn á annað borð eftir að gengið hefði verið eftir því, að það yrði þó ekki lægri upphæð en í núgildandi fjárl. Að vísu má segja að það skipti engu máli hver upphæðin er, ef ekki á að nota hana, eins og reyndin varð í ár. En núv. hæstv. ríkisstj. lét þau boð út ganga síðast í gærkvöld, að þarna skyldi tekin inn heimildagrein sem næmi að upphæð 40 millj. kr. þ.e.a.s. 10 millj. kr. lægra en var í fjárl. ársins í ár. Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um það, en ég held að þetta sýni í reynd að það er ekki mikil alvara á bak við tal þeirra stjórnarliða um að hér þurfi að gera vel, hér þurfi að bæta úr þeim miklu erfiðleikum sem hinir ýmsu hafnarsjóðir eiga við að stríða.

Við 2. umr. fjárlagafrv. stóð ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm.brtt., sem ég tók til baka til 3. umr. í trausti þess að hv. fjvn. tæki þær til athugunar með velvild. Það hefur verið tekið tillit til, að vísu í öðru formi en við gerðum ráð fyrir, einnar af þessum till., sem var vegna malbikunar á flugvellinum á Ísafirði. Ég skal ekki fara útí að rekja það mál, en eins og nú standa mál hér um þetta, þá er tekin á heimildagrein fjárl. heimild til 20 millj. kr. lántöku til þessa verkefnis. Við munum því ekki flytja brtt. að því er þetta varðar, teljum eða vonum kannske réttara sagt að við megum treysta því, að þessi heimild verði notuð, þannig að við tökum ekki frekar upp það mál, a.m.k. ekki að sinni.

Ég stóð líka að flutningi á brtt. að því er varðaði jöfnun á námskostnaði, þ.e.a.s. hinum svokölluðu dreifbýlisstyrkjum. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr., að sú n., sem um þetta mál fjallar, telur að það þurfi að lágmarki 120 millj. kr. fjárveitingu, bara til þess að standa í stað frá árinu í ár. Við gerðum till. um að sú fjárveiting eða sú brtt., sem fjvn. lét frá sér fara upp á 110 millj. í stað 100 í frv., yrði 140 millj. Ekkert tillit hefur verið tekið til þessa í fjvn. síðan, þannig að það stendur óbreytt frá því sem var við 2. umr. frv. Ég hef því ásamt þeim sömu hv. þm., sem með mér stóðu að brtt. við 2. umr., lagt fram brtt. á þskj. 234, þar sem við leggjum til. að í stað þeirra 110 millj. kr., sem nú eru eftir 2. umr. í fjárlagafrv., komi 120 millj. kr., þ.e.a.s. það hækki um 10 millj., þannig að það standi í stað að raungildi frá því, sem er fyrir árið 1974. Og mér verða það mikil vonbrigði ef þessi till. verður felld hér í þinginu við atkvgr., því að ég trúi því vart að hv. þm. ætlist til þess að raungildi þessara styrkja lækki frá því sem það er á árinu í ár.

Í öðru lagi stóð ég ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Kjartani Ólafssyni að brtt. að því er varðaði liðinn hafnarmannvirki og lendingarbætur. Var gert ráð fyrir að upphæðin hækkaði úr 584 millj. í 598 í brtt. okkar við 2. umr. Á þetta var ekki fallist í meðferð hv. fjvn. og við tökum því þessa till. upp aftur og flytjum hana að því breyttu, að þar sem Súðavík voru ætlaðar 6 millj. í fyrri brtt., þá leggjum við til að henni séu ætlaðar 3 millj. í þeirri brtt. sem við flytjum nú. Að öðru leyti er þetta óbreytt, að fjárveiting til Ísafjarðar, sem er núna 13.4 millj., hækki upp í 21.4 millj. Þessar till. báðar höfum við flutt aftur.

Ræða hæstv. samgrh., sem talaði á eftir mér við 2. umr. fjárl., gæfi mér vissulega tilefni til þess að fara nokkrum orðum um þau orðaskipti okkar sem þá áttu sér stað. Hann lofaði því þá að hann mundi gera frekari grein fyrir þeim málum við 3. umr., og ég ætla að geyma mér að tala við hann um þau mál, þannig að ég ætla ekki að víkja að því nú.

Eitt er það mál, sem ég vakti athygli á við 1. umr. fjárlagafrv. hér. Það var í sambandi við Orkustofnun. Ég gerði þá grein fyrir því, að Orkustofnun hefði farið fram á í sinum fjárveitingabeiðnum að veittar yrðu 9 millj. 840 þús. kr. til vatnsorkurannsókna á Vestfjörðum á árinu 1975. Þessa beiðni Orkustofnunar hafði fjárlaga- og hagsýslustofnun skorið niður úr 9 millj. 840 þús. í 3 millj. 220 þús. Ég gat þess þá og ég ítreka það að hér er um að ræða landsfjórðung sem er hvað vanþróaðastur að því er varðar raforku. Orkumálastjóri undirstrikaði það á fundi fjvn., að hann teldi það mjög alvarlegt mál ef svo yrði staðið að málum að því er þetta varðaði eins og hér virðist eiga að gera. Þetta mál var ekki afgr. fyrir 2. umr. fjárl., en nú liggur fyrir að meiri hl. fjvn. leggur til að þessar 3 millj. 220 þús., sem eru í frv., hækki um 2 millj., þannig að þar verði um að ræða 5 millj. 220 þús. Ég hef ásamt hv. 8. landsk. þm., Sighvati Björgvinssyni, lagt fram brtt. að því er þennan lið varðar, vegna þess að við teljum það háskalegt ef enn einu sinni á að gera tilraun til þess að draga þær nauðsynlegu rannsóknir sem fram þurfa að fara og fram verða að fara í sambandi við orkumál á Vestfjörðum, ef á að draga það a.m.k. eitt ár enn. Það verður gert, ef ekki fæst leiðrétting á málum hér að þessu sinni. Og í öllu því tali, sem átt hefur sér stað og á sér stað enn að því er varðar þann sjálfsagða hlut að láta jarðhita og orkumál hafa forgang að því er varðar fjárútvegun, þá finnst mér a.m.k. og okkur, sem að þessari hækkunartill. stöndum, hart að þurfa við það að búa, að Vestfirðir geti ekki fengið 9–10 millj. kr. fjárveitingu til þess að rannsóknum verði haldið áfram með eðlilegum hætti, þannig að gengið verði úr skugga um hvað er hægt að gera á þessu svæði til þess að afla raforku. Ég hét á hæstv. núv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls að duga nú vel. Það hefur hann ekki gert. Það segja lítið þær 2 millj., sem til viðbótar hafa komið eftir mikla eftirgangsmuni. Ég heiti á hann enn að leggja okkur lið, þannig að orðíð verði við beiðni Orkustofnunar og haldið verði áfram eðlilegum rannsóknum á orkumálum á Vestfjarðasvæðinu á árinu 1975. Og ég heiti á fleiri en hæstv. fjmrh., ég heiti í fyrsta lagi á alla þm. Vestf. og helst af öllu vil ég leyfa mér að vona að sem flestir hv. þm. sýni þá rausn, ef rausn skyldi kalla, að þeir hleypi þessu máli í gegnum þingið nú við 3. umr., vegna þess að ég held að allir hv. þm. geti sett sig í spor okkar vestfirðinga að því er varðar þessi mál, því að eins og ég hef áður sagt, þá eru Vestfirðir vanþróaðasti landshlutinn að því er varðar raforkumál, eins og málin standa í dag.

Við flytjum sem sagt brtt., sem er þess efnis, að orðið verði við óskum Orkustofnunar eða þeim fjárveitingabeiðnum sem hún fór fram á að því er varðar vatnsorkurannsóknir á Vestfjarðasvæðinu, þannig að hækkunin frá því, sem er í fjárlagafrv., verði ekki 2 millj., heldur hækki þessi liður um 6 millj. 620 þús. og þannig verði orðið við beiðni Orkustofnunar að því er þetta varðar.

Ég held, að ég hafi þessi orð þá ekki fleiri að sinni. Ég hef gert grein fyrir þeim till., sem ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. stend að. Það er freistandi, fyrst og fremst vegna ræðu hæstv. samgrh. hér við 2. umr., að fara út í umr, um það mál, sem okkur greindi þá á um, og kannske gefst þess kostur að ræða við hæstv. ráðh. síðar í þessum umr. En ég geymi mér það að sinni, þar til frekar verður séð hvernig þessum umr. heldur fram.